Lögreglan rannsakar Mel B

Mel B stendur í skilnaði.
Mel B stendur í skilnaði. mbl.is/AFP

Kryddpían fyrrverandi Mel B hefur verið ásökuð um að ógna vitni í skilnaðardeilu sinni og Stephen Belafonte. Samkvæmt fréttaveitunni TMZ er lögreglan að rannsaka kryddpíuna. 

Mel B á að hafa haft í hótunum við rapparann Siyu með sms-i vegna þess að hún var tilbúin að bera vitni gegn Mel B. Eftir að Siya sýndi lögreglunni sms-ið var málið opnað hjá lögreglunni. 

Siya er sögð geta borið vitni um að Belafonte hafi aldrei beitt Mel B ofbeldi en rapparinn segist vera náin vinkona hjónanna. Vinir Mel B segja hana ljúga til um vináttuna og halda því fram að Mel B hafi aðeins hitt Siyu nokkrum sinnum. 

Siya er einnig tilbúin segja að Mel B hafi reglulega notað eiturlyf auk þess sem það hafi verið kryddpían sem hafi stungið upp á því að hjónin fengu barnfóstru sína, Lorraine Gilles, upp í rúm með sér. mbl.is