Féll niður af 62 hæða hárri byggingu og dó

Wu Yongning var alvöruofurhugi.
Wu Yongning var alvöruofurhugi. Ljósmynd/Weibo

Kínverski ofurhuginn Wu Yongning lést þegar hann féll niður af 62 hæða hárri byggingu. Atvikið náðist á myndband en Yongning sem var þekktur fyrir að klifra á skýjakljúfum var við tökur á nýju ofurhugamyndbandi þegar hann féll til jarðar og lést. 

Yongning var þekktur fyrir það sem er kallað „rooftopping“ en í því felst að klifra á háum byggingum án öryggisbúnaðar. Sjálfur varaði hann aðra við að herma eftir sér en hann var þjálfaður í bardagalistum. 

Atvikið átti sér stað í byrjun nóvember en fékkst ekki staðfest fyrr en nýlega. Aðdáendur hans voru byrjaðir að vera áhyggjufullir enda hafði Yongning ekki birt neitt á netinu í dágóðan tíma. 

BBC greinir frá því að kínverskir fjölmiðlar segi frá því að Yongning hafi tekið þessari síðustu áskorun sinni til þess að reyna að vinna peningaverðlaun. Ætlaði hann að biðja kærustu sinnar og átti peningurinn að fara í brúðkaupið.  

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem sýnir hvernig Yongning missir tak sitt á 62 hæða hárri byggingunni. 

 

mbl.is