Testino og Weber sakaðir um áreitni

Ljósmyndarinn Bruce Weber harðneitar ásökunum um kynferðislega áreitni.
Ljósmyndarinn Bruce Weber harðneitar ásökunum um kynferðislega áreitni. AFP

Tískuljósmyndararnir Mario Testino og Bruce Weber hafa báðir verið ásakaðir um að hafa misnotað karlkyns fyrirsætur og aðstoðarmenn sína kynferðislega.

Greint er frá málinu í New York Times í dag, en ljósmyndaranir eru ásakaðir um fjölda brota. Útgáfufyrirtækið Condé Nast, sem m.a. gefur út tískutímaritið Vogue, hefur rift öllu samstarfi við þá Testino og Weber í kjölfar áskananna.

Weber neitar ásökununum og lögfræðingar Testinos segja ákærendur hans ekki „geta talist trausta heimildamenn“.

Í yfirlýsingu sem lögfræðingur Webers sendi New York Times sagðist hann vera „hryggur og í áfalli yfir þeim svívirðilegu ásökunum sem lagðar hefðu verið fram“ gegn sér. „Sem ég hafna alfarið,“ bætti hann við.

Testino hefur m.a. myndað Kate Moss, Madonnu og bandarísku forsetafrúna fyrrverandi, Michelle Obama, sem og bresku konungsfjölskylduna.

Testino hefur myndað fjölda ættmenna bresku konungsfjölskyldunnar og tók m.a. ...
Testino hefur myndað fjölda ættmenna bresku konungsfjölskyldunnar og tók m.a. þessa mynd af þeim Vilhjálmi og Katrínu. Mario Testino

13 karlkyns fyrrverandi aðstoðarmenn hans og fyrirsætur hafa nú sakað hann um kynferðislega áreitni. Ásakanirnar í garð Testinos ná aftur á tíunda áratug síðustu aldar og taka m.a. til þukls og sjálfsfróunar.

Ryan Locke, sem var fyrirsæta í Gucci-herferðum sem Testino myndaði, lýsti honum sem „kynferðislegu rándýri“ (e. sexual predator). Þá sagði einn aðstoðarmanna hans, Roman Barrett, að kynferðisleg áreitni hefði verið stöðugur fylgifiskur vinnunnar hjá Testino og að ljósmyndarinn hefði m.a. fróað sér fyrir framan hann.

Lögfræðistofan sem ver Testino segir ásakanirnar í hans garð hins vegar ekki koma frá áreiðanlegum heimildamönnum og að lögfræðingar hafi rætt við nokkra af fyrrverandi starfsmönnum ljósmyndarans sem „séu í áfalli“ og hafi ekki getað staðfest neinar fullyrðinganna.

mbl.is