Lét fjarlægja legið

Lena Dunham fór í legnám.
Lena Dunham fór í legnám. AFP

Girls-stjarnan Lena Dunham greinir frá því í mars-útgáfu Vogue að hún hafi farið í legnám. Dunham er með slæmt legslímuflakk og fyrir aðgerðina hafði hún reynt ýmsar aðferðir til þess að vinna bug á sjúkdómnum. 

Leikkonan og handritshöfundurinn sem er aðeins 31 árs lét fjarlægja legið og leghálsinn. Fyrir legnámið hafði Dunham farið í flóknar aðgerðir sem og leitað sér óhefðbundinna lækninga. Endometriosis Foundation of America  greinir einnig frá því að Dunham hafi verið að minnsta kosti þrisvar lögð inn á spítala á einu ári vegna legslímuflakks. 

Í legnáminu kom í ljós að vandi Dunham var flóknari en henni hafði áður verið sagt þar sem hún var með eins konar öfugar blæðingar en hún lýsir því þannig að magi hennar hafi fyllst af blóði.

Þrátt fyrir að legið sé farið eru börn inni í myndinni hjá Dunham en í dag líður henni eins og hún hafi val ólíkt því sem áður var. Hún er enn með eggjastokka og mun bráðum skoða hvort egg sé þar að finna. Hún er einnig spennt fyrir ættleiðingu. 

Leikkonan Lena Dunham.
Leikkonan Lena Dunham. AFP
mbl.is