Tökur hefjast brátt á Ófærð 2

Baltasar með Robert Richardson, kvikmyndatökustjóranum þekkta, við tökur á Adrift.
Baltasar með Robert Richardson, kvikmyndatökustjóranum þekkta, við tökur á Adrift. Heimir Sverrisson

„Við erum búin að skrifa handritin og erum að vinna áfram í þeim á fullu. Það eru komnir tíu þættir en svo er alltaf verið að vinna í þeim, bæta og laga,“ segir leikstjórinn Baltasar Kormákur, spurður að því á hvaða stigi framhald hinnar vinsælu sjónvarpsþáttaraðar Ófærðar sé. Hann segir tökurnar fara fram á Siglufirði, líkt og tökur fyrri þáttaraðar og hefjast þær eftir tæpar tvær vikur. „Þáttaröðin gerist meira á Siglufirði og í sveitinni þar í kring og í Reykjavík.“

–Verður þá ekki ófært í Ófærð 2?

Baltasar hlær. „Nei, nú er það meira svona „trapped“,“ segir hann og vísar þar í enskan titil þáttaraðanna. Fólk verði fast í bænum, öll sund lokuð líkt og í fyrri syrpu.

Þekking Yrsu kemur sér vel

Baltasar átti hugmyndina að sögu beggja þáttaraða og Sigurjón Kjartansson og Bretinn Clive Bradley skrifa handrit Ófærðar 2, líkt og fyrri seríu auk þess sem glæpasagnahöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir og Margrét Örnólfsdóttir koma einnig að skrifum nýju syrpunnar. „Það var mjög gott að fá þær á sínum tíma og Yrsa er ágætlega að sér í jarðeðlisfræði sem kemur að góðum notum,“ segir Baltasar kíminn, um aðkomu þeirra Yrsu og Margrétar. Ekki má fara nánar út í þá sálma, hvernig jarðeðlisfræði mun koma við sögu.

Baltasar er spurður að því hvort mikill munur verði á seríunum tveimur og segir hann að munurinn verði hæfilegur. „Mig langar ekki að endurtaka of mikið en vil þó ekki fara með þetta í allt annað þorp eða á allt annan stað.“

Ugla í hópi leikstjóra

Leikstjórar Ófærðar 2 verða fjórir, Baltasar mun leikstýra fyrsta og síðasta þættinum og Óskar Þór Axelsson og Börkur Sigþórsson snúa aftur en ólíkt fyrri syrpu verður kona í stóli fjórða leikstjóra, Ugla Hauksdóttir, sem Baltasar segir einkar hæfileikaríka.

Aðalleikarar Ófærðar snúa aftur, Ólafur Darri Ólafsson, Ilmur Kristjánsdóttir og Ingvar E. Sigurðsson en fjöldi nýrra persóna kemur við sögu. „Okkur langaði ekki að vera of mikið með sama fólkið,“ segir Baltasar og bætir við að áhorfendur þurfi ekki að hafa séð Ófærð til að njóta nýju seríunnar. Af þeim leikurum sem verða í Ófærð 2 nefnir hann Stein Ármann Magnússon, Elvu Ósk Ólafsdóttur, Sólveigu Arnarsdóttur, Valdimar Örn Flygenring, Guðjón Davíð Karlsson og rapparann Sturlu Atlas.

Ófærð hlaut evrópsku sjónvarpsverðlaunin, Prix Europa, fyrir bestu sjónvarpsþáttaröð í Evrópu í fyrra og segir Baltasar það mikinn heiður. Serían hafi hlotið gríðarmikið áhorf, það mesta sem íslensk sjónvarpsþáttaröð hafi nokkurn tíma fengið og hann vilji nýta þennan vettvang til að fjalla um hitamál sem séu ofarlega á baugi í íslensku samfélagi. „Ég vona að hún sé jafnvel meira „relevant“ en sú fyrri, fjalli um heit mál á Íslandi í dag,“ segir Baltasar um Ófærð 2. „Ég vona að okkur takist að vera með umfjöllunarefni sem eru mjög heit og skipta máli. „Nordic noir“ notar svolítið þetta form til að fjalla um samfélagið í kringum okkur og íslenska þorpið er freistandi vettvangur til að eima íslenska pólítík og átakamál, án þess þó að þau verði of flókin. Þau verða að snúast um fólk á sama tíma. Ég vil ekki vera í pólitísku þrasi og reyni að gera ekki lítið úr fólki, hvort sem það er til vinstri eða hægri. Mér finnst áhugaverðara að setja debat á svið og sjá fólk kljást án þess að það verði fyrirsjáanlegt.“

–Mun þessi sería fara jafnvíða og hin eða jafnvel víðar?

„Það er búið að selja hana, held ég, jafnvíða eða víðar en hina seríuna. Hún mun fara um allan heim og verður sýnd á besta tíma. Maður veit aldrei hver viðbrögðin verða en þau voru virkilega góð við þeirri síðustu,“ segir Baltasar.

Shailene Woodley á Emmy-verðlaunahátíðinni 17. september síðastliðinn.
Shailene Woodley á Emmy-verðlaunahátíðinni 17. september síðastliðinn. AFP

Úrelt krafa

Ófærð 2 hlaut vilyrði fyrir 60 milljóna kr. styrk úr Kvikmyndasjóði þó að ekki væri búið að klára handrit að öllum þáttunum, sem mun vera skilyrði, eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Hver er þín afstaða í þessu máli?

„Reglur úreldast oft, eins og við vitum, og menn eru oft að bera saman þáttaraðir með fjórum þáttum annars vegar og tíu þáttum hins vegar. Í heimi sjónvarpsþátta er enginn að skrifa tíu þætti og fer svo og reynir að fjármagna þá. Þetta eru 600 bls. eða þar um bil, rosalega mikil vinna og það er engin sjónvarpsstöð sem fer fram á að handrit allra þáttanna séu fullkláruð. Þú skrifar yfirleitt „pilot“ [fyrsta þáttinn, innsk.blm.] og svo söguþráðinn áfram og þannig er þetta yfirleitt selt. Við seljum seríuna á fjórum þáttum út um allan heim, t.d. til BBC og ZDF, stærstu ríkissjónvarpsstöðvanna í Evrópu. Þær kaupa hana út frá fjórum þáttum,“ svarar Baltasar. „Þessi krafa sjóðsins er í raun algjörlega úrelt, það eru gerðar meiri kröfur um skil á efni í sjóðnum en eru gerðar hjá sjónvarpsstöðvum erlendis sem kaupa efnið. Þetta er hvergi annars staðar gert,“ bætir hann við.

–Og það er enn verið að vinna í handritunum þegar tökur eru hafnar, ekki satt?

„Jú, það er verið að þróa þau og breyta þeim og þetta er svo mikill misskilningur, þessi krafa um fullklárað handrit. Það hafa aldrei verið fjármögnuð fullkláruð handrit á Íslandi vegna þess að þú skrifar handritið, færð fjármagn og ert svo að vinna áfram í handritinu og laga það fram á síðasta dag. Það er verið að ráðast þarna á sjónvarpsþáttaröð sem er sennilega með meira áhorf erlendis en allt íslenskt sjónvarpsefni samanlagt,“ svarar Baltasar. Landslagið sé orðið gjörbreytt frá því sem áður var hvað varðar íslenska sjónvarpsþætti og styrkurinn til Ófærðar hafi skilað sér margfalt til baka. „Við erum að koma með peninga inn í landið,“ segir Baltasar. Það hafi verið óþægilegt að fylgjast með þessari umræðu á Íslandi á meðan hann hafi verið í tökum á Fídjieyjum og ekki haft tíma til að blanda sér í hana. „Ég tel það heillavænna að kvikmyndagerðarmenn horfi fram á veginn og bæti það sem betur má fara í regluumhverfi sjóðsins í stað þess að ráðast hver gegn öðrum og hengja sig í orðhengilshátt og úreltar reglugerðir.“

Einn flottasti kvikmyndatökumaður heims

Berst þá talið að Adrift, kvikmyndinni sem Baltasar lauk nýverið tökum á en þær fóru fram á Fídjieyjum í fjóra mánuði og á Nýja-Sjálandi í mánuð. Handrit myndarinnar er byggt á sönnum atburði og segir af ungu pari sem tók að sér að sigla skútu frá Tahítí til San Diego og lenti í versta fellibyl sögunnar á leiðinni. Konan, Tami Oldham, lifði af en unnusti hennar, Richard Sharp, drukknaði. Með hlutverk Oldham og Sharp fara tvær ungar Hollywood-stjörnur, Shailene Woodley og Sam Claflin.

Baltasar segir tökurnar hafa gengið rosalega vel en þær fóru að stórum hluta fram á sjó. „Ég var með einn flottasta kvikmyndatökumann í heimi, Robert Richardson, þannig að þetta var rosalega skemmtilegt,“ segir Baltasar en Richardson hefur hlotið Óskarsverðlaun fyrir bestu kvikmyndatöku þrisvar sinnum, fyrir JFK, Aviator og Hugo og verið tilnefndur sex sinnum til viðbótar. „Við áttum alveg frábært samstarf,“ segir Baltasar um Richardson. Nú taki við klipping á Adrift og þar sé einnig Óskarsverðlaunahafi á ferð, John Gilbert, sem hlaut Óskarinn á þessu ári fyrir klippingu á Hacksaw Ridge. „Hann er í næsta herbergi að klippa,“ segir Baltasar og bendir í áttina að klippiherberginu.

„Við ákváðum að gera þetta eins raunverulegt og hægt væri þannig að þetta var eins erfitt og það gat orðið,“ segir Baltasar um tökurnar. Hann hafi fengið nýsjálenska siglingakappa til liðs við sig. „Gaurar sem kunna þetta vel voru að aðstoða mig og ég er náttúrlega siglingamaður sjálfur, var margfaldur Íslandsmeistari hérna í gamla daga,“ bætir hann við.

–Hvernig var þetta gert?

„Þú skýtur náttúrlega ekki í fellibyl þannig að þú verður að búa til þann hluta en stór hluti af þessu var tekinn upp á bátnum, 60 feta skútu. Í sumum tökunum vorum við með myndavélina og tökuliðið á skútunni og það voru mikil þrengsli, 20 manns á svona báti að vinna. Það voru allir ælandi fyrsta daginn, leikararnir köstuðu upp og svo var bara kallað „action!“,“ segir Baltasar og glottir. „Svo vorum við með annan risastóran bát með krana á og sigldum honum með skútunni og tókum upp. Við tókum líka upp neðansjávar,“ bætir hann við og að ýmislegt hafi svo þurft að gera með tölvubrellum.

Ingvar E. Sigurðsson, Ólafur Darri Ólafsson og Ilmur Kristjánsdóttir í …
Ingvar E. Sigurðsson, Ólafur Darri Ólafsson og Ilmur Kristjánsdóttir í Ófærð. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

–Voru þetta góðir aðalleikarar, Woodley og Claflin?

„Já, alveg frábærir. Shailene Woodley er hörkuleikkona og gerði öll áhættuatriðin sjálf, kafaði t.d. neðansjávar og var ofboðslega mikið til í að fara alla leið með þetta. Hún var frábær og Sam Claflin er flottur og efnilegur leikari,“ svarar Baltasar. Hann segir Adrift að hluta til ástarsögu Oldham og Sharp. „Ég hitti konuna sem þessi saga er um, hún var með okkur og þetta er svona ástarsaga undir þessum kringumstæðum. Þú sérð báðar hliðar á málinu, erfiðustu aðstæður og þær rómantískustu, þegar þau voru ástfangin á Tahítí,“ segir Baltasar.

Nesbø í Gufunesi?

Baltasar er eins og alltaf með mörg járn í eldinum. Hann mun leikstýra kvikmynd eftir bók norska rithöfundarins Jo Nesbø, I am Victor, en handritið skrifa Neal Purvis og Robert Wade sem skrifað hafa handrit síðustu kvikmynda um njósnarann James Bond. Þá hefur margumrædd víkingamynd Baltasars verið lengi í pípunum og hann var að kaupa kvikmyndaréttinn að norskri bók sem hann vill ekki segja hver er að svo stöddu. Ekki má svo gleyma Sjálfstæðu fólki sem Baltasar ætlar bæði að vinna úr kvikmynd og sjónvarpsþætti. Og er þá ekki allt upp talið.

Baltasar segir að hann velji sér verkefni af kostgæfni og þyki frábært að geta unnið erlendis og fengið almennilega greitt fyrir. „Svo get ég búið til tækifæri hérna,“ segir hann og bendir á kvikmyndaverið sem RVK Studios ætlar að reisa í byggingum sem áður hýstu Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi. „Ég vil færa sem mesta vinnu hingað og það getur vel verið að hluti af Jo Nesbø-myndinni verði tekinn upp þar, það er ekkert sem segir að ekki sé hægt að gera það. Við erum að skoða þá möguleika og svo er líka spennandi að byggja upp hverfi þarna.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant