Epalhommar, vondar píur og gosdósin góða

JóiPé og Króli komu vondum píum á kortið með laginu ...
JóiPé og Króli komu vondum píum á kortið með laginu B.O.B.A. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er ógerningur að ætla að fara í smáatriðum yfir árið í poppkúltúr svo hér verður hundavaðið að nægja, frá Trump-tónleikum í upphafi árs til #metoo-byltingar við lok þess. Greinin birtist fyrst í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Janúar

Þegar enginn vildi spila fyrir Trump

Fátt annað komst að í byrjun árs en yfirvofandi upphaf embættistíðar Donalds Trump. Að venju var skipulögð heljarinnar vígsluhátíð í byrjun janúar en það reyndist þrautin þyngri að fá tónlistarfólk til að taka þátt í athöfninni. Meðal þeirra sögð voru hafa hafnað Trump voru Andrea Bocelli, Elton John, Céline Dion, Kiss, og Moby en listinn er mikið lengri. Að lokum tókst þó að fylla dagskrána en þekktustu listamennirnir sem fram komu voru kántrísöngvarinn Toby Keith og hljómsveitin 3 Doors Down sem þekktust er fyrir lagið „Kryptonite“ frá árinu 2000.

Annars hugar kærasti

Vinsælasta „meme“ ársins, „Distracted boyfriend“, lét fyrst á sér kræla í janúar. Fremst á myndinni er rauðklædd kona en fyrir aftan hana maður sem dáist að henni við mikla hneykslan samferðakonu sinnar. Myndin hefur getið af sér óteljandi endurtekningar þar sem hverjum leikmanni í sögunni er gefið nýtt nafn. Þannig hefur kærastinn verið æskan að renna hýru auga til sósíalisma á meðan kapítalisminn horfir hneykslaður á en einnig köttur að dást að pappakassa á meðan dýra og flókna leikfangið situr eftir með sárt ennið.

Kærastinn með reikula augað gladdi marga í ár.
Kærastinn með reikula augað gladdi marga í ár.

Nathan Heller, hjá The New Yorker, segir grínið hafa verið sérlega viðeigandi á árinu 2017. „(...)Gleðin við annars huga kærasta meme-ið var ekki ólík þeirri pervertísku ánægju sem kærastinn sjálfur upplifir,“ skrifar Heller. „Það leyfði Bandaríkjunum að beina athygli sinni frá mun mikilvægari skuldbindingum.“

Febrúar

Með tvíbura í farteskinu

Fræg pör áttu miklu barnaláni að fagna á árinu en engar fréttir vöktu þó jafn mikla athygli og tvíburatilkynning Beyoncé Knowles sem smellti myndum af sér á nærklæðunum á alnetið í febrúar. Litir og uppstilling myndarinnar bera augljósa vísun í myndir af Maríu mey frá tímum endurreisnarinnar, en líklega var það þó fremur framstæður magi R&B drottningarinnar sem gerði myndina að þeirri vinsælustu frá upphafi á Instagram, með yfir 11 milljónir „læka“. Þau Rumi og Sir fæddust svo í júní.

Beyoncé fylgdi útgáfu Lemonade eftir með útgáfu tvíbura.
Beyoncé fylgdi útgáfu Lemonade eftir með útgáfu tvíbura.

Óskarsklúðrið mikla

Aðstandendur kvikmyndarinnar La La Land voru komin langleiðina í gegnum þakkarræðurnar eftir að hafa unnið Óskarinn fyrir bestu kvikmynd ársins þegar það kom í ljós að alvarleg mistök höfðu átt sér stað. „Þetta er ekki grín, Moonlight vann fyrir Bestu kvikmynd ársins,“ tilkynnti Jordan Horowitz, framleiðandi La La Land, af sviðinu og salurinn saup hveljur.

jimmy

Í ljós kom að Warren Beatty hafði fengið rangt umslag afhent þegar hann steig á svið til að kynna verðlaunin ásamt Faye Dunaway. Endirinn var svo sannarlega ævintýralegur, ekki síst fyrir þær sakir að Moonlight fjallar um reynsluheim samkynhneigðs svarts drengs, en slíkar sögur eru bæði sjaldséðar og sjaldverðlaunaðar í Hollywood.

Mars

Stolinn samfestingur – stolin hjörtu

Söngvakeppni sjónvarpsins sá landanum fyrir góðri skemmtun og að venju stóð einnig styrr um búninga kynnanna. Í þetta sinn voru það þó ekki fegurðarstaðlarnir einir sem rætt var um. Eitt kvöldið klæddist Ragnhildur Steinunn nefnilega samfestingi, í hönnun Elmu Bjarneyjar Guðmundsdóttur, sem þótti augljós eftirmynd af samfestingi úr vor- og sumarlínu hátískumerkisins Balmain.

Daði Freyr Pétursson í Söngvakeppninni.
Daði Freyr Pétursson í Söngvakeppninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Auðvitað var þó tónlistin í fyrirrúmi. Svala Björgvins og lagið „Paper“ fóru alla leið í Eurovision fyrir Íslands hönd en annar keppandi söng sig þó einnig inn í hug og hjörtu áheyranda. Hinn geðþekki Daði Freyr Pétursson hefur ekki slegið slöku við síðan heldur dælt út lögum, ábreiðum, vefþáttum og almennri gleði.

Apríl

Saga þernunnar

Sjónvarpsþættirnir The Handmaid's Tale, sem byggðir eru á samnefndri skáldsögu Margaret Atwood, hófu göngu sína í apríl. Þættirnir segja frá dystópískum veruleika í náinni framtíð þar sem strangtrúaðir aðilar hafa tekið völdin og titilpersónurnar, þernurnar, hafa verið hnepptar í kynlífs- og barnsburðarþrældóm. Þættirnir vöktu samstundis gríðarlega athygli, ekki síst sökum þeirrar staðreyndar að efnistökin þóttu ríma óþægilega vel við blákaldan veruleikann. Þannig skrifaði Moira Weigel t.d. fyrir The New Yorker: „(...)nú þegar það eru menn við völd sem tala tungumál ódulins kvenhaturs, og nota trúarlegar hugmyndir til að réttlæta höft á líf kvenna, sjá aðdáendur söguna sem mótmælatákn.“ Þáttaröðin var valin besta dramaþáttaröð ársins á Emmy verðlaununum og er hún einnig talin sigurstrangleg á Golden Globe verðlaununum í janúar.Þegar Pepsi lagaði kynþáttamisréttið

Þið þekkið söguna. Kendall Jenner er að pósa fyrir tískumyndatöku í óskilgreindri dyragætt – bara enn einn stífmálaður þriðjudagurinn – þegar mótmælendur koma marserandi framhjá. „Hvað er í gangi, hugsar hún, hlessa á tilstandinu. Ungur svartklæddur maður með kæruleysislega útpældan skeggvöxt nikkar til hennar. „Komdu,“ segja augu hans og þau þurfa ekki að segja það tvisvar. Jenner rífur af sér ljósa hárkolluna og gengur glöð í bragði meðal pöpulsins. Og hvað er þetta? Jú, þetta er Pepsi dós! Hún nikkar vin sinn, klessir hnefa annars hamingjusams mótmælanda og gengur svo út úr hópnum, þar sem lögreglumennirnir standa vígalegir. Hún réttir fram dósina og lögreglumaðurinn tekur á móti. *TSSST* – *Glúggglúggglúgg* OG SKARINN ÆRIST AF GLEÐI! KENDALL JENNER HEFUR TEKIST ÞAÐ! HÚN HEFUR BUNDIÐ ENDA Á LÖGREGLUOFBELDI!

„Bara að pabbi hefði vitað um mátt Pepsi,“ tísti Bernice King, dóttir mannréttindafrömuðarins Martin Luther King Jr.

Satt það, en af einhverjum ástæðum endaði Pepsi samt með að biðjast afsökunar á auglýsingunni og taka hana úr umferð.

Maí

Forsetatíst í nýjum hæðum

„Despite the constant negative press covfefe,“ tísti forseti Bandaríkjanna á 132. degi embættistíðar sinnar og notendur Twitter sátu eftir hvumsa. „Það greip samtímis um sig svona undrun og áhyggjur,“ rifjar Matt Flegenheimer upp í grein sinni fyrir New York Times. „Er það svona sem heimurinn endar? Tækluðu lögfræðingarnir hann?“ Þegar Sean Spicer var spurður um orðið daginn eftir vildi hann meina að ákveðnir aðilar í innsta hring forsetans vissu nákvæmlega hvað covfefe átti að fyrirstilla. Nú þegar hallar undir lok 2017 er ljóst að #covfefe er eitt allra mest notaða myllumerki ársins, án þess að nokkur hafi skorið úr um þýðingu þess. Það verður spennandi að sjá hvort nýyrði ársins 2018 geti verið jafn merkingarþrungin án þess að þýða neitt.

AFP

Júní

Rauðir botnar á toppnum

Cardi B óð inn á blóðugum skónum í júní með lagið „Bodak Yellow“ sem tryllt hefur áhangendur dansgólfa síðan. Hún er aðeins annað rappkvendi sögunnar til að toppa Hot 100 lista Billboard tímaritsins ein síns liðs en það gerði Lauryn Hill fyrst árið 1998 með laginu „Doo Wop (That Thing)“. Þó „Bodak Yellow“ muni líklega þurfa að lúta í lægra haldi fyrir „Humble“ Kendricks Lamar á Grammy verðlaununum ætlar Cardi B sér síður en svo að verða eins lags dægurfluga og því pumpar hún nú út lögum og samstarfsverkefnum hægri vinstri.

Júlí

Meint forréttindi epalhomma

Viðtal Sindra Sindrasonar við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur, formann samtaka um líkamsvirðingu, tók óvænta stefnu þegar rætt var um fordóma. „Veistu hvað ég er í mörgum minnihlutahópum?“ sagði Sindri þegar Tara sagði hann mæla úr forréttindastöðu. „Ég er hommi, ég á litað barn, það er ættleitt, ég er fyrsti samkynhneigði maðurinn til að ættleiða á Íslandi, ég er giftur útlendingi – eða hálfum útlendingi,“ hélt Sindri áfram, „þannig að við skulum ekki fara þangað.“

Brandenburg safnaði saman þekktum samkynhneigðum mönnum fyrir Epal.
Brandenburg safnaði saman þekktum samkynhneigðum mönnum fyrir Epal. Ljósmynd/Brandenburg

Orðaskiptin vöktu mikla athygli á samfélagsmiðlum en á meðal þeirra sem tjáðu sig var Hildur nokkur Lilliendahl sem skrifaði að henni væri skapi næst að kveikja í hárinu á sér „fyrir aumingja kúgaða hvíta ófatlaða epalhommann með alla sjónvarpsþættina“. Orð Hildar voru gripin á lofti af auglýsingastofunni Brandenburg sem smellti þekktum íslenskum hommum í opnu-auglýsingu fyrir Epal í Fréttatímanum. Sindri sagði síðar í viðtali við Stundina að hann teldi sig aldrei hafa upplifað fordóma á eigin skinni.

Ágúst

Lag ársins ytra

Reggaeton sumarsmellurinn „Despacito“ í flutningi Luis Fonsi og Daddy Yankee varð vinsælasta myndband YouTube frá upphafi í ágúst . Þá hafði það verið spilað yfir 4,6 milljarða skipta, hvað svo sem sú tala þýðir. Skal tekið fram að hér ræðir ekki um Justin Bieber útgáfuna sem tröllreið vinsældalistum, heldur upprunalegu útgáfuna sem er einvörðungu á spænsku. Latin-tónlist átti eftir að verða áberandi það sem eftir lifði árs en meðal annars hoppaði Beyoncé á Spotify smell J-Balvin og Willy Williams „Mi Gente“ og hin kúbansk-bandaríska Camila Cabello sló í gegn með „Havana“. Vinsældirnar hafa verið kallaðar Despacito-áhrifin en áhugavert verður að sjá hvort þau halda sér eða brenna út.

September

Lag ársins heima

Lagið „B.O.B.A“ kom út í september og hvort sem maður fílar góðar stelpur eða bara vondar fíluðu einhvern veginn allir JóaPé og Króla. Hvernig er líka annað hægt?

Eftir þægileg fyrstu kynni af hinum djúpraddaða og sultuslaka JóaPé í laginu „Ég vil það“ höfðu allir og amma þeirra birt myndir af sér á samfélagsmiðlum að „njódda og liffa“. Hvað Króla varðar er fagurrautt faxið nóg til að skapa honum sérstöðu í íslenskum rappheimi en parað við glettnislegan tón, faglegt flæði og frjálsleg dansmúv er málið einfaldlega dautt. Viðlíka karakter hefur ekki sést í íslensku rappi frá því Erpur Eyvindarson sleit barnsskónum og rétt eins og Bent tónaði við Blaz jafnar stóískur JóiPé flumbrugang Króla út. Þó það sé fjölmargt spennandi í gangi á plötunni GerviGlingur er hinsvegar fullljóst að þeir vinir hafa ekki toppað enn – og það boðar bara gott.

Október

Hollywood-kóngurinn fellur

Snemma í október birti New York Times grein með fjölmörgum ásökunum í garð kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni, ofbeldi og misbeitingu valds. Weinstein var áður ósnertanlegur í Hollywood en í kjölfar umfjöllunarinnar var hann rekinn frá eigin fyrirtæki. Fjölmargar aðrar konur hafa stigið fram síðan og sagt frá áreitni af hálfu Weinstein og fleiri aðila innan sem utan skemmtanaiðnaðarins. Umfjöllunin hratt þannig af stað myllumerkinu #metoo og í kjölfarið voru „þagnarbrjótarnir“ valin fólk ársins af Time-tímaritinu.

Tímaritið Time gerði þau sem rufu þögnina að manni ársins.
Tímaritið Time gerði þau sem rufu þögnina að manni ársins. AFP

Fjallkonan gýs

Þegar boðað var til kosninga í kjölfar umfjöllunar um uppreista æru barnaníðinga birti Stundin magnað ljóð eftir Þórdísi Elvu Þórhallsdóttur. Í ljóðinu er barátta íslenskra kvenna í gegnum aldirnar persónugerð í ljóðmælandanum fyrir karlmanni sem hvetur hana til að „kjósa áður en það fer að gjósa“. Sjaldan hefur önnur eins gæsahúð gripið um sig á íslenskum samfélagsmiðlum og þegar ljóðið tók að dreifast. Það stigmagnast, eftir því sem ljóðmælandi telur upp allt það sem hún er og nær hápunkti þegar hún segist vera Birna.

„Sem var svo lengi að finnast

Og við ætlum að minnast

Fyrir æviveginn sem hún gekk,

En ekki endalokin sem hún fékk.“

Við lesturinn er erfitt að missa ekki andann, en þrumuræðan heldur þó áfram og endar með því að ljóðmælandi spyr karlmanninn: „Skilurðu þetta ekki ennþá? Ég er gosið.“

Nóvember

Prinsinn og leikkonan

Ó hve mörg hjörtu hafa brotnað, þó ekki sé nema örlítið, þegar Harry prins og Meghan Markle tilkynntu um trúlofun sína í lok nóvember. Þau stefna á brúðkaup í vor en ráðahagurinn markar ákveðin þáttaskil þar sem móðir Markle er svört. Markle verður því fyrsti opinberi meðlimur konungsfjölskyldunnar sem ekki er aðeins hvít. Brúðkaupið er ekki eini stóri yfirvofandi viðburðurinn í bresku konungsfjölskyldunni því von er á þriðja barni Katrínar og Vilhjálms prins í apríl.

Harry Bretaprins og Meghan Markle brosta sínu breiðasta.
Harry Bretaprins og Meghan Markle brosta sínu breiðasta. AFP

Desember

Við líka

Stjórnmálakonur urðu fyrstar íslenskra starfsstétta til að mynda með sér hóp og deila sögum af kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum sínum undir merkjum #metoo. Þær opinberuðu sögurnar í nóvember, m.a. í viðtali í Kastljósi, en eins og til að undirstrika efni þáttarins dró samfélagsmiðlanotandinn og fyrrverandi bankastjórinn Ragnar Önundarson upp gamla prófílmynd þingkonunnar Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur sem honum var ekki að skapi. „Dæmi hver fyrir sig,“ sagði Ragnar en honum að óvörum var það þó fremur hans eigin hegðun sem hlaut áfellisdóm með myllumerkinu #ekkiveraragnar sem fljótlega fór á kreik. Þar var þó ekki öll #metoo sagan sögð.

Stöðuuppfærsla Ragnars vakti hörð viðbrögð enda þótti hún kristalla vandamálið.
Stöðuuppfærsla Ragnars vakti hörð viðbrögð enda þótti hún kristalla vandamálið. Skjáskot

Fjölmargir aðrir hópar hafa stigið fram á síðustu vikum og kallað eftir breytingum. Þó stórtæk eða langvarandi samfélagsleg áhrif eigi eftir að sýna sig hefur byltingin teygt anga sína inn í íslenska dægurmenningu með skýrum hætti og það ekki bara á samfélagsmiðlum því í vikunni fyrir jól var greint frá því að Atla Rafni Sigurðssyni leikara hefði verið sagt upp störfum í Borgarleikhúsinu. Vísir greindi fyrst frá tengslum við #metoo en leikhússtjóri sagði síðar að um fleiri en eina tilkynningu um hegðun Atla væri að ræða.

Star Wars: The Last Jedi er önnur myndin í nýjum ...
Star Wars: The Last Jedi er önnur myndin í nýjum Stjörnustríðsþríleik.

Star Wars – The Last Jedi

Allt lítur út fyrir að þetta nýjasta innlegg í Stjörnustríðsheiminn muni ljúka árinu sem tekjuhæsta kvikmynd 2017. Meira hefur undirrituð ekki um myndina að segja þar sem hún hefur ekki séð hana ennþá og þannig verður það líklega fram á næsta ár. Allt spilliefni er afþakkað.

mbl.is