Keppa um Gullna lundann

Júlía Elena Martín í hlutverki Júlíu í spænku myndinni Júlia …
Júlía Elena Martín í hlutverki Júlíu í spænku myndinni Júlia ist.

Nú liggur fyrir hvaða kvikmyndir verða sýndar í flokknum Vitranir á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF, sem hefst 28. september nk. Í Vitrunum eru sýndar myndir sem keppa um aðalverðlaun RIFF, Gullna lundann, kvikmyndir sem eru annaðhvort fyrsta eða önnur mynd leikstjóra í fullri lengd en þessar myndir „ögra viðteknum hefðum í kvikmyndagerð og leiða kvikmyndalistina á nýjar og spennandi slóðir“, eins og segir í tilkynningu frá RIFF. Þeirra á meðal er kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Vetrarbræður, eða Vinterbrødre, sem er dönsk-íslensk og jafnframt opnunarmynd hátíðarinnar. „Kvikmyndin gerist í einangraðri verkamannabyggð yfir kaldan vetur. Þar fylgjum við tveimur bræðrum í gegnum venjur þeirra og hefðir og verðum vitni að því þegar ofbeldisfullar deilur brjótast út milli bræðranna og annarrar fjölskyldu á vinnustaðnum. Þetta er saga um skort á ást með áherslu á yngri bróðurinn og þörf hans fyrir að vera elskaður,“ sagði Hlynur í viðtali við Morgunblaðið á dögunum.
Sjálfsskoðun og ferðalög
God’s own country frá Bretlandi, eftir leikstjórann Francis Lee. Í henni segir af ungum manni sem rekur bóndabæ föður síns. Rúmeninn Gheorge er ráðinn til starfa á bænum og brátt myndast lostafullt samband milli mannanna tveggja.

Bandaríska kvikmyndin The Rider, í leikstjórn Chloé Zhao, segir af kúreka sem stendur á tímamótum eftir hörmulegt reiðslys sem gerir hann ófæran um að sinna ástríðu sinni. Brady leggst í sjálfsskoðun sem leiðir hann á ótroðnar slóðir.


Gabriel e a montanha er frönsk-brasilísk, eftir leikstjórann Fellipe Barbosa, og segir af Gabriel nokkrum sem ákveður að ferðast um heiminn áður en hann hefur háskólanám í Bandaríkjunum. Eftir margra mánaða ferð endar hann við Mulanje-fjall í Malaví.

Spænska kvikmyndin Júlia ist eftir leikstjórann Elenu Martín fjallar um arkitektúrnemann Júlíu sem gerist Erasmus-nemi í Berlín en lífið í Berlín reynist langt frá því að vera ævintýri.

3/4 eftir Ilian Metev er búlgörsk-þýsk kvikmynd sem fjallar um unga stúlku, Milu, sem er píanóleikari og undirbýr sig fyrir áheyrnarprufu erlendis. Niki, bróðir hennar, truflar hana með óæskilegum og furðulegum uppátækjum og faðir þeirra virðist ekki geta tekist á við kvíða barna sinna.

Soldatii. Poveste din Ferentari er rúmensk-serbnesk-belgísk framleiðsla, eftir leikstjórann Ivönu Mladenovic, og fjallar um mannfræðinginn Adi sem flytur í fátækrahverfi í Búkarest eftir að kærastan segir honum upp og ætlar sér þar að skrifa um manela-tónlist, popptónlist Rómafólks. Þar hittir hann fyrrverandi fanga og Rómamann, Alberto, og fljótlega hefst ástarsamband milli þeirra tveggja.


M er frönsk kvikmynd eftir leikstjórann Söru Forestier og segir af Lilu og Mo sem eru gjörólík en laðast þó hvort að öðru. Mo lumar hins vegar á leyndarmáli.



Ítalska kvikmyndin Disappearance eftir íranska leikstjórann Ali Asgari gerist í Tehran. Þar flakka ungir elskendur milli sjúkrahúsa í von um hjálp en brátt þurfa þau að horfast í augu við hörmulegar afleiðingar barnaskaps síns.

Miracle eftir leikstjórann Egle Vertelyte er litháensk-búlgörsk-pósk og segir af Irenu, eiganda svínbús. Hún er á barmi gjaldþrots en fær aðstoð úr óvæntri átt.


Elliheimili í tveimur myndum

Dreams by the Sea eftir Sakaris Storá er færeysk-dönsk og segir af Ester sem lifir tilbreytingasnauðu lífi á afskekktri eyju og hlýðir trúuðum foreldrum sínum án mótmæla. Dag einn flytur hin uppreisnargjarna Ragna í bæinn og saman njóta þær sumarnáttanna og láta sig dreyma um eitthvað annað og betra.


Distant Constellation er tyrknesk-bandaríks eftir leikstjórann Shevaun Mizrahi og er í tilkynningu lýst sem draumkenndri mynd sem gerist á elliheimili í Istanbúl. Íbúar sem lifað hafa tímana tvenna baða sig í athygli myndavélarinnar. Þau eru stríðnispúkar, sagnfræðingar og kvennabósar, segir m.a. um myndina.

Að lokum er það svo ítalska kvikmyndin Dove cadono le ombre eftir leikstjórann Valentinu Pedicini sem keppir um Gullna lundann. Í henni segir af hjúkrunarfræðingnum Önnu og aðstoðarmanni hennar, Hans. þau vinna á elliheimili sem áður var munaðarleysingjahæli, voru fangar á hælinu sem börn og virðast enn vera fangar í tíma og rúmi, eins og því er lýst. kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.


Kvikmyndirnar hafa flestar hlotið margvísleg verðlaun og þá m.a. á virtum kvikmyndahátíðum, m.a. í Cannes og Feneyjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler