Sex þýðendur tilnefndir

Soffía Auður Birgisdóttir er tilnefnd fyrir þýðingu sína á Orlando ...
Soffía Auður Birgisdóttir er tilnefnd fyrir þýðingu sína á Orlando eftir Virginiu Woolf. mbl.is/Golli

Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna voru opinberaðar nú síðdegis. Verðlaunin fyrir vandaða þýðingu á fagurbókmenntaverki hafa verið veitt árlega frá 2005 en til þeirra var stofnað til að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskra bókmennta.

Í ár voru tilnefndar fimm þýðingar og sex þýðendur: Elísabet Gunnarsdóttir og Hildur Hákonardóttir fyrir Walden eftir Henry David Thoreau sem Dimma gefur út; María Rán Guðjónsdóttir fyrir Veislu í greninu eftir Juan Pablo Villalobos sem Angústúra gefur út; Gyrðir Elíasson fyrir Sorgina í fyrstu persónu eftir Ko Un sem Dimma gefur út; Jóna St. Kristjánsson fyrir Doktor Proktor eftir Jo Nesbø sem JPV gefur út og Soffía Auður Birgisdóttir fyrir Orlando eftir Virginiu Woolf sem Opna gefur út.

Dómnefnd þetta árið skipa: Ingunn Ásdísardóttir þýðandi og þjóðfræðingur sem er  formaður, Helga Soffía Einarsdóttir þýðandi og Steinþór Steingrímsson íslenskufræðingur.

Um þýðingu Elísabetar Gunnarsdóttur og Hildar Hákonardóttur á Walden segir í umsögn dómnefndar: „Walden er eitt af höfuðverkum bandarískra bókmennta og segja má að hún marki upphafsspor í vestrænni hugsun um náttúruvernd og samband manns og náttúru. Samvinnuþýðing Elísabetar Gunnarsdóttur og Hildar Hákonardóttur er ákaflega vel heppnuð og fangar 19. aldar stemningu og tærleika þessa klassíska texta á sérlega vandaðri íslensku án þess að vera gamaldags. Eftirmálar og skýringar þýðenda bera vott um ígrundaða vinnu og teikningar Hildar gefa bókinni aukið gildi. Að auki má taka fram að bókin er mjög fallegur prentgripur.“

Um þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur um Veislu í greninu segir: „Veisla í greninu er átakanleg en jafnframt grátbrosleg saga um einangrað barn í hrottalegum heimi. Sagan er lögð i munn barnsins en fullorðinslegt orðfærið skapar spennu milli hins barnslega og hins miskunnarlausa og kemur upp um brenglunina í tilveru barnsins. María Rán heldur listilega vel í tón og takt sögunnar og framandleiki bæði sögusviðs og aðstæðna kemur skýrt fram. Hér er á ferðinni stór saga í lítilli bók.“

Gyrðir Elíasson er tilnefndur fyrir þýðingu sína á Sorgina í ...
Gyrðir Elíasson er tilnefndur fyrir þýðingu sína á Sorgina í fyrstu persónu eftir Ko Un. mbl.is/Einar Falur

Um þýðingu Gyrðis Elíassonar um Sorgina í fyrstu persónu segir: „Úrval ljóða suður-kóreska skáldsins Ko Un sem hér kemur fyrir sjónir íslenskra lesenda er nokkuð mikið að vöxtum, en þó aðeins brot af höfundarverki Ko Un. Gyrðir Elíasson miðlar hér framandi skáldheimi af alkunnri vandvirkni og orðlist og færir okkur ljóð frá fjarlægum heimshluta á áreynslulausri og heillandi íslensku, auk þess að rita góðan inngang um skáldið og verk hans.“

Um þýðingu Jóns St. Kristjánssonar um Doktor Proktor segir: „Bækurnar um Doktor Proktor, Búa og Lísu einkennast af gleði og stórkarlalegri atburðarás. Í þýðingum sínum gefur Jón St. Kristjánsson sprelli, ærslum og uppfinningasemi lausan tauminn með fjölbreytilegri orðasmíð og blæbrigðaríku orðfæri og málnotkun sem kætir og gleður bæði börn og fullorðna. Atarna var kúnstugt lesefni. Bækur þessa árs um Doktor Proktor eru að vísu tvær, og er hér ekki gert upp á milli þeirra.“

Um þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttir um Orlando segir: „Það er mikill fengur að fá nú á íslensku skáldsöguna Orlando, eitt af lykilverkum enskra bókmennta. Í verkinu kannar höfundurinn viðfangsefni sem koma við alla menn á öllum tímum, ástina, skáldskapinn, tímann og þroskann svo fátt eitt sé nefnt. Þýðing Soffíu Auðar er framúrskarandi vönduð og nostursamleg en jafnframt leikandi létt og fjörleg og hinn hispurslausi stíll höfundarins kemur vel fram í þýðingunni. Enn fremur ritar þýðandinn afar gagnlegan eftirmála og ítarlegar textaskýringar.“

mbl.is