Leitaði innblásturs víða

Stórsveit Reykjavíkur fagnar 27 ára starfsafmæli í dag, 17. febrúar.
Stórsveit Reykjavíkur fagnar 27 ára starfsafmæli í dag, 17. febrúar.

„Ég leitaði innblásturs víða, allt frá textum til kvikmynda og teiknimynda,“ segir Steen Nikolaj Hansen um tónverk sitt, Ferðina til Valhallar, sem hann stjórnar á tónleikum Stórsveitar Reykjavíkur í Silfurbergi Hörpu í dag, laugardag, kl. 16.

Í rúm þrjátíu ár var Hansen leiðandi básúnuleikari í Stórsveit danska ríkisútvarpsins í Kaupmannahöfn og stjórnaði hljómsveitinni reglulega síðustu sex árin ásamt því að leika sem gestaleikari með stórsveitum í París og New York.

Steen Nikolaj Hansen, danskur básúnuleikari, hljómsveitarstjóri og tónskáld.
Steen Nikolaj Hansen, danskur básúnuleikari, hljómsveitarstjóri og tónskáld.

„Síðustu árin hef ég líka stjórnað öllum herlúðrasveitum Danmerkur og lúðrasveit konunglegu lífvarðarsveitarinnar,“ segir Hansen, sem samhliða því að sinna hljómsveitarstjórn í auknum mæli hefur snúið sér að tónsmíðum og útsetningum, en meðal þeirra sveita sem hann hefur útsett fyrir auk Stórsveitar danska ríkisútvarpsins eru Stórsveit BBC, Sinfóníuhljómsveit Danmerkur og Sinfóníuhljómsveitirnar í Óðinsvéum og Álaborg. Samhliða þessu hefur hann um árabil kennt básúnuleik í Óðinsvéum, Esbjerg og Álaborg.

Spurður um tilurð þess að hann stjórnar eigin verki hérlendis segist Hansen lengi hafa gengið með þann draum í maganum að færa verkið áheyrendum á víkingaslóðum. „Við Sigurður [Flosason] höfum þekkst í mörg ár, en það eru rúm 20 ár síðan við spiluðum fyrst saman á tónlistarhátíð í Svíþjóð. Eftir frumflutning Ferðarinnar til Valhallar í Danmörku haustið 2015 fannst mér tilvalið að fara með verkið til Íslands í ljósi þess að umfjöllunarefni þess tengist víkingum nánum böndum,“ segir Hansen og lýsir ánægju sinni með að fá tækifæri til að vinna með Stórsveit Reykjavíkur, en svo skemmtilega vill til að í dag, á tónleikadeginum sjálfum, fagnar sveitin 27 ára starfsafmæli sínu.

„Ferðin til Valhallar var fyrsta stóra tónverkið sem ég samdi,“ segir Hansen og lýsir verkinu sem svítu í níu þáttum fyrir stórsveit og rafeindatól. „Mörg tónverk hafa verið skrifuð innblásin af grískum og rómverskum guðum og því fannst mér kominn tími á verk um norrænu goðin,“ segir Hansen, en meðal goða sem koma fyrir í verkinu eru Þór, Loki, Freyja, Týr, Njörður, Hel og Óðinn. „Mér fannst hæfa best að láta bassaklarínettuna túlka Óðin. Það er einhver dulúð yfir hljómnum í því hljóðfæri sem hæfir þessu göldrótta goði. Ég flétta síðan raftónlist inn í verkið,“ segir Hansen og rifjar upp að þegar verkið var frumflutt í Danmörku á sínum tíma hafi rafhljóðin verið tekin upp fyrir fram, en að þessu sinni séu þau leikin lifandi. „Þannig verða rafhljóðin eins og aukahljóðfæri í sjálfu sér sem spilar með stórsveitinni sem verður spennandi að heyra,“ segir Hansen.

Spurður um stíl verksins segist hann hafa leitað fanga víða. „Verkið felur í sér ferðalag sem hefst á vígvellinum við sólarupprás, en þaðan liggur leiðin til Valhallar um Bifröst og að lokum aftur til Miðgarðs,“ segir Hansen og tekur fram að verkið beri þess merki að hann hafi menntað sig í kvikmyndatónlist. „Verkið er undir sterkum áhrifum frá hefðbundinni stórsveitartónlist, en ég vitna líka í hip hop, rokk og klassíska samtímatónlist. Verkið spannar allt frá hljómmiklum köflum yfir í lýrík á milli þess sem hljóðheimurinn verður á köflum stórskrýtinn, enda er þetta lýsing á ferðalagi út í hið óþekkta.“

Þess má geta að sérstakur gestur tónleikanna er Einar Kárason sem verður bæði kynnir og sögumaður tónleikanna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson