Foy fékk minna borgað sem drottningin

Claire Foy og Matt Smith fengu ekki jafn vel borgað ...
Claire Foy og Matt Smith fengu ekki jafn vel borgað fyrir The Crown. AFP

Framleiðendur þáttanna The Crown viðurkenndu á ráðstefnu í Jerúsalem að leikkonan Claire Foy sem hingað til hefur leikið aðalhlutverkið, Elísabetu Englandsdrottningu, hafi fengið minna borgað en Matt Smith sem lék Filippus, eiginmann hennar. 

Variety greinir frá því að þegar framleiðendurnir voru spurðir hvort að Foy hafi fengið sömu laun hafi svarið verið nei. Var ástæðan fyrir launamismuninum sú að Smith var frægur fyrir hlutverk sitt í Doctor Who áður en hann tók við hlutverkinu. Þeir tóku þó fram að enginn mundi fá hærri laun í framtíðinni en drottningin. 

Það verður þó ekki Foy sem fær ríflega launahækkun þar sem skipt er um leikara þegar persónurnar eldast. Mun Olivia Colman fara með hlutverk drottningarinnar í þriðju og fjórðu þáttaröðinni.  

Töluverðir peningar eru í Netflix-þáttunum sem fjalla um valdatíð Elísabetar Englandsdrottningar en þeir eru með dýrustu þáttum sem hafa verið framleiddir. Hver þáttur í fyrstu tveimur þáttaröðunum kostaði um fimm milljónir punda eða tæpar 700 milljónir. Í annarri þáttaröð var Foy til að mynda með 120 búninga. 

Claire Foy og Matt Smith í hlutverkum sínum í The ...
Claire Foy og Matt Smith í hlutverkum sínum í The Crown.
mbl.is