Kiri hefur sungið sinn svanasöng

Sópransöngkonan Kiri Te Kanawa hefur ákveðið að hætta að koma ...
Sópransöngkonan Kiri Te Kanawa hefur ákveðið að hætta að koma fram opinberlega. AFP

Sópransöngkonan Kiri Te Kanawa, ein ástsælasta díva óperuheimsins, er hætt að syngja opinberlega.

„Ég vil ekki heyra rödd mína,“ segir Kiri í samtali við BBC. Ferill nýsjálensku söngkonunnar spannar yfir hálfa öld, en söngkonan varð 73 ára á þessu ári.

Kiri segir að söngur hennar á sviði tilheyri nú fortíðinni. „Þegar ég er að kenna ungum söngvurum og heyri fagrar og ferskar raddir þeirra vil ég ekki setja rödd mína samhliða þeirra.“

Kiri hefur komið fram í öllum stærstu óperuhúsum heimsins og tónleikahúsum. Hún skaust upp á stjörnuhimininn árið 1971 þegar hún söng hlutverk greifynjunnar í uppfærslu óperunnar í Covent Garden á Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart.

„Ég hef átt magnaðan feril,“ segir Kiri, en hún var gallhörð á því að það yrði í hennar höndum að ákveða hvenær hún myndi syngja sinn svanasöng. Það tók hana hins vegar tíma að sætta sig við þá ákvörðun. Hún kom síðast fram á sviði á tónleikum í Ballarat í nágrenni Melbourne í október á síðasta ári.

Söng fyrir 600 milljónir í konunglegu brúðkaupi

Fjöldi fólks hefur hlýtt á söng Kiri síðustu fimm áratugi en aldrei hafa jafn margir séð og heyrt hana syngja og í brúðkaupi Karls Bretaprins og Díönu prinsessu árið 1981. 600 milljónir fylgdust með Kiri flytja „Let the Bright Seraphim“ eftir Handel í athöfninni.

Kiri er mikill Íslandsvinur, en hún hefur komið reglulega hingað til lands og haldið tónleika, meðal annars með Garðari Thór Cortez. Hún kom til að mynda áhorfendum í Hörpu verulega á óvart á tónleikum sínum í Hörpu í febrúar árið 2012 þegar hún flutti lagið Sveitin milli sanda eftir Magnús Blöndal. Söngkonan var yfir sig hrifin af Hörpu og sagði við áhorfendur að hún hefði nú sungið í fallegasta tónleikasal í heimi.

Kiri mun nú einbeita sér að samtökum sínum, The Kiri Te Kanawa Foundation, þar sem hún mun þjálfa framtíðarstjörnur óperuheimsins.

Garðar Thór Cortes tenór og Kiri Te Kanawa á tónleikum ...
Garðar Thór Cortes tenór og Kiri Te Kanawa á tónleikum í Háskólabíó árið 2009. mbl.is/Friðrik Tryggvason
mbl.is