Kannski er ég bara svona skrýtinn

„Styrkur Mozart felst í því hversu fágaður hann er og ...
„Styrkur Mozart felst í því hversu fágaður hann er og mikið jafnvægi í tónsmíðum hans. Ég vinn eingöngu með stefjaefni úr verkinu og reyni að semja eitthvað sem ég ímynda mér að Mozart hefði ekki orðið miður sín yfir,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson sem samið hefur sína eigin kadensu sem hljómar undir lok fyrsta þáttar í Píanókonsert nr. 24 í c-moll eftir Mozart sem Víkingur flytur á tvennum tónleikum í næstu viku. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er ótrúlega mikill lúxus að fá nokkra daga án ferðalaga þar sem ég get bara verið einn með flyglinum,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson sem staddur var í Berlín þegar blaðamaður náði tali af honum fyrr í vikunni. Það sem af er árinu hefur Víkingur spilað eina til fimm tónleika í viku, en síðasta tónleikalausa vika hans var í júlí. „Ég nýti því tímann núna vel til að æfa mig og læra tónlistina sem ég þarf að hafa áhyggjur af eftir áramót,“ segir Víkingur, en í upphafi nýs árs bíða hans upptökur á nýjum diski fyrir þýska útgáfufyrirtækið Deutsche Grammophon (DG) sem út kemur í júní.

Á næstu dögum er Víkingur væntanlegur heim til Íslands en fimmtudaginn 30. nóvember leikur hann Píanókonsert nr. 24 í c-moll eftir W. A. Mozart undir stjórn Dima Slobodeniouk á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ) í Eldborg Hörpu. Kvöldið eftir flytur Víkingur sama píanókonsert í Norðurljósum Hörpu kl. 18, en á efnisskránni eru einnig nokkur verk eftir Arvo Pärt. Löngu er orðið uppselt á hvoratveggju tónleikana, en tónlistarunnendur geta hlustað á fimmtudagstónleikana á Rás 1 þar sem þeir verða í beinni útsendingu auk þess sem þeir verða í beinni útsendingu á vef SÍ. Vinafélag SÍ stendur fyrir ókeypis tónleikakynningu með Víkingi í Eldborg þriðjudaginn 28. nóvember kl. 20 þar sem hann fjallar um píanókonsert Mozart og leikur tóndæmi.

Fær alltaf auka fiðring í Hörpu

Konsertinn spilaði Víkingur fyrst á þrennum tónleikum með Konzerthaus-hljómsveitinni í Berlín í september. Á næsta ári mun hann spila hann í Belfast, Gautaborg og víðar. „Ég hef aldrei spilað Mozart-konsert með SÍ áður svo ég hlakka mjög til,“ segir Víkingur og tekur fram að það fylgi því alltaf sérstök tilfinning að spila á heimavelli. „Ég fæ alltaf auka fiðring í magann þegar ég geng á svið Eldborgar.“

Víkingur lýsir konsertinum sem einum fallegasta einleikskonsert allra tíma. „Þó verkið sé samið 1786 á það í raun miklu meira skylt með 19. öldinni. Fyrsti kaflinn er tilfinningaþrunginn í anda dekkri verka rómantíkurinnar, meðan annar kaflinn vísar í anda klassíska tímans og sá þriðji er barokkskotinn. Þannig mætast þrír tímar í verkinu,“ segir Víkingur og bendir á að verkið hafi haft mótandi áhrif á tónskáld eins og Beethoven og Brahms.

Undir lok fyrsta þáttar gefst rými fyrir einleikarann að leika sína eigin kadensu og nýtir Víkingur það tækifæri. „Það var gaman að draga fram nótnapappírinn og semja. Ég ætla að spila meiri Mozart í framtíðinni og mun því þurfa að halda áfram að ydda blýantinn og kaupa fleiri strokleður,“ segir Víkingur og tekur fram að það sé ekkert grín að spila eigin músík í miðju meistaraverki Mozart. „Styrkur Mozart felst í því hversu fágaður hann er og mikið jafnvægi í tónsmíðum hans. Ég vinn eingöngu með stefjaefni úr verkinu og reyni að semja eitthvað sem ég ímynda mér að Mozart hefði ekki orðið miður sín yfir,“ segir Víkingur í opnuviðtali við Morgunblaðið í dag. Þar ræðir hann um hvernig það er að búa nánast í ferðatösku stærstan hluta ársins, um þátt sinn í Hollywood-kvikmyndinni The Darkest Hour í leikstjórn Joe Wright. 

Kitlar auðvitað hégómann

Finnur þú fyrir því að útgáfan á Glass-diskinum hjá DG í upphafi árs hafi haft mikilvæg áhrif á feril þinn?

„Við það að verða einn af listamönnum DG fara stjórnendur tónleikahúsa og hljómsveita ósjálfrátt að hlusta allt öðruvísi á mann. Auðvitað ætti það ekki að vera þannig, þetta fólk ætti að hlusta óháð öllum merkimiðum. En það verður að segjast að ég finn fyrir miklum mun eftir að diskurinn kom út og góðar viðtökur hafa heldur ekki spillt fyrir.“

„Það kitlar auðvitað hégóma manns, ekki síst vegna þess að ...
„Það kitlar auðvitað hégóma manns, ekki síst vegna þess að Glenn Gould er einn af mínum uppáhaldslistamönnum – ekki bara sem flytjandi heldur ekki síður sem hugmyndafræðingur í nálgun sinni á tónlist sem er frumleg og óháð endalausum venjum klassíska tónlistarheimsins. Að því sögðu þá fetar enginn í fótspor hans,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson. Ýmsir rýnar, m.a. hjá Gramophone Magazine og New York Times, hafa líkt nálgun Víkings á verkum Philips Glass við leik Glenn Gould og því lá beint við að spyrja Víking hvað sér finnist um samlíkingu við slíkan meistara.

Talandi um dóma þá hafa ýmsir rýnar, m.a. hjá Gramophone Magazine og New York Times, líkt nálgun þinni á verkum Glass við leik Glenn Gould. Hvernig finnst þér að vera líkt við slíkan meistara?

„Það kitlar auðvitað hégóma manns, ekki síst vegna þess að Glenn Gould er einn af mínum uppáhaldslistamönnum – ekki bara sem flytjandi heldur ekki síður sem hugmyndafræðingur í nálgun sinni á tónlist sem er frumleg og óháð endalausum venjum klassíska tónlistarheimsins. Að því sögðu þá fetar enginn í fótspor hans.“

En þið virðist báðir eiga það sameiginlegt að fara nýjar leiðir í túlkun og lýsa kunnugleg verk upp á óvæntan hátt.

„Ég held að maður verði alltaf að vera trúr tónlistinni og því hvernig maður vill heyra hana. Það kemur mér ávallt spánskt fyrir sjónir þegar rýnar skrifa að ég sé alltaf að finna einhverjar nýjar leiðir að verkum því ég fer bara einu leiðina sem ég sé. Ég myndi aldrei fara á svið til að gera eitthvað ólíkt því sem hefur verið gert áður bara til að stimpla mig inn eða vekja athygli. Ég fer bara eftir því hvernig mér finnst að tónlistin eigi að hljóma – en kannski er ég bara svona skrýtinn og þess vegna hljómar þetta svona allt öðruvísi.“

Bach stærsta ástríðan

Eins og þú nefndir áðan ertu að undirbúa upptökur með DG í byrjun nýs árs. Þegar við ræddum saman fyrir ári sagðir þú að hann myndi að öllum líkindum innihalda barokkverk. Getur þú núna ljóstrað upp hvaða verk munu rata á diskinn?

„Mín stærsta ástríða í tónlist er Johann Sebastian Bach og því kom ekkert annað til greina af minni hálfu en að næsti diskur væri helgaður honum. Diskurinn verður ólíkur öllum Bach-diskum sem ég þekki hvað verkefnaval varðar,“ segir Víkingur og lýsir diskinum sem mósaíki. „Hann er samsettur af um 20 míníatúrum, bæði þekktum en líka öðrum sem munu koma mörgum á óvart. Það er nefnilega svo magnað hvað maður finnur þegar maður fer að grafa í Bach-gullkistunni. Það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hversu afkastamikill hann var,“ segir Víkingur og tekur fram að á diskinum verði einnig heimsfrumflutningur á hans eigin umritun á Widerstehe doch der Sünde.

Diskur upphafinn spilunarlisti

„Þetta er uppháldskantatan mín eftir Bach. Hún ótrúlega falleg og leiðslukennd. Auk þess verð ég með partítu nr. 3 í E-Dúr sem Bach samdi fyrir fiðlu, en í umritun fyrir píanó eftir Rachmaninoff. Útsetning hans er á köflum djössuð og hrikalega skemmtileg. Ítalski píanósnillingurinn Busoni gerði nokkrar einstaklega fallegar umritanir á nokkrum sálmaforleikjum sem Bach samdi upprunalega fyrir orgel. Svo er ég með umritanir Bach sjálfs á konsertum eftir ítölsku tónskáldin Marcello og Vivaldi og einnig fullt af hreinum Bach. Þetta er því svolítil hugleiðing um hvað er orgínalt og hvað ekki. Túlkun er líka alltaf ákveðin umritun, ef út í það er farið.“

Þetta hljómar eins og þú nálgist diskinn ekki bara sem flytjandi heldur ekki síður sem höfundur eða listrænn stjórnandi. Er það rétt skilið?

„Já, í rauninni lít ég á útgáfur sem litlar hátíðir. Það þarf allt að koma saman til þess að það sé ástæða til þess að taka upp í nútímanum, því það er búið að taka mjög mikið upp af verkum og gera margar upptökur af sömu verkunum. Auðvitað hugsa ég útgáfur út frá alls kyns vitsmunalegum og tónlistarlegum þráðum, en þeir eru alltaf í öðru sæti. Það sem mestu máli skiptir er hvernig diskurinn hljómar frá fyrsta verki til þess síðasta. Diskur er í raun bara eins og upphafinn spilunarlisti sem búið er að leggja brjálæðislega miklu vinnu í,“ segir Víkingur og bendir á að þótt tónlist virki vel í tónleikasölum sé ekki sjálfkrafa sagt að hún eigi heima á diski.

Ofnæmi fyrir sætum diskum

„Ég velti mikið fyrir mér hvernig fólk hlustar á músík. Ég er ekkert endilega viss um að öll sú tónlist sem virkar vel á tónleikasviði henti til útgáfu. Ég er þannig ekki viss um að margir séu að fara heim til að hlusta á 80 mínútna Bruckner-sinfóníu heima hjá sér, þótt tónlistin sé stórkostleg. Hún er meira tónleikamúsík fyrir mér. Ég vil að tónlistin á Bach-diskinum sé þess eðlis að fólk geti notið hennar heima hjá sér, í vinnunni, í strætó og jafnvel í hlaupatúrnum. Á sama tíma er diskurinn allt annað en léttmeti, enda hef ég ofnæmi fyrir of sætum diskum. Áskorunin felst í því að veita ekki afslátt á listrænum gæðum en stefna að því að gera diskinn ómótstæðilegan til áheyrnar,“ segir Víkingur í viðtalinu, sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.