Reynir að halda geðheilsunni

Sólborg og Tómas Helgi flytja lagið Ég og þú í ...
Sólborg og Tómas Helgi flytja lagið Ég og þú í Söngvakeppninni 2018.

Sólborg Guðbrandsdóttir flytur lagið Ég og þú ásamt Tómasi Helga Wehmeier á fyrra undanúrslitakvöldi Söngvakeppninnar 2018, laugardaginn 10. febrúar.

Af hverju Eurovision?

Því það er mikil áskorun. Mig hefur alltaf langað að taka þátt í Eurovision.

Hvernig hófst vinnan við lagið?

Tómas hafði samband við mig fyrir sumarið 2017 og bað mig um að taka þátt í þessu með sér. Ég ákvað að slá til og í ágúst í fyrra fórum við til London þar sem við sömdum lagið ásamt Rob Price og tókum upp. Íslenska textann á bróðir minn, Davíð Guðbrandsson.

Hverju vonar þú að lagið skili til hlustenda?

Ég vona að þeir hrífist bara af flutningnum og nái að tengja við lagið að einhverju leyti.

Hvenær byrjaðir þú að syngja og hvernig byrjaði tónlistaráhuginn?

Ég hef sungið frá því ég man eftir mér. Pabbi minn er tónlistarmaður og tónlist hefur alltaf verið hluti af lífi okkar systkinanna.

Uppáhalds-Eurovisonlagið? 

Amar Pelos Dois með Salvador Sobral sem sigraði í fyrra, mér finnst það gullfallegt og flutningurinn hans óaðfinnanlegur.

Hvernig er gengur undirbúningurinn fyrir Söngvakeppnina?

Undirbúningurinn gengur vel. Við erum þessa dagana í alls konar viðtölum, að syngja alls staðar þar sem við getum og gera og græja atriðið, ásamt því auðvitað að æfa sjálf og reyna að halda geðheilsu.

Hvað hefur komið þér mest á óvart í tengslum við Eurovision-ferlið?

Hversu langt og stórt ferlið er. Það kom mér líka á óvart að Söngvakeppnin er nákvæmlega jafnfagleg og -flott og hún lítur út fyrir að vera í sjónvarpinu. Fólkið sem kemur að keppninni er allt fagmenn fram í fingurgóma og manni líður eins og maður sé virkilega velkominn.

Getur Ísland unnið Eurovision og hvar ætti að halda keppnina?

Það held ég nú. Allir í Herjólfsdal!

 

mbl.is