Lögmál heimsins öll úr skorðum

„Þrátt fyrir mjög flotta umgjörð og heilt yfir áhrifaríkan leik …
„Þrátt fyrir mjög flotta umgjörð og heilt yfir áhrifaríkan leik höfðaði Medea hjá undirritaðri fremur til hugans en hjartans,“ segir m.a. í leikdómi um Medeu. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Hefnd Medeu á svikulum eiginmanni sínum, Jasoni, sem endar með morðum ungra barna þeirra, hefur um aldaraðir verið fordæmd. Enda getur aldrei verið réttlætanlegt að myrða börn, hvort heldur er vegna særðs stolts, vonbrigða í ástamálum, deilna við fyrrverandi maka eða ótta við að börnin verði notuð gegn manni. Í vel uppbyggðu og vandasömu verki Evripídesar gefur Medea okkur nokkrar ástæður fyrir gjörðum sínum, þeirra á meðal réttlætisþörf og hefnd því hún – sjálf konungsdóttir og afkomandi sólguðsins – þolir ekki þá niðurlægingu sem framkoma Jasonar felur í sér. Á öðrum stað nefnir hún einnig ótta sinn við að gjörðir hennar muni bitna á börnunum og þá sé illskárra að hún taki lífið sem hún fæddi. Fyrst og síðast virðist það þó óskin um að valda Jasoni eins miklum sársauka og hægt er sem ræður för og það skýrir hvers vegna hún neitar honum um að faðma lík barnanna í kveðjuskyni,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í leikdómi sínum um Medeu í uppfærslu Borgarleikhússins, en leikdómurinn birtist í laugardagsblaðinu 20. janúar. 

„Íslensk þýðing Hrafnhildar Hagalín á hinum ríflega 2.400 ára gamla harmleik er þjál í munni. Orðfærið kallast auðheyrilega á við samtímann sem myndi þjóna vel í raunsæisnálgun verksins. Stílfærð textameðferð þar sem leikarar tala af yfirveguðum hægagangi skapar hins vegar vissa fjarlægð við efniviðinn. Lokasenan milli Medeu og Jasonar er í öðrum og lágstemmdari stíl, en þar hefði þurft að taka betur utan um orðin til að textinn heyrðist nógu vel.

Harpa Arnardóttir leikstjóri segist í leikskrá hafa valið sýningunni frásagnarmáta ævintýrisins þar sem eðli draumsins ráði ríkjum. Leikmynd og búningar Filippíu I. Elísdóttur undirstrika þessa táknrænu nálgun verksins sem gleður svo sannarlega augað,“ segir m.a. í leikdómnum.  

Um frammistöðu Kristínar Þóru Haraldsdóttur í titilhlutverkinu segir m.a: „Henni tókst afar vel að miðla reiði Medeu, sorg og vonbrigðum. Sú stigmögnun sem verður á örvæntingu hennar eftir því sem tíminn til framkvæmda styttist var góð, en það hjálpaði henni ekki að eiga rólega senu á sviðinu með börnin enn á lífi stuttu eftir að hafa tilkynnt áhorfendum að hún væri að fara utansviðs til þess að drepa þau þá á þeirri stundu. Best tókst henni upp þegar hún var að leika auðmýkt sína gagnvart þeim Kreoni og Jasoni og lék sér að þeim líkt og köttur að mús.

Kynngikraftur Medeu er undirstrikaður með tilkomumiklum hætti í sýningunni þegar vatn byrjar að flæða upp um sviðsgólfið skömmu áður en hún fær skjól hjá Egeifi um miðbik verks. Rísandi vatnið minnir okkur á aðsteðjandi ógnir mannkyns þar sem heimurinn eins og við þekkjum hann mun smám saman sökkva og tortímast vegna aðgerðaleysis okkar í loftslagsmálum. Vatnið skapar einnig sjónrænt sterka tengingu við flóttafólkið sem við heyrum sífellt fréttir af að leggi leið sína yfir opið haf á vanbúnum bátum í leit að friðsamlegri og lífvænlegri strönd. Lokamynd verksins þar sem Medea og Jason ræða saman yfir líkum barna sinna í flæðarmálinu fær áhorfendur sennilega til að velta vöngum yfir því hvort það sé ekki hræsnisfullt að fordæma morð einnar konu á tveimur börnum sínum í hefndarskyni meðan við skeytum engu um þær þúsundir barna sem myrtar eru víðs vegar um heiminn í nafni réttlætis og hefnda.

Í fyrrnefndu viðtali við leikstjórann segist Harpa leggja „áherslu á sjónræna útfærslu og sterka líkamlega nærveru sem virkjar undirmeðvitundina og þá visku sem hún býr yfir“. Vandasamt er að rýna í sýningu með undirmeðvitundina að leiðarljósi, en skoða má þær tilfinningar og hugsanir sem uppfærslan framkallar. Þrátt fyrir mjög flotta umgjörð og heilt yfir áhrifaríkan leik höfðaði Medea hjá undirritaðri fremur til hugans en hjartans.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson