Margt býr í þokunni

Karl Ágúst Úlfsson „fer hins vegar þá leið að halda ...
Karl Ágúst Úlfsson „fer hins vegar þá leið að halda öllum persónum inni og teflir þar djarft í ljósi þess að aðeins þrír leikarar fara með öll hlutverk sýningarinnar, en í öruggum höndum Ágústu Skúladóttur leikstjóra heppnast þessi nálgun fullkomlega,“ segir í rýni um Í skugga Sveins sem Gaflaraleikhúsið setti upp. mbl.is/Árni Sæberg

„Uppfærsla Gaflaraleikhússins á Í skugga Sveins býður upp á fyrirtaks skemmtun fyrir unga jafnt sem aldna. Hér ræður leikgleðin ríkjum undir hugmyndaríkri leikstjórn og sjónræn útfærsla öll gleður augað,“ segir Silja Björk Huldudóttir í lokaorðum leikdóms um Í skugga Sveins sem birtur er í Morgunblaðinu í dag. 

Í dómnum rifjar Silja upp að leikritið Skugga-Sveinn eftir þjóðskáldið Matthías Jochumsson, sem skólapiltar Latínuskólans frumfluttu í febrúarmánuði fyrir 156 árum, muni vera eitt mest leikna leikrit íslenskrar leiklistarsögu þótt það sé núorðið ekki oft sett upp. Þessi alþýðlegi gamanleikur með söngvum telst til sígildra íslenskra leikbókmennta og flestallir þekkja persónur á borð við Skugga-Svein, Ketil skræk og Grasa-Guddu hvort sem þeir hafa séð þær ljóslifandi á leiksviðinu eða ekki.

Karl Ágúst Úlfsson leitar innblásturs í Skugga-Svein í fjölskyldusöngleiknum Í skugga Sveins sem Gaflaraleikhúsið frumsýndi um liðna helgi. Í stórum dráttum fylgir Karl Ágúst söguþræði Matthíasar þar sem lýst er handtöku útlaga sem hafast við í óbyggðum samhliða því sem sögð er ástarsaga bóndadótturinnar Ástu í Dal og Haraldar, ungs pilts sem er í slagtogi með útilegumönnunum en reynist óvænt vera af góðum ættum.

„Karl Ágúst þekkir söguna eins og lófann á sér enda hefur hann leikið ýmis hlutverk í verki Matthíasar á löngum leikaraferli sínum. Hann gerir efniviðinn algjörlega að sínum með ýmsum útúrdúrum, breytingu á tengslum lykilpersóna og stórskemmtilegum vísunum jafnt í nútímann og hefðina. Við kynnumst persónum sem eru vegan, farið er í látbragðsleiki í anda Útsvars, elskendur á borð við Rómeó og Júlíu ber á góma auk þess sem vitnað er í persónur úr Spaugstofunni. Hér fá því allir eitthvað við sitt hæfi. Ungir áhorfendur geta hæglega fylgt grunnsögunni og njóta nútímalegra vísana sem og prumpubrandaranna sem reykvélarnar bjóða upp á, meðan hinir eldri skilja betur dásamlegan spuna höfundar með menningararfinn.

Skugga-Sveinn býr yfir fjölskrúðugu persónugalleríi, en sumar af litríkustu persónum verksins skipta ekki sköpum fyrir framvinduna. Því hefði Karl Ágúst hæglega getað sleppt Galdra-Héðni, Gvendi smala og Jóni sterka án þess að kæmi að sök. Hann fer hins vegar þá leið að halda öllum persónum inni og teflir þar djarft í ljósi þess að aðeins þrír leikarar fara með öll hlutverk sýningarinnar, en í öruggum höndum Ágústu Skúladóttur leikstjóra heppnast þessi nálgun fullkomlega.

Í meðförum leikhópsins fær frásagnarlistin að njóta sín til fulls og slegið er á létta strengi þegar fámennið veldur einstaka töfum í annars snörpu flæði. Leikararnir Kristjana Skúladóttir og Karl Ágúst Úlfsson leiða áhorfendur í gegnum sýninguna í hlutverkum tveggja sögumanna, sem bregða sér síðan í hátt á annan tug hlutverka auk þess sem leikararnir sjálfir blanda sér inn í framvinduna. Kristjana og Karl Ágúst fara létt með að vinda sér milli ólíkra hlutverka og hafa þar ekkert annað en framúrskarandi leiktækni að vopni í bland við meistaralegar grímur og leikgervi úr smiðju Völu Halldórsdóttur. Notast var við hluta fyrir heild, þar sem skegg táknaði Sigurð stórbónda í Dal, blómakrans Ástu dóttur hans, heilmikið tágarhár Grasa-Guddu og tignarleg hárkolla og vasapeli Lárenzíus sýslumann.

Rýnir sá Kristjönu síðast á leiksviði fyrir um fimmtán árum í uppfærslu Vesturports á Rómeó og Júlíu. Hún býr yfir miklum sviðssjarma, hefur góða rödd og nákvæmni í hreyfingum sem nýtist jafnt í hlutverki Ástu, sem er yndisleikinn uppmálaður, snobbaða sýslumannsins Lárenzíusar og einfeldningsins Ketils skræks. Óskandi væri að Kristjana sæist oftar á leiksviði. Það sama gildir raunar um Karl Ágúst, sem er einn besti gamanleikari sinnar kynslóðar. Hann var dásamlegur Haraldur, sem enn átti svo margt ólært um samskipti kynjanna og ástina, sprenghlægilegur Jón sterki og fór hreinlega á kostum í aðdraganda aðfararinnar að Skugga-Sveini þar sem hann brá sér í óteljandi hlutverk í mýflugumynd með aðstoð tveggja ærhorna og sýndi ótrúlega fimi sem hinn fótfúni Methúsalem við mikla kátínu leikhúsgesta. 

„Eyvindur Karlsson er höfundur tónlistar og flytur hana í gervi ...
„Eyvindur Karlsson er höfundur tónlistar og flytur hana í gervi Skugga-Sveins. Stærstan hluta sýningar er hann staðsettur í helli sem skapaður er með ljósum að tjaldabaki,“ segir í rýni. mbl.is/Árni Sæberg

Eyvindur Karlsson er höfundur tónlistar og flytur hana í gervi Skugga-Sveins. Stærstan hluta sýningar er hann staðsettur í helli sem skapaður er með ljósum að tjaldabaki. Hann var ábúðarmikill með atgeirinn/gítarinn á lofti og ógnvekjandi grímu fyrir andlitinu, en varð skyndilega mannlegur í dýflissu sýslumanns. Útsetningar hans á tónlistinni voru flottar og smart að láta gítarinn duna í anda spaghettívestranna sem byggði upp tilheyrandi spennu. Söngtextar Karls Ágústs hljómuðu vel í eyrum og bættu miklu við bæði persónusköpun og framvindu. 

Einfaldleikinn ræður ríkjum í stílhreinu útliti sýningarinnar. Í leikmynd sinni vinnur Guðrún Öyahals annars vegar með kolla í mismunandi stærðum sem klæddir eru gervigrasi í ólíkum jarðarlitum svo minnir á þúfur í landslagi og hins vegar leiktjöld sem Skúli Rúnar Hilmarsson málar á með glæsilegri lýsingu sinni þar sem kröftugir litir fá að njóta sín til fulls. Svartir búningar Guðrúnar þjóna vel sem grunnur fyrir allar persónur verksins. Með aðeins örfáum undantekningum samanstanda leikmunir af beinum í mismunandi stærðum sem þjóna allt frá prjónum og penna til riffils og ýmissa matvæla auk þess sem beinin voru nýtt með flottum hætti til tónsköpunar,“ segir í dómnum sem lesa má í Morgunblaðinu í dag. 

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »