Slær í gegn í norskri auglýsingu

Guðmundur segir Norðmenn gera nett grín að sjálfum sér í ...
Guðmundur segir Norðmenn gera nett grín að sjálfum sér í auglýsingunum. Skjáskot úr auglýsingunni

Gamansamar auglýsingar með skírskotun í Game of Thrones er líklega ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar minnst er á norskan viðskiptaháskóla. Hvað þá að síðhærður Íslendingur komi við sögu. Það er hins vegar raunin í auglýsingum BI Norwegian Business School, sem hafa vakið verðskuldaða athygli víða um heim, enda er þar farin ansi framúrstefnuleg leið til að lokka nemendur í nám í viðskiptafræði.

Guðmundur Ingi Þorvaldsson fer með aðalhlutverkið í auglýsingunum, sem allar hafa yfirskriftina „Winter is coming“ eða „Vetur nálgast“ og er frasi sem aðdáendur þáttanna Game of Thrones kannast eflaust vel við. Guðmundur fékk hlutverkið í gegnum umboðsmann sinn í London, en hann talar ensku í auglýsingunni sem augljóslega á að lokka erlenda nemendur að náminu.

Framleiðendur auglýsingarinnar voru þó ekki endilega að leita að Íslendingi í hlutverkið. „Ég held þeir hafi meira verið að leita að „lúkki“ og að þetta væri svona Game of Thrones-grín. Svo held ég þeim hafi þótt skemmtilegt að hafa norrænan leikara í þessu,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Guðmundur Ingi segir auglýsinguna hafa vakið eftirtekt víða um heim.
Guðmundur Ingi segir auglýsinguna hafa vakið eftirtekt víða um heim. Mynd/Þórður

Hann segir leikstjórann hafa tjáð sér að hann hefði prófað fjölmarga leikara áður en hann datt niður á Guðmund sem hafði allt það sem var verið að leita að. „Ég er greinilega svona business-auglýsingamaður, alla vega í þessu konsepti.“

Guðmundur segir verkefnið hafa verið mjög skemmtilegt og ekki spillti fyrir að hann fékk að heimsækja Ósló í fyrsta skipti. „Þetta var hrikalega flott og vel að öllu staðið. Það er svo gaman þegar það er smá húmor. Þegar maður þarf ekki að taka hlutina allt of alvarlega, það er svo gaman. Þá gerist einhver algjör snilld.“

Um er að ræða fimm mismunandi auglýsingar þar sem Norðmenn gera nett grín að sjálfum sér, að sögn Guðmundar. „Menn héldu að Norðmenn væru ekkert sérstaklega fyndnir en þeir eru bara merkilega skemmtilegir,“ segir hann í gríni.

Guðmundur segir leikstjórann vera mjög hrifinn af Íslandi og hafi margoft komið hingað til lands. Hann telur að Íslandsáhugi leikstjórans hafi eflaust ekki spillt fyrir því að hann fengi hlutverkið.

Viðtökurnar við auglýsingunni hafa farið fram úr björtustu vonum að sögn Guðmundar. „Leikstjórinn sagði mér að þeir hefðu aldrei fengið viðlíka viðtökur við neinu sem þeir hefðu gert, og að þeir væru jafnvel að plana að gera einhvers konar framhald. Þetta væri að fá alveg svakalega góðar undirtektir og vekti mikla eftirtekt út um allan heim. Sem er skemmtilegt. Það er alltaf gaman að taka þátt í verkefnum sem eru farsæl.“

Hér má sjá þrjár af auglýsingunum:
mbl.is