„Lærdómsríkt að rúlla þessu í gegn“

Björk Guðmundsdóttir.
Björk Guðmundsdóttir.

Björk heldur tónleika í Háskólabíói 12. apríl næstkomandi og flytur ásamt hópi tónlistarmanna lög af nýjustu plötu sinni, Utopia, hennar tíundu sólóplötu sem kom út í nóvember síðastliðnum.

„Þetta verður eins konar generalprufa fyrir væntanlega tónleikaferð,“ segir Björk í samtali um tónleikana og bætir við að eins og í mörgum fyrri tónleikaferðum vinni hún með hópi íslenskra listamanna. „Alveg síðan ég gerði Homogenic hef ég unnið með íslenskum strengjaleikurum, íslenskum brassstelpum á Voltu, var með kórinn á Medullu og svo framvegis... nú eru íslenskar flautustelpur með mér.“

Á flauturnar leika þær Melkorka Ólafsdóttir, Áshildur Haraldsdóttir, Berglind María Tómasdóttir, Steinunn Vala Pálsdóttir, Björg Brjánsdóttir, Þuríður Jónsdóttir og Emilía Rós Sigfúsdóttir. Bergur Þórisson leikur á básúnu og sér um rafhljóð og þá er ásláttarmeistarinn Manu Delago með eins og á nokkrum síðustu plötum Bjarkar.

„Svo er Heimir Sverrisson að hanna leikmyndina og Margrét Bjarnadóttir kóreógrafíuna. Við þessir Íslendingar höfum verið að æfa kóreógrafíuna á leikmyndinni en förum síðar til London, í lok maí, og þar bætist við ljósasjóið og vísúalarnir sem eru sýndir á skjá fyrir aftan okkur.“ Björk segir að þessa tónleika nú haldi þau því án þess.

„Ég hef í raun aldrei selt áður inn á þetta stig en mér heyrist fólk hér heima kvarta yfir því að ég spili ekki nógu oft hérna og svo held ég líka að þetta verði mjög gott fyrir okkur öll og lærdómsríkt að rúlla þessu í gegn, sem genaralprufu án ljósa og myndræna þáttarins.“

Tvær útgáfur af tónleikum

Þegar spurt er hvort Björk hafi þurft að breyta útsetningunum af plötunni mikið fyrir tónleikaferðina segir hún það hafa verið nokkra handavinnu að fækka flautunum út tólf í sjö. Svo hafi hana langað til að draga fram fleiri sóló hjá stelpunum. „Ég lærði það í eldgamla daga, þegar ég var í Kukli og Sykurmolunum, að þegar ég byrja að túra er oft gott að hafa eitthvað sem getur vaxið áfram. Og það er misjafnt eftir plötum hvað það er. Á þessari plötu myndi ég segja að það væru flautusólóin og gegnum túrinn, sem verður „on“ og „off“ í tvö, þrjú ár, mun ég kannski bæta inn flautusólóum hér og þar. Stelpurnar gera þegar ákveðna sándeffekta, alls konar yfirtóna og vindhljóm.

Þemað er í raun vindur og það er rok út alla plötuna,“ segir hún og hlær. „Og svo eru það fuglar.“

Björk Guðmundsdóttir heldur tónleika hér á landi í næsta mánuði.
Björk Guðmundsdóttir heldur tónleika hér á landi í næsta mánuði.

Utopia er lengsta plata Bjarkar, yfir 70 mínútur; mun hún leika hana í heild sinn á tónleikunum?

„Nei. Á einhverjum tímapunkti en ekki núna. Það verða tvær útgáfur af plötunni á tónleikaferðinni. Í fyrsta lagi festival-útgáfan, sem við förum núna af stað með, þar sem er meiri kraftur og nokkur gömul lög eftir mig í bland, þar sem við höfum útsett kóra eða strengi fyrir flautur. Við spilum sum rólegri laganna af Utopiu en sleppum öðrum. Á næsta ári mun ég síðan koma með lengra sjóv, útgáfu sem er meira miðuð fyrir sali eins og Eldborg. Það sem við flytjum í Háskólabíói núna er frekar hressa hliðin.“

Á tónleikunum í kjölfar þarsíðustu plötu, Vulnicura, flutti Björk ásamt strengjasveit lögin af plötunni fyrir hlé en eldri lög eftir hlé; verður það eins nú?

„Nú verður þetta blanda. Það er ekkert hlé á festival-sjóvinu, þetta er eitt rennsli um klukkutíma langt; þrjú eða fjögur gömul lög og svo upbeat lögin af Utopiu.“

Platan kom út í nóvember, fór Björk þá strax að huga að tónleikaferð, sem næsta kafla verksins.

„Ég hef aldrei gert þetta tvisvar eins. Ég trúi á það að reyna að gera plöturnar mínar eins ólíkar og hægt er. Í tvö ár gerði ég VR-útgáfu [„virtual reality“] af Vulnicuru, með „Björk Digital“-sýningunni, og við fórum með hana til fimmtán borga. Þegar við lukum því gerðum við myndböndin fjögur við Utopiu, ég var í því síðasta haust. Síðan kom platan út og ég fór í nokkuð gott jólafrí, byrjaði svo í febrúar rólega að hugsa um tónleikana.“ Björk segir að oft leggist tónlistarmenn í tónleikaferðir strax efir útgáfu nýrra platna en margt hafi breyst með stafrænu byltingunni, á því séu góðar hliðar og slæmar en þá sé um að gera að njóta góðu hliðanna.

Það hljómar eins og mikil skuldbinding fyrir alla að leggjast í tónleikaferð sem stendur í tvö, þrjú ár, þótt það verði með hléum.

„Með hverri plötu túra ég minna og minna,“ svarar Björk. „Með Biophiliu fórum til til dæmis til tíu borga og vorum líka með þetta nám fyrir krakkana, tónlistarskóla, og vorum í mánuð í hverri borg – og tveir mánuðir í frí á milli. Það var rosalegur lúxus fyrir gamlan poppara. Þetta tók í heild tvö ár en við vorum til dæmis í mánuð í Buenos Aires og komum svo heim í tvo mánuði, vorum í mánuð í París, heima í tvo; það var ekki þessi tætingur með tvö hundruð tónleikum á ári eins og við gerðum Sykurmolarnir í gamla daga. Það var ógeðslega gaman – en ég er búin með þann kafla!

Við gerðum svipað í Vulnicuru-ferðinni; vorum alveg í mánuð fyrir ári í Mexíkóborg, spiluðum í Hörpu þeirra Mexíkóbúa, bara með strengjasveit, og vorum með VR-sýningu í ljósmyndasafninu þar, gömlu myndböndin mín voru sýnd í bíói, og svo spilaði ég á festivali úti í regnskóginum, með MIA, Arca og fleirum. Maður tók þá allan skalann í mánuð í einni borg og fór svo heim í tvo mánuði.“

Afar takmarkað magn miða er í boði á tónleika Bjarkar í Háskólabíói 12. apríl og hefst miðasala kl. 12 á morgun, föstudag, á vefnum tix.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant