Vill meiri peninga frá Britney Spears

Britney Spears borgar sínum fyrrverandi háar upphæðir.
Britney Spears borgar sínum fyrrverandi háar upphæðir. AFP

Eftir að söngkonan Britney Spears skildi við barnsföður sinn, dansarann Kevin Federline, árið 2007 náði hún ferli sínum og einkalífinu á strik aftur. Spears og Federline eiga tvo syni saman og er hann nú sagður krefjast hærri upphæða frá söngkonunni. 

TMZ greinir frá því að Federline hafi haft samband við föður Spears fyrir helgi og beðið um að greiðslur til hans yrðu hækkaðar, 20 þúsund dollarar á mánuði eða tvær milljónir íslenskra króna væri ekki nóg. 

Þurfti hann hærri upphæð til þess að sjá fyrir strákunum þeirra á sama hátt og söngkonan gerir, en strákarnir eru 11 og 12 ára. Faðir Spears sagði hins vegar að söngkonan hugsaði um börnin ein og hún hafði alltaf gert þrátt fyrir mikla velgengni að undanförnu. 

Spears hefur þénað meira en fyrrverandi eiginmaður hennar í gegnum árin og hefur því þurft að borga honum töluvert í gegnum árin. Hún borgaði honum til að mynda 130 milljónir eftir skilnaðinn auk þess sem hún borgar með börnunum þeirra. 

mbl.is