Ferðast um ókunnar víddir

Úr Darkside.
Úr Darkside.

Sviðsaðlögun á útvarpsleikverki Toms Stoppards, Darkside, í uppfærslu Burning Coal-leikfélagsins og leikstjórn Pálínu Jónsdóttur, var frumsýnd 12. október sl. í Raleigh í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Verkið samdi Stoppard út frá plötu Pink Floyd, The Dark Side of the Moon, fyrir breska ríkisútvarpið BBC árið 2013. Pálína útskrifaðist úr meistaranámi í leikstjórn við hinn virta Columbia-háskóla í New York nú í vor og var útskriftarverkefni hennar uppfærsla á nýrri leikgerð sem hún skrifaði einnig eftir skáldsögu danska rithöfundarins Karenar Blixen, Gestaboði Babettu. Verkið var sýnt í The Connelly Theater í New York í byrjun mars en nú er Pálína komin til Norður-Karólínu.

Pálína Jónsdóttir.
Pálína Jónsdóttir.

Pálína er spurð að því hvernig hún hafi fengið þetta verkefni í hendurnar, að leikstýra Darkside, og segir hún að meistari hennar við Columbia, Anne Bogart, hafi haft samband við hana í mars sl. til að láta hana vita af því að leikhússtjóri Burning Coal hefði beðið hana að mæla með leikstjóra fyrir nýja sviðsetningu á verki Stoppard og Pink Floyd og nefndi hún Pálínu. „Leikhússtjórinn hafði í framhaldinu samband við mig til að kanna hvort ég hefði áhuga á að leikstýra verkinu sem upphaflega var skrifað sem útvarpsdrama árið 2013 í tilefni af 40 ára útgáfuafmæli Dark Side of the Moon eftir Pink Floyd. Verkið vakti vitaskuld strax áhuga minn og eftir að ég gat gefið mér tíma til að skoða það til hlítar tók ég tilboði hans um að leikstýra því. Ég opnaði leikárið 2017-2018 fyrir leikhúsið og frumsýndi verkið 12. október í Raleigh,“ segir Pálína.

Hrífandi bræðingur

– Hvað geturðu sagt mér um þetta leikfélag sem sýnir verkið?

„Þegar ég kom að verkinu hafði ég engin kynni af leikfélaginu, Burning Coal Theatre Company. Ég hélt til Raleigh í byrjun maí til að velja leikara fyrir það sem eru átta talsins og ég var og er sérstaklega ánægð með þau „talent“ sem ég valdi. Helgina sem ég valdi leikarana var uppsetning á vegum leikhússins í æfingum, verkið The Greeks sem þau settu upp í samstarfi við CAM eða Contemporary Art Museum og er trílógía byggð á Ödipusi konungi, Ödipusi í Kolónos og Antigónu eftir Sófókles sem ég sá því miður ekki. En ég hreifst af þessu samstarfi sem var sýnt í listasafninu og sjálf hef ég mikinn áhuga á svona bræðslum. Af verkefnavali þeirra að dæma setur leikhúsið upp mikið af bæði nýjum og klassískum verkum, ásamt söngleikjum. Leikfélagið rekur auk þess listaskóla meðfram starfseminni en listræni stjórnandinn sem réð mig til verksins er fyrrverandi nemandi Ute Haagen og býður upp á námskeið í leiktúlkunaraðferðum sem kenndar eru við hana, auk þess að vera með námskeið fyrir börn og unglinga í textum Shakespeare,“ svarar Pálína.

– Er þetta frumflutningur á sviðsaðlögun af þessu útvarpsverki Stoppard?

„Já, sviðsetning mín á þessum hljóðskúlptúr sem ég er að aðlaga fyrir leiksvið er frumuppfærsla á verkinu á austurströnd Bandaríkjanna. Tvær aðrar uppfærslur á verkinu hafa verið framleiddar í Bandaríkjunum en þeim hef ég ekki flett upp svo ég hef ekki hugmynd um hvaða nálgunarleið var farin í þeim sviðsetningum.“

Heimspekinemi leitar svara

– Verkið er byggt á plötu Pink Floyd, um hvað fjallar það?

„Verkið fjallar um unga stúlku sem ber nafnið Emily McCoy sem er heimspekistúdent sem með rannsókn sinni leitar svara við spurningunni um „hið góða“. Hún er í læri hjá prófessor í siðfræði og veltir fyrir sér með gagnrýnum hætti ótal kennisetningum helstu siðfræðiheimspekinga sögunnar eins og Plato, Kant, Rousseau, Nietzsche, Bentham Mills og fleiri,“ svarar Pálína.

Spurning McCoy sé hreyfiafl verksins og sú köllun hennar að reyna að bjarga heiminum frá glötun. „Stúlkan er gædd góðum gáfum og innsæi auk þess sem hún heyrir og sér annað og meira en aðrir og er þar af leiðandi í meðferð hjá geðlækni við röddunum sem ásækja hana. Á mörkum draums og veruleika ferðast hún um ókunnar víddir í leit að svari við spurningunni í þeim ásetningi að tilkynna mannkyninu niðurstöðuna þegar hún er búin að finna réttu orðin sem geta magnað upp frelsunarkraftinn undan hinu illa.“

Liggur mikið á hjarta

Pálína segir augljóst að Stoppard liggi mikið á hjarta og hann geri einu kvenpersónu verksins að málpípu sinni sem búi yfir innsæi og kærleika, nokkru sem átakanlegur skortur sé á í heiminum nú sem endranær.

„Stoppard skrifar prósa sem er bæði fljótandi og skynörvandi í anda plötunnar svo ég hef þurft að finna dramatúrgíska leið til að láta framvindu verksins lifa trúverðugu lífi á leiksviðinu svo áhorfandinn geti áttað sig á lógískum þræði verksins. Stoppard vísar í mörg höfuðrit heimspekinnar og stundar orðaleiki og orðfleyga af miklu kappi sem virka eins og gátur sem þarf að leysa. Mér varð strax ljóst að Stoppard byggir persónu Emily á Sid Barret forsprakka Pink Floyd sem var greindur með geðklofa og svo er verkið fullt af táknum og vísunum í önnur verk, t.d. úr kvikmyndum og persónur eins og Jóhönnu af Örk og Dórótea í Galdrakarlinum í Oz.“

Tónlistin ofin inn í verkið

–Nú eru lögin af plötunni væntanlega hluti af verkinu, hvernig eru þau flutt, eru þau sungin og leikin af leikurum eða hljómsveit?

„Öll tónlist plötunnar er ofin inn í verkið og er bæði notuð sem undir- og yfirstrikun verksins. Ég nota upprunalegar hljóðupptökur plötunnar sjálfrar og datt ekki í hug að notast við hljóðfæraspil og líkingar á borð við „cover band“ til að sjá um þann hluta sviðsetningarinnar. Ég þurfti hins vegar að fara í hljóðver til að taka upp raddir sem Stoppard skrifar inn í verkið og blandast inn í hljóðheim verksins,“ svarar Pálína.

– Þekktir þú sjálf vel til plötunnar?

„Ég þekki plötuna, hvernig er annað hægt?“ svarar Pálína kímin. Hún geti hins vegar ekki sagt að hún hafi þekkt hana vel á þeim mælikvarða að hafa stúderað hana sérstaklega áður en hún tók verkið að sér. „Ég átti ekki plötuna en man best eftir „Money“ úr fyrndinni þar sem það var svo mikill hittari í uppvexti mínum.“

Stoppard vonandi ánægður

– Hefurðu verið í samskiptum við Stoppard eða hitt hann?

„Við Stoppard höfum ekki hist en hann veit að ég er að leikstýra þessu verki eftir hann.“

– Kom hann sjálfur að þessari sviðsaðlögun?

„Nei, ekki á neinn hátt, það er alfarið í mínum höndum,“ segir Pálína og að það sé einstakt tækifæri að vera treyst fyrir jafn margslungnu verki og Darkside, eftir eitt helsta lifandi leikskáld okkar tíma og mikil ábyrgð og ánægja að finna verkinu leiksviðsbúning og túlkun sem samsvari efnisvali og ásetningi höfundarins. „Ég vona að hann verði glaður með útkomuna, ef hann kemst til að sjá sýninguna, en hann er áttræður og býr í London.“

Tónlistin tilfinningalegt landslag aðalpersónunnar

– Hvernig umbreytir maður útvarpsverki í sviðsverk?

„Útvarpsverk er augljóslega hljóðverk sem leikur við skynfæri heyrnarinnar eins og öll röddun, tónlist og hljóð gera. Mitt verk er að búa verkinu þrívíðan, sýnilegan heim sem upplýsir sjónskyn áhorfandans og gefur honum þannig heildræna sýn á verkið sem ég yrki út frá mínu sjónarhorni í nánu „samtali“ við höfundinn,“ svarar Pálína. Stoppard skrifi fjórtán gangverk eða hreyfingar inn í verkið með jafnmörgum titlum sem hann yrki við tónlist plötunnar í krónólógískri röð en að öðru leyti séu engin fyrirmæli önnur í verkinu.

„Ég hef ég valið þá leið að búa til „total theatre“ sem sameinar hina óperatísku hljóðmynd verksins og prósann við líkamslist leikarans, myndlist og arkitektúr. Ég hef skilgreint tónlistina í verkinu sem tilfinningalegt landslag aðalpersónu þess og hef hugmyndamótað verkið inn í heim leikmyndar sem er útvíkkun á hugsun aðalpersónunnar og staðset áhorfandann þannig inni í hennar skynheimi. Þessi hlutgerði heimur er strúktúr í þríhyrndu formi sem leyfir framvindu verksins að myndhverfast eins og hugmynda- og hugsanaflæði þar sem sýnir myndast og hverfa á flæðandi hátt í anda verksins.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson