Elskar að hafa mikið að gera

Ari Ólafsson flytur lagið Heim í Söngvakeppninni 2018.
Ari Ólafsson flytur lagið Heim í Söngvakeppninni 2018.

Ari Ólafson flytur lagið Heim á fyrra undanúrslitakvöldin Söngvakeppninnar 2018, laugardaginn 10. febrúar. 

Af hverju Eurovision?

Þetta er virkilega flott keppni og ég er mikill aðdáandi Eurovision. Þetta er einn stærsti tónlistarsjónvarpsviðburður í heimi og því flottur stökkpallur fyrir mig sem tónlistarmann og söngvara. Það væri mikill heiður að fá að keppa fyrir Íslands hönd. Söngvakeppnin er frábært tækifæri til að fá að kynna mig og sýna Íslandi hver Ari Ólafsson er. 

Hvernig hófst vinnan við lagið? 

Ég fékk símtal frá henni Þórunni Ernu Clausen og hún bað mig um að kíkja á lagið sem hún samdi og syngja það fyrir hana. Hún hafði séð mig syngja á tónleikum í Eldborg stuttu áður og séð þegar ég söng með Sissel Kyrkebo á jólatónleikum. Ég tók mig upp að syngja lagið og sendi henni það. Hún varð mjög hrifin af söngnum og bað mig um að vera flytjandinn á laginu. Þórunn samdi bæði lagið og textana bæði á íslensku og ensku og mér leist virkilega vel á lagið hennar. Vignir Snær Vigfússon sá síðan um að taka upp og útsetja með henni og síðan voru fengnir algjörlega frábærir hljóðfæraleikarar til að spila inn á lagið. Þetta er langt ferli frá demói og yfir í endanlega útgáfu og margar klukkustundir að baki í vinnu og undirbúningi. 

Hverju vonar þú að lagið skili til hlustenda?

Ég vona að fólk hlusti á textann og taki inn boðskapinn í laginu. Það ganga allir í gegnum erfiðleika og sársauka einhvern tímann á ævinni, við vitum ekkert hvenær. Það sést heldur ekkert alltaf utan á fólki að því líður illa. En við eigum öll okkar sögu og ef við veljum að koma vel fram við hvert annað þá væri heimurinn held ég aðeins betri. Mér finnst lagið mjög grípandi og kraftmikið og ég vona að fólk njóti þess líka, að hlusta á lagið sjálft og sönginn og bara njóta. Það er svolítill Harry Styles stíll á þessu lagi, jafnvel Bítlalegt sem mér finnst skemmtilegt. Fyrir mig sem söngvara er líka mjög gaman að fá að syngja það því það nær yfir svo breitt tónsvið. 

Hvenær byrjaðir þú að syngja og hvernig byrjaði tónlistaráhuginn?

Ég hef sungið síðan ég man eftir mér en ég byrjaði sérstaklega að hafa mikinn áhuga á tónlist þegar ég lék Oliver Twist í Þjóðleikhúsinu. 

Uppáhalds-Eurovisonlagið? 

Fairytale með Alexander Rybak, mér finnst hann bara svo góður flytjandi og hvað hann gat heillað alla upp úr skónum með smá brosi. Það er svakalegur hæfileiki. Líka bara allt atriðið var æðislegt, dansararnir, bakraddirnar og hann, allt var geðveikt! 

Hvernig gengur undirbúningurinn fyrir Söngvakeppnina? 

Undirbúningurinn gengur mjög vel. Það er frábær andi í hópnum og mikið hlegið á æfingum. Við erum á fullu alla daga í alls kyns undirbúningi, æfingum, sviðsæfingum, búningamátun, viðtölum, að skreppa og taka lagið hér og þar og auðvitað alls kyns kynningarmál. Þetta er ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt ferli. Við erum líka búin að taka upp tvö ólík tónlistarmyndbönd með frábæru fólki, bæði við ensku og íslensku útgáfuna, þannig að enginn dagur er eins í þessu ferli. Mér finnst rosalega gaman að syngja þetta lag, sérstaklega þegar kemur að háa kaflanum. Ég er reyndar búinn að eyða meirihlutanum af mánuðinum úti í frosti að syngja það í alls kyns tökum, en nú fæ ég loksins að syngja það inni í Háskólabíói á laugardaginn. Það væri dásamlegt að fá tækifæri til að komast í Laugardalshöllina þannig að ég hvet ykkur til að hlusta á lagið og kjósa ef ykkur líst vel á. 

Hvað hefur komið þér mest á óvart í tengslum við Eurovision-ferlið?

Hvað þetta er mikil vinna og líka hvað þetta er mikil skemmtun, ég elska að hafa svona mikið að gera. 

Getur Ísland unnið Eurovision og hvar ætti að halda keppnina?

Já ég held að við getum alltaf unnið og held að við þyrftum að halda þetta þá á Laugardalsvellinum, nei það er úti! Kórinn, við getum haldið þetta þar! 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant