Lawrence fer með hlutverk Agnesar

Jennifer Lawrence mun fara með hlutverk Agnesar Magnúsdóttur, sem var ...
Jennifer Lawrence mun fara með hlutverk Agnesar Magnúsdóttur, sem var hálshöggvin fyrir fyr­ir morðið á Natan Ket­ils­syni. AFP

Jennifer Lawrence mun fara með hlutverk Agnesar Magnúsdóttur í kvikmyndinni Burial Rites í leikstjórn Luca Guadagnino, sem hefur verið orðaður við Óskarsverðlaunin fyrir myndina Call Me by Your Name.

Frá þessu greinir Variety en í frétt miðilsins segir að Lawrence, sem er einna best þekkt fyrir hlutverk sitt í Hungurleika-þríleiknum, verði einnig meðal framleiðenda myndarinnar.

Burial Rites mun byggjast á samnefndri bók Hönnuh Kent frá 2013, þar sem fjallað er um örlög Agnesar sem var háls­höggv­in 12. janú­ar 1830 í síðustu aftökunni á Íslandi. Mun söguþráður myndarinnar snúast um þann tíma er líður frá glæpnum og þar til dauðadómurinn er staðfestur, er Agnes myndar „tilfinningaleg og rómantísk tengsl“ og veltir fyrir sér glæpunum sem hún er sökuð um, samkvæmt Variety.

Call Me by Your Name hlaut á dögunum þrjár Golden Globe-tilnefningar en framundan hjá Guadagnino eru m.a. endurgerð hrollvekjunnar Suspiria og spennumyndin Rio með Benedict Cumberbatch og Jake Gyllenhaal í aðalhlutverkum.

Lawrence, sem hlaut Óskarsverðlaun fyrir hlutverk sitt í Silver Linings Playbook, vinnur m.a. að spennumyndinni Red Sparrow og X-Men: Dark Phoenix.

Meðframleiðendur hennar að Burial Rites verða Allison Shearmur og Justine Ciarrocchi en sú fyrrnefnda var meðal framleiðenda Rogue One: A Star Wars Story og mun einnig koma að framleiðslu Solo: A Star Wars Story.

Frétt Variety.

Myndin byggir á samnefndri bók eftir Hönnuh Kent.
Myndin byggir á samnefndri bók eftir Hönnuh Kent.
mbl.is