Fékk hálfan milljarð í skaðabætur

Rebel Wilson lætur ekki vaða yfir sig.
Rebel Wilson lætur ekki vaða yfir sig. mbl.is/AFP

Pitch Perfect-leikkonan Rebel Wilson fékk 4,5 milljónir dollara í skaðabætur, eða tæpan hálfan milljarð íslenskra króna, frá fjölmiðlafyrirtækinu Bauer Media. Auk þess mun Bauer Media borga allan málskostnað. 

Samkvæmt the Guardian fór Wilson í ærumeiðingarmál gegn fyrirtækinu sem gefur meðal annars úr Women's Day og Australian Women's Weekly eftir að fjölmiðlar fyrirtækisins birtu rangar staðhæfingar um hana í greinum sínum. „Í dag lauk löngu og hörðu dómsmáli gegn Bauer Media sem heiftuglega reyndi skaða mig með röngum greinum,“ skrifaði Wilson á Twitter eftir að niðurstaða komst í málið. 

Aldrei hafa verið borgaðar jafnháar skaðabætur í ærumeiðingarmáli í Ástralíu. Leikkonan ætlar ekki að eiga peningana sjálf heldur ætlar hún að gefa þá til góðgerðarmála í Ástralíu og til kvikmyndagerðar. 

mbl.is