Leikarinn syngur ný og klassísk sjómannalög

Jóhann Sigurðarson leikari ásamt nokkrum félaga sinna í hljómsveitinni Flottasta …
Jóhann Sigurðarson leikari ásamt nokkrum félaga sinna í hljómsveitinni Flottasta áhöfnin.

„Faðir minn var sjómaður til 25 ára svo lögin eru í hjartarótinni á manni,“ segir Jóhann Sigurðarson, leikari og söngvari, þegar hann er spurður út í tónleikana sem hann heldur í Salnum í Kópavogi í kvöld, föstudagskvöld, klukkan 20. Yfirskrift þeirra er „Flottasta áhöfnin í flotanum“ og mun Jóhann syngja sjómannalög, bæði gömul og ný, segja sögur og fara með gamanmál. Með honum spila Birgir Nielsen á trommur, Friðrik Sturluson á bassa, Karl Olgeirsson á píanó, orgel og harmoniku, Ástvaldur Traustason á harmoniku og Pétur Valgarð Pétursson á gítar. Þá kemur fimm manna kór einnig fram og Jóhann segir Egil Ólafsson verða sérstakan gest á tónleikunum sem séu til heiðurs íslenskri dægurlagahefð og íslensku sjómönnunum.  

„Friðrik Sturluson sagði mér í vor að hann ætti talsvert af sjómannalögum sem lægju óbætt hjá garði og ég var meira en til í að kíkja á þau með honum. Í framhaldinu ákváðum við að slá í tónleika með þessum nýju lögum Friðriks og ýmsum eldri sjómannalögum í bland,“ segir Jóhann. Meðal eldri og kunnari laga sem fá að hljóma nefnir hann syrpu með lögum á borð við Það gefur á bátinn við Grænland, Landleguvalsinn, Vertu sæl mey og Simbi sjómaður.

Hann segir Friðrik höfund um tíu laga og texta á dagskránni, eitt er eftir Gunnar Þórðarson og tvö eða þrjú eftir Guðmund Jónsson úr Sálinni. „Þetta eru svakalega fín lög,“ segir Jóhann, „í anda þessarar klassísku dægurlagahefðar. Þetta rímar allt. Við byggjum upp skemmtilega kvölddagskrá.“

Gegnum árin hefur Jóhann birst í fjölda söngleikja og í allrahanda tónlistardagskrám. Þegar spurt er hvort grunnt sé á söngvaranum í leikaranum segist hann alltaf hafa haft gaman af því að syngja. „Ég lærði þetta til marga ára. Móðir mín er tónlistarkennari, bróðir minn píanóleikari, þetta er ekki langt frá mér – ég ólst upp við tónlist. Svo hef ég  sungið í öllum þessum söngleikjum, Vesalingunum, Fiðlaranum á þakinu, Súperstar, My Fair Lady, Sound of Music,“ telur hann upp. „Ég hef sungið mikið en aðallega innan leikhússins. En nú er ég aldeilis ekki einn á ferð, með sjö manna hljómsveit og fimm manna kór, og það hefur verið rosalega gaman að undirbúa þessa tónleika. Við vonumst til að geta farið með dagskrána um landið, og sem víðast.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler