Ljúga til um samstarf við Landsbankann

Hljómsveitin HATARI sendi frá sér falsaða fréttatilkynningu um samstarf við ...
Hljómsveitin HATARI sendi frá sér falsaða fréttatilkynningu um samstarf við Landsbankann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hljómsveitin HATARI heldur tónleika í Stúdentakjallaranum annað kvöld og fer óhefðbundnar leiðir við kynningu þeirra. Útgáfufyrirtæki hljómsveitarinnar, Svikamylla ehf., sendi frá sér fréttatilkynningu um tónleikahaldið, sem er að mestu leyti ósönn.

Þar kemur fram að hljómsveitin hafi undirritað samning við Landsbankann um tónleikahald í boði bankans. Það er rangt, að sögn Rúnars Pálmasonar, upplýsingafulltrúa Landsbankans.

Hið rétta er að Landsbankinn er í samstarfi við Félagsstofnun Stúdenta (FS), sem rekur Stúdentakjallarann. Bankinn skiptir sér hins vegar ekki af því hverja FS ræður til að spila á tónleikunum, að sögn Rúnars.

„Þetta er bara uppspuni,“ segir Rúnar í samtali við mbl.is.

Fölsuð mynd fylgdi hinni ósönnu fréttatilkynningu, þar sem búið er að setja mann með gadda-andlitsgrímu við hlið Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans.

Í tilkynningu Svikamyllu ehf. segir að markmiðið með tónleikunum sé að upplýsa háskólanema um siðrof nýfrjálshyggjunnar og gera þeim ljóst að gangverk fjármagnsins sé ósigrandi, sigurinn unninn og stríðinu tapað.

„Stjórn Svikamyllu ehf. ber ábyrgð á skipulagningu tónleikanna í samstarfi við FS og Stúdentakjallarann. Á næstu dögum munu þessir aðilar auglýsa tónleikana með það fyrir augum að ná eyrum og augum stúdenta og bæta ímynd Landsbankans,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

mbl.is