Sögð greiða staðgöngumóðurinni háa upphæð

Kim Kardashian á von á sínu þriðja barni í febrúar.
Kim Kardashian á von á sínu þriðja barni í febrúar. AFP

Kim Kardashian og eiginmaður hennar, rapparinn Kanye West, hafa loks staðfest að þau eigi von á sínu þriðja barni. Raunveruleikastjarnan er sjálf þó ekki þunguð, því hjónin fengu staðgöngumóður til að ganga með barnið. Von er á nýjasta fjölskyldumeðlimnum í febrúar á næsta ári, og mun vera um stúlku að ræða.

Samkvæmt frétt Daily Mail eru hjónin talin hafa greitt staðgöngumóðurinni 75 þúsund Bandaríkjadali, eða tæpar átta milljónir íslenskra króna, fyrir að ganga með barnið. Þá er hún sögð fá 4.500 dali, eða tæpar 480 þúsund krónur, í vasapening á mánuði auk þess sem hún er sögð munu fá bætur verði barnið tekið með keisaraskurði.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hin ónafngreinda kona tekur að sér að vera staðgöngumóðir, en hún er fyrst sögð hafa tekið slíkt að sér árið 2014.

mbl.is