Leikari og gullsmiður sem varð forseti

Erling Jóhannesson, gullsmiður og leikari, er nýr forseti Bandalags íslenskra ...
Erling Jóhannesson, gullsmiður og leikari, er nýr forseti Bandalags íslenskra listamanna. Ljósmynd/Pedziszewska

Gullsmiðurinn og leikarinn Erling Jóhannesson ætlaði að verða stór listamaður en stendur nú nokkuð óvænt uppi sem nýr forseti Bandalags íslenskra listamanna (BÍL). Erling bauð sig fram til starfsins á aðalfundi félagsins sem fram fór í gær í Iðnó og hafði betur gegn Hlín Agnarsdóttur.

„Þetta er eitt af þessum störfum sem listamenn eru ekki endilega með sem markmið, þegar einhver stingur upp á þessu við mann þá hálfbregður manni og finnst þetta fáránlegt, því auðvitað ætlaði maður að verða stór listamaður,“ segir Erling í samtali við mbl.is.   

Hann tekur við af Kolbrúnu Halldórsdóttur leikstjóra sem hefur starfað sem forseti BÍL í 8 ár. Tilgangur bandalagsins er fyrst og fremst að styðja vöxt og viðgang íslenskra lista, bæði innanlands og utan, gæta hagsmuna íslenskra listamanna og efla með þeim samvinnu og samstöðu.

„Ha, ég?“

Erling lýsir aðdragandanum þannig að einhver hafa bankað í öxlina á honum og stungið upp á að hann byði sig fram. Svar hans var í fyrstu: „Ha, ég?“ Hann segir að áhuginn hafi svo vaxið eftir því sem hann hafi komist meira og meira inn í fjölbreytt störf listageirans, meðal annars með ýmiss konar nefndarsetu.  

Erling rekur gullsmíðaverkstæði og gallerí í miðbænum.
Erling rekur gullsmíðaverkstæði og gallerí í miðbænum. Ljósmynd/Jónatan Grétarsson

BÍL samanstendur af fjölmörgum fagfélögum listamanna og skapandi greina, meðal annars í arkitektúr, hljómlist, leiklist, listdansi , leikmynda- og búningahönnun, leikrita- og handritaskrifum og myndlist. Erling er menntaður gullsmiður og leikari og aðspurður segir hann að það muni án efa nýtast honum í starfi, þó að hann hafi ekki velt því sérstaklega fyrir sér. „Ég held að allir listamenn eigi auðvelt með að setja sig í spor listamanna í öðrum listgreinum.“

Listamennirnir auðga mannlífið

Erling segist þurfa að gefa sér tíma til að koma sér inn í starfið áður en hann getur sagt til um hvort og hvernig breytingum sé von á. „Gefðu mér svona tvö ár alla vega,“ segir hann léttur í bragði.

Hann veit þó fyrir víst að hann mun leggja áherslu á að berjast fyrir mikilvægi listarinnar í íslensku samfélagi. „Ég vil að við komumst á það stig að tala um listina sem mikilvægan hlut í okkar umhverfi og náum einingu um hvað þetta eru í rauninni mikil verðmæti sem við eigum í öllum þessum skapandi listamönnum og hvernig þeir auðga mannlífið. Við þurfum að ná samtali um það og vera stolt af því að eiga alla þessa listamenn.“  

Fjármögnun ævarandi baráttumál

Erling mun halda áfram að sinna því góða starfi sem forveri hans í starfi sinnti um árabil, að hans eigin sögn. „Við erum að kveðja forseta sem er búin að vera gríðarlega öflug í starfi og samskiptum við hið opinbera. Bandalagið mun halda áfram að vinna í sameiginlegum hagsmunum, finna orðræðunni farveg sem og samtalinu við hið opinbera og stjórnsýsluna.“

Þá segir Erling að það verði ævarandi verkefni að tala um fjármögnun bæði stofnana og sjálfstæða geirans. „Það er stöðugt baráttumál.“ Hann sé hins vegar rétt að byrja og því sé allt of snemmt að segja til um hversu lengi hann sér fyrir sér að gegna starfi forseta BÍL. „Þetta er síbreytilegur heimur, heimur listamanna er á hraðbrautinni núna og þetta umhverfi getur litið allt öðruvísi út eftir nokkur ár. En ég myndi segja að átta ár væri mátulegur tími fyrir forsetatitla.“    

Starfið krefst rýmis og tíma

Erling rekur verkstæði og gallerí á Hverfisgötu og samhliða því hefur hann unnið við leiklist og leikstjórn. „Þetta verður viðbót við það og krefst rýmis og tíma,“ segir hann og er hann tilbúinn til að ýta öðru til hliðar ef á þarf að halda.

Fyrsti dagur Erlings í starfi forseta BÍL er á morgun og er hann fullur tilhlökkunar og er spenntur fyrir komandi verkefnum.

mbl.is