Finnland og norðurslóðir í öndvegi

Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF.
Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF. mbl.is/RAX

Loksins er komið að viðburðinum sem kvikmyndaunnendur hafa beðið eftir í heilt ár: Blásið verður til Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, Reykjavik International Film festival, dagana 28. september til 8. október og von á mikilli veislu fyrir þá sem kunna að meta gott bíó.

Það var árið 2004 að smár hópur áhugamanna um kvikmyndir setti hátíðina á laggirnar. Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, segir að það sé til marks um þá stöðu sem hátíðin hefur hlotið, sem alþjóðlegur kvikmyndaviðburður, hve vel gengur að fá virta erlenda leikstjóra til að taka þátt í dagskránni. Að þessu sinni eru heiðursgestir kvikmyndahátíðarinnar þrír: hinn franski Olivier Assayas var valinn besti leikstjórinn á Cannes 2016 fyrir myndina Personal Shopper, hin unga og upprennandi Valeska Grisebach frá Þýskalandi, og síðan sjálfur Werner Herzog. Oliver og Werner eru væntanlegir til landsins en Valeska forfallaðist á síðustu stundu.

Werner Herzog.
Werner Herzog. afp

Jöfrar sitja fyrir svörum

„Bæði Werner Herzog og Olivier Assayas munu taka virkan þátt í dagskránni og sitja þeir báðir m.a. fyrir svörum í svokölluðu meistaraspjalli og hitta auk þess áhorfendur á spurt og svarað bíósýningum auk þess sem Herzog mun halda kennslustund fyrir meistaranemendur í myndlist hjá Listaháskólanum,“ segir Hrönn og bætir við að hún sé afskaplega spennt að hitta þessa tvo virtustu leikstjóra Frakklands og Þýskalands.

Olivier Assayas.
Olivier Assayas.

„Olivier á langan feril að baki, hefur hlotið ógrynni verðlauna fyrir verk sín. Hann fjallar iðulega um sammannlega þætti í myndum sínum, en til þessa hafa margar kvikmyndir hans ekki verið sýndar á Íslandi,“ segir Hrönn. Werner þarf varla að kynna fyrir lesendum, enda afkastamikill og fjölhæfur listamaður sem hefur leikstýrt aragrúa kvikmynda, stuttmynda og heimildarmynda, látið að sér kveða í óperuheiminum og í seinni tíð brugðið á leik sem gestaleikari og raddleikari í þáttum og kvikmyndum á borð við Jack Reacher, Parks and Recreation og Rick and Morty.

Hátíð á mörgum stöðum

Miðstöð kvikmyndahátíðarinnar verður í Háskólabíói, en hún breiðir úr sér um bæinn og raunar um allt landið. „Auk Háskólabíós verðum við með sýningar í Norræna húsinu og síðan á víð og dreif um bæinn undir merkjum RIFF um alla borg. Hefur skapast hefð fyrir því að sýna styttri myndir á óvenjulegum stöðum, m.a. á bókasafni, félagsmiðstöð og verslunum á Laugavegi, svo allir geti takið þátt í RIFF þótt þeir mæti ekki í myrka bíósali,“ segir Hrönn.

Sú breyting verður á hátíðinni í ár að nokkrar myndir á dagskránni verða fáanlegar í streymiþjónustu Símans. „Við gerðum samstarfssamning við Símann til að stuðla að því að fólk sem býr í öðrum landshlutum, eða á ekki heimangengt, t.d. vegna veikinda, geti notið þessa listviðburðar án þess að þurfa að gera sér ferð alla leið til Reykjavíkur. Erum við mjög ánægð með að geta boðið upp á sérvaldar kvikmyndir með þessum hætti.“

Horft til norðurslóða

Venju samkvæmt er eitt heildarþema sem einkennir dagskrá kvikmyndahátíðarinnar, og að auki er kastljósinu beint að tilteknu landi. Í ár er þemað Norðurslóðir og landið er Finnland. Hrönn segir að val á landi og þema hafi m.a. ráðist af því að Finnnar fagna í ár 100 ára fullveldisafmæli. Þá hafa sjónir fræða- og vísindasamfélagsins í auknum mæli beinst að norðurslóðum, og forvitnilegt að skoða þennan kalda heimshluta eins og hann birtist í kvikmyndum og heimildarmyndum.

Í tengslum við kvikmyndahátíðina verður efnt til málþings um norðurslóðir þar sem RIFF mun leiða saman fólk úr heimi lista og vísinda til að ræða m.a. þær ógnir sem stafa að vistkerfum þessa svæðis. „Í gegnum kvikmyndirnar sem við sýnum gefst almenningi síðan færi á að fá aukinn skilinnig á hvernig lífið er í norðlægum löndum, hvaða breytingar eru að verða þar, og hvað fólkið sem býr á norðurslóðum hefur að segja um framtíð heimkynna sinna. Frumsýnum við bíómyndir sem kannski færa áhorfandanum alveg nýja sýn á þennan heimshluta.“

Segir Hrönn að þegar að sé gáð megi sjá að fleira en veðurfarið tengir saman löndin á norðurhjara veraldar. Hrönn hlær þegar blaðamaður spyr hvort það sé ekki smá Ingmar Bergman í öllum kvikmyndum sem verða til norðan við ákveðna breiddargráðu: „Það má kannski segja það, og oft ákveðinn alvarleiki í myndum af þessum slóðum. En það á kannski eftir að koma gestum hátíðarinnar á óvart hve fjölbreyttar myndirnar sem við sýnum eru, og hve skemmtilegar. Þær fjalla um allt milli himins og jarðar og eru myndir sem við getum speglað okkur í. En það er rétt að fólkið sem býr á norðurslóðum deilir iðulega menningareikennum, vissri birtu og landslagi,“ segir Hrönn og ljóstrar því upp að hugmyndin hafi kviknað á hátíð sem hún sótti í Alaska, þar sem margt minnti hana á Ísland.

Finnsk hommaerótík

Er mjög vel til fundið að beina kastljósinu líka að finnskri kvikmyndagerð í ár. Er mikið um dýrðir í Finnlandi núna þegar þessi vinaþjóð Íslands fagnar því að öld er liðin frá því landið öðlaðist sjálfstæði frá Rússlandi. Af því tilefni hafa finnsk stjórnvöld m.a. fjármagnað endurgerð á helstu perlum kvikmyndasögu landsins, og því hægt að sjá á RIFF margar öndvegismyndir finnskra leikstjóra í mestu mögulegu hljóð- og myndgæðum. Nefnir Hrönn að meðal annars verði myndum þeirra Kaurismaki-bræðra gerð mjög góð skil í dagskrá hátíðarinnar, en líka sýndar nýrri myndir á borð við hina mjög svo áhugaverðu kvikmynd um Tom of Finland:

„Sú mynd hlaut einmitt á dögunum Fipresci-verðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg og hefur farið sigurför um heiminn. Hún segir sögu Touko Laaksonen sem skapaði hómóerótískan og heimsfrægan teiknimyndaheim Tom of Finland,“ segir Hrönn. Lesendur ættu að kannast við teikningar Laaksonen enda þykja þær hafa einstakan stíl og hafa meira að segja ratað á frímerki í seinni tíð. Þóttu teikningarnar þó með allra djarfasta móti upp úr miðri síðustu öld þegar verk Laaksonen birtust fyrst opinberlega. „Við sýnum ekki aðeins nýju kvikmyndina heldur munum við, í samvinnu við finnska sendiráðið og fleiri, halda sölusýningu á Tom of Finland-teikningum í Háskólabíói, og höfum fengið verk frá Tom of Finland-safninu í Los Angeles. Hlökkum við agalega mikið til að fylla Háskólabíó af óþvinguðum, stæltum og stoltum hommum í erótískum stellingum sem síðan í framhaldinu geta jafnvel prýtt heimili landsmanna, og að sjálfsögðu að fá aðalleikara myndarinnar, Pekka Strang, til að ræða við gesti á frumsýningu.“

Hrönn bætir við að það sé synd að finnskar myndir sjáist ekki oftar í íslenskum kvikmyndahúsum, og gott að geta núna sýnt landsmönnum sumar bestu myndir finnskra leikstjóra. Meðal áhugaverðra finnskra kvikmynda á RIFF í ár má nefna Góðhjartaða drápsmanninn eftir Teemu Nikki, Hvert annað par eftir Mia Halme, Álagasögur Kaisu eftir Kötju Gauriloff og Faðir minn frá Síríus eftir Einari Paakkanen.

„Í sumum myndunum er melankólía og drungi, eins og margir gætu vænst af frændum okkar Finnum, en þeir framleiða fjölbreytta flóru kvikmynda og ætti fólk ekki að mæta á sýningar hátíðarinnar með fyrirfram mótaðar skoðanir á finnskum kvikmyndum.“

Tæknin kemur unnendum góðra kvikmynda til bjargar 

Fólk hefur ólíkar skoðanir á því hvert kvikmyndagerð er að stefna sem listform. Sumir benda á að vandaðar og frumlegar myndir sjáist æ sjaldnar í kvikmyndahúsum, og hafi verið bolað þaðan út af formúlumyndum frá Hollywood. Við það bætist síðan vaxandi samkeppni um athygli fólks og tíma, og kvörtuðu t.d. kvikmyndaframleiðendur vestanhafs yfir því að síðasta bíósumar hefði verið með lakasta móti, m.a. vegna harðari samkeppni frá hágæða sjónvarpsefni á borð við Game of Thrones.

Hrönn segir kvikmyndaheiminn greinilega vera að breytast, þó kvikmyndaunnendur þurfi kannski ekki að örvænta: „Það er þó allt annað en einfalt í dag að vera óháður kvikmyndaleikstjóri og ætla að komast á samning hjá dreifingaraðila, og peningunum er mjög misskipt. Að því sögðu þá virðist almenningur mjög áhugasamur um kvikmyndir, og ekki hvað síst unga fólkið sem leggur sig fram við að vera með á nótunum og horfa á erlendar og listrænar myndir í bland við allt hitt. Því var spáð að RIFF væri dauðadæmd hátíð og að áhuginn á listrænum og alþjóðlegum kvikmyndum færi þverrandi, en svo reyndist alls ekki vera. Hugsa ég að RIFF hafi átt þátt í að hrinda af stað ákveðinni vakningu í samfélaginu.“

Bendir Hrönn líka á að á meðan stóru stúdíóin barma sér yfir harðnandi samkeppni þá hafi tæknin fært leikstjórum nýjar og betri leiðir til að taka upp myndir sínar og dreifa þeim, og bætt aðgengi áhorfenda að myndum sem áður gat verið ómögulegt að finna. „Við sjáum t.d. að nýir streymirisar á borð við Amazon og Netflix eru að kaupa og sýna myndir sem áður voru ekki endilega á boðstólum í kvikmyndahúsum. Á Íslandi hafði það gerst að við misstum smám saman niður þá hefð hjá kvikmyndahúsunum að sýna sem fjölbreyttasta flóru kvikmynda, en ég tel að viðsnúningur sé að verða, m.a. með batnandi aðgengi að streymdu efni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú freystast til að gefa upp á bátinn þann sjálfsaga sem þú hefur tamið þér en nú er einmitt tíminn til að þrauka. Verrtu bara eins og þú átt að þér og þá muntu sjá hverjir eru vinir þínir.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú freystast til að gefa upp á bátinn þann sjálfsaga sem þú hefur tamið þér en nú er einmitt tíminn til að þrauka. Verrtu bara eins og þú átt að þér og þá muntu sjá hverjir eru vinir þínir.