Biðjast afsökunar á ofnæmisatriði

Pétur kanína og félagar. Atriði þar sem þeir kasta brómberjum ...
Pétur kanína og félagar. Atriði þar sem þeir kasta brómberjum í mann með ofnæmi fyrir berjunum hefur verið gagnrýnt harðlega. Ljósmynd/IMBD

Framleiðendur kvikmyndarinnar um Pétur kanínu [e. Peter Rabbit] hafa sent frá sér afsökunarbeiðni í kjölfar harðrar gagnrýni á það hvernig mynd er dregin upp af ofnæmi einnar sögupersónunnar.

Í einu atriði myndarinnar hendir hópur af kanínum brómberjum í eina persónuna sem er með ofnæmi fyrir berjunum.

Í sameiginlegri yfirlýsingu sem Sony Pictures og framleiðandi myndarinnar sendu frá sér segir að „ekki hefði átt að gera grín“ að málinu. 

BBC segir atriðið hafa sætt mikilli gagnrýni og hafa sumir hvatt til þess á Twitter að bíógestir sniðgangi myndina fyrir vikið. Þá sögðu samtökin Kids with Food Allergies á Facebook-síðu sinni að „matarofnæmis“brandarar“ væru skaðlegir samfélaginu“.

Myndin, sem er aðlögun að bók barnabókahöfundarins Beatrix Potter um Pétur kanínu var frumsýnd í kvikmyndahúsum vestahafs um helgina.

Atriðið sem um ræðir sýnir sögupersónuna Tom McGregor, sem er með ofnæmi fyrir brómberjum, verða fyrir árás Péturs og félaga sem henda í hann berjunum. Einn nær meira að segja að skjóta brómberi upp í munn Toms, sem fyrir vikið neyðist til að nota ofnæmispenna sinn til að draga úr ofnæmisáhrifunum.

Í yfirlýsingu Sony segir að það hafi verið rangt hjá framleiðendunum að hafa þetta atriði inni, jafnvel þó að það væri gert með teiknimyndalegum hætti.

„Við biðjumst innilega afsökunar á því að hafa ekki verið meðvitaðri um það hversu viðkvæmt þetta mál er,“ sagði í yfirlýsingunni.

mbl.is