„Liggur við að þú finnir fyrir kúlunum“

Úr kvikmyndinni Óþekkti hermaðurinn sem um milljón Finnar hafa séð …
Úr kvikmyndinni Óþekkti hermaðurinn sem um milljón Finnar hafa séð frá því hún var frumsýnd í fyrra.

Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp eru meðframleiðendur Óþekkta hermannsins, dýrustu kvikmyndar Finna frá upphafi. Milljón aðgöngumiðar hafa verið seldir í Finnlandi.

„Í Óþekkta hermanninum ertu bara í stríðinu, það liggur við að þú finnir fyrir kúlunum,“ segir Ingvar og bætir við fróðleiksmola: „Það var slegið heimsmet í sprengingum í þessari mynd. Metið átti James Bond-myndin Spectre og þetta er bara í Heimsmetabók Guinness.“

Finnska kvikmyndin Tuntematon sotilas, eða Óþekkti hermaðurinn, sem byggð er á samefndri metsölubók Väinö Linna frá árinu 1954, fer í almennar sýningar í Bíó Paradís í dag. Sögusviðið er Finnland í hinu svokallaða Framhaldsstríði sem Finnar háðu við Sovétríkin í seinni heimsstyrjöldinni, á árunum 1941-44 og er sagan sögð frá sjónarhorni fjölda hermanna í tiltekinni herdeild, allt frá herkvaðningu til vopnahlés.

Tvær kvikmyndir hafa áður verið gerðar eftir bókinni sem telst til sígildra verka í finnskri bókmenntasögu og kvikmyndin nýja er sú dýrasta sem gerð hefur verið í Finnlandi. Hún hefur notið feikilega góðrar aðsóknar þar í landi allt frá því hún var frumsýnd í lok október í fyrra, á hundrað ára afmæli finnska lýðveldisins. Hefur nú selst rétt tæp milljón aðgöngumiða sem jafngildir því að fimmti hver Finni hafi séð myndina. Finnsk kvikmynd hefur ekki notið slíkrar aðsóknar í hálfa öld.

Framlag hersins milljóna virði

Þeir Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson, sem reka framleiðslufyrirtækið Kisa, eru meðframleiðendur Óþekkta hermannsins en þeir hafa komið að framleiðslu ellefu finnskra kvikmynda frá árinu 1999, að sögn Ingvars. „Í þessu tilviki erum við beðnir að vera með og komum með evrópskan pening inn í þetta en engan pening frá Íslandi því sjóðurinn var ekki til í þetta,“ segir Ingvar. 

Ingvar Þórðarson framleiðandi.
Ingvar Þórðarson framleiðandi. mbl.is/RAX

Hann segir framleiðslu myndarinnar hafa kostað um sjö milljónir evra. „En í raun og veru kostaði hún mun meira því finnski herinn lánaði okkur herstöðvar og gerði alls konar hluti fyrir okkur. Þannig að það má eiginlega segja að hún hafi kostað í peningum sjö milljónir en finnski herinn lét okkur fá sem samvaraði fimm til sex milljónum,“ útskýrir Ingvar og bætir við að hver finnsk herstöð sé á stærð við höfuðborgarsvæðið og skógi vaxin.

Ingvar segir að um 55.000 manns hafi sóst eftir því að fara með aukahlutverk í myndinni, hlutverk hermanna og 5.000 verið valdir úr þeim hópi. Og þennan her þurfti að fæða og veita húsaskjól, sauma búninga og flytja milli staða.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson