Clarkson hefði getað dáið

Clarkson veiktist á Mallorca.
Clarkson veiktist á Mallorca. Ljósmynd/BBC

Breski sjónvarpsþáttastjórnandinn Jeremy Clarkson segir lækna hafa tjáð honum að hann hefði getað dáið vegna lungnabólgu sem hann fékk fyrr í mánuðinum.

Clarkson, sem nú fer með stjórn bílaþáttarins The Grand Tour, varð veikur á spænsku eyjunni Mallorca og hefur nú skrifað um veikindi sín í vikulegum dálki sínum í dagblaðinu Sunday Times, samkvæmt umfjöllun Guardian.

Segist hann hafa eytt þremur nóttum í krampaflogum í rúmi sínu, áður en læknir hafi sent hann á sjúkrahús til að gangast undir próf. Þar var honum tjáð að leggja þyrfti hann inn í að minnsta kosti viku, en hann svaraði að það væri honum ómögulegt.

Læknirinn mun þá hafa sagt við hann: „Ef þú gerir ekki eins og ég segi muntu deyja.“

mbl.is