Var lengi sárþjáð af bakverkjum

Dolores O'Riordan, söngkona The Cranberries, lést í gær, 46 ára ...
Dolores O'Riordan, söngkona The Cranberries, lést í gær, 46 ára að aldri. AFP

Til stóð að Dolores O'Riordan myndi syngja hið vinsæla lag Zombie á ný inn á plötu í dag. Af því verður ekki því hún lést í gær, deginum áður en upptökurnar áttu að fara fram í London. Söngkonan og lagahöfundurinn O'Riordan var 46 ára er hún lést. Hún er þekktust fyrir að leiða írsku rokksveitina Cranberries sem naut gríðarlegra vinsælda um allan heim á tíunda áratugnum.

Í yfirlýsingu frá talsmanni söngkonunnar kom fram að fráfall hennar hefði verið sviplegt og að dánarorsök væri ekki kunn. Hún hafði verið stödd í London við upptökur er hún féll frá.

Í tilkynningu frá Lundúnalögreglunni segir að hún hafi verið kölluð út að Park Lane-hótelinu í Westminster í gærkvöldi og að O'Riordan hafi verið úrskurðuð látin á staðnum. Í dag hafa BBC og fleiri eftir lögreglunni að dauða hennar hafi ekki borið að með saknæmum hætti.

Söng um hryðjuverkaárás

Meðal þekktustu laga O'Riordan og Cranberries eru Linger, sem var á meðal 100 vinsælustu laga á Billboard-listanum í 24 vikur, og Dreams. Hún samdi og söng svo lagið Zombie sem fjallaði um hryðjuverkaárás írska lýðveldishersins árið 1993.

Rödd O'Riordan var einstök; há og ákveðin. Aldrei fór á milli mála hver var að syngja í lögunum og írski hreimurinn fékk iðulega að njóta sín.

Hljómsveitin Cranberries var stofnuð árið 1989 og hét þá Cranberry Saw Us en er O'Riordan gekk til liðs við sveitina ári síðar var nafninu breytt og hún einfaldlega kölluð The Cranberries.

Sveitin kom fram á sjónarsviðið snemma á tíunda áratugnum er mikil gerjun var í rokktónlistinni. Tónlist hennar var í fyrstu aðeins spiluð í útvarpsstöðum háskólanna en varð fljótt mjög vinsæl og hlaut almenna spilun í útvarpi. Fjórar hljómplötur Cranberries náðu inn á topp 20 lista Billboard.

Margir telja að sveitin hafi m.a. verið innblásin af tónlist og velgengni Sinead O'Connor sem hafði notið gríðarlegra vinsælda nokkrum árum áður. Þá þóttu margir greina áhrif frá Smiths.

Fyrsta plata Cranberries hét Everybody Else Is Doing It, So Why Can’t We? Á henni var að finna lögin Linger og Dreams. Ári síðar kom næsta plata, No Need to Argue og þar var Zombie að finna. 

Þessi önnur plata sveitarinnar var nokkuð frábrugðin þeirri fyrri og breyttist hlustendahópurinn töluvert með tilkomu hennar. Pólitísk skilaboð voru alltumlykjandi í textunum og poppið vék fyrir rokkinu.

Árið 2003 lagði sveitin upp laupana og árið 2007 hóf O'Riordan sólóferil sinn með útgáfu plötunnar Are You Listening?

Í viðtali við breska dagblaðið Guardian í fyrra lýsti O'Riordan því hvernig meðlimir Cranberries höfðu samið sitt fyrsta lag, Linger, í sameiningu. „Ég skrifaði texta um höfnun. Ég gat ekki ímyndað mér þá að lagið yrði vinsælt.“

Árið 1996, er sveitin var á hátindi ferils síns, sagði tónlistargagnrýnandinn Neil Strauss að O'Riordan gæti sungið hvað sem væri. Allt léki í höndunum á henni.

Dolores O'Riordan var fædd 6. september árið 1971. Hún ólst upp í Limerick-sýslu á Írlandi. Árið 1994 giftist hún Don Burton sem hafði verið rótari Duran Duran. Þau skildu árið 2014. Það sama ár var O'Riordan greind með geðhvörf.

Hún átti þrjú börn, Taylor, Molly og Dakota. 

Sex árum eftir að Cranberries hætti formlega kom hún saman á ný og fór í tónleikaferðalag. En í fyrra aflýsti sveitin tónleikum í Evrópu og Bandaríkjunum. Ástæðan var sögð bakveiki söngkonunnar. „Því hefur verið haldið fram að Dolores geti sungið ef hún situr. Því miður er þetta ekki svo einfalt,“ sagði í tilkynningu frá Cranberries á Facebook á þeim tíma.

Í fyrra gaf Cranberries út órafmagnaða plötu, Something Else. Til stóð að sveitin færi í kjölfarið á tónleikaferðalag. Af því varð ekki og var skýringin sögð sú að O'Riordan gæti illa sungið þar sem við sönginn þrýsti á mænuna og hún fyndi þá mikið til.

Hljómsveitin Bad Wolves hafði gert nýja útgáfu af lagi hennar, Zombie og er O'Riordan sögð hafa líkað vel við þá útsendingu. Hún hafði því ætlað sér að syngja lagið enn á ný inn á plötu ásamt þeirri sveit. Til stóð að upptökur færu fram í dag, þriðjudag.

Hér að neðan má hlusta á órafmagnaða útgáfu Cranberries af laginu Zombie.

 Greinin er byggð á fréttum New York Times, Rolling Stone og Sky-sjónvarpsstöðvarinnar.

mbl.is