Óþekkar stjúpmömmur og rosknir teknóhundar

Karl Hyde er enn í fullu fjöri.
Karl Hyde er enn í fullu fjöri. Ljósmynd/Ásgeir Helgi

Það gekk mikið á í Hörpu um helgina þar sem tónlistarhátíðin Sónar fór fram í sjötta skipti. Reynsluboltar úr teknóheiminum fóru á kostum í bland við yngri og óþekktari nöfn. Já, og óþekkari. 

Skipuleggjendur Sónar hátíðarinnar hafa í gegnum tíðina þurft að aðlaga hátíðina að eftirspurn og aðstæðum hér á landi. Hátíðin í ár var styttri en undanfarin ár. Tvö kvöld með dagskrá í fjórum rýmum: Silfurbergi, Kaldalóni og Norðurljósasal auk bílakjallarans. Eflaust er að það fín lending að láta tvö kvöld duga og mögulega hentar það erlendum gestum betur en mín tilfinning var að þeir væru fleiri í ár en oft áður.

Hinsvegar má alveg gera athugasemdir við það að rukka 20 þúsund krónur fyrir kvöldin tvö og það er eitthvað sem maður hefur heyrt á fólki að hafi fælt það frá því að mæta. Annað skipulagsatriði sem má setja út á er að selja bara bjórmiða sem ekki er hægt að fá endurgreidda ef eitthvað kemur upp á og ekki er hægt að kaupa sér einn bjór, bara þrjá hið minnsta.

Föstudagskvöldið

Föstudagskvöldið fór rólega af stað ég var mættur frekar snemma og það virtist vera sem að margir væru að spara sig fyrir nóttina því dagskráin stóð ansi langt fram á nótt. Silfurberg var því tómlegt þegar Blissful stigu á svið í fyrsta skipti í þessari mynd. Svala og Einar geta samið fyrsta flokks popplög og þau nutu sín vel á stóra sviðinu og flutningurinn var óaðfinnanlegur. Líklega væri auðveldari leiðin fyrir þau að keyra bara á eurovisionsmellinum Paper og því virðingarvert að sjá þau fara aðrar leiðir.

Cyber braut upp stemninguna á Sónar.
Cyber braut upp stemninguna á Sónar. Ljósmynd/Ásgeir Helgi


Í Kaldalóni var raftónlistarkonan Silvia Kastel búin að stilla sér upp. Hún hefur vakið þó nokkra eftirtekt en ég var ekki að tengja við tónlistina sem virkaði full einföld. Aftur í Silfurberg. Þar var Cyber komin á svið. Ég hef aldrei séð þetta band áður sem samanstendur af 4 stelpum sem rappa og syngja ofan á takta. Þær settu upp mjög skemmtilegt atriði þar sem þær notuðu leikmuni og voru klæddar í einhverjar furðulegar næntís dragtir sem settu kómískan svip á atriðið. Auk þess geta þær samið lög sem límast á heilann,
I’m your new stepmom“ er mjög grípandi en líka ólíkt flestu öðru sem maður heyrir. Í lokin komu svo meðlimir Hatara á sviðið með leðurólarnar sínar og héldu þrumuræðu sem sjálfur Hitler væri líklega stoltur af. Frábærir tónleikar og ekkert skrýtið að búið sé að bóka stelpurnar á 25 ára afmælishátíð Sónar í Barcelona í sumar. Það er mjög góð þróun ef íslenskir flytjendur eiga greiðari leið þangað vegna íslensku útgáfunnar af hátíðinni.

Þegar Vök fór á svið í Norðurljósasalnum var orðið fjölmennara í húsinu. Sveitin hefur vaxið vel í gegnum árin og Margrét söngkona hefur útgeislun sem heldur athygli fólks algerlega. Vel gert. Bad Gyal var eitt af stærstu númerum hátíðarinnar en hún var ekki að heilla mig. Lítil spænskukunnátta hefur þar kannski eitthvað að segja. Silfurberg var orðið troðfullt þegar Gus Gus byrjuðu og það var ennþá troðfullt þegar þeir kláruðu. Það segir manni oft ansi mikið um hvernig til tókst, engin þreytumerki á Bigga Veiru og Daníel Ágústi.

Hápunktur hátíðarinnar hjá nokkrum gestum var þó frekar óvæntur, þegar Björk gekk um sali Hörpu með höfuðskraut sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en mjög Bjarkarlegu og tók vel í beiðnir fólks um sjálfur með sér. Svipbrigðin á fólkinu eftir að hafa hitt goðsögnina hefðu ekki verið minna tilefni í stöðuuppfærslu.

Laugardagskvöldið

Fyrsta atriðið sem ég sá á laugardagskvöldinu var hinn stórskemmtilegi serpentwithfeet. R&B skotin framúrstefna, barbie-dúkka á sviðinu og frábær söngvari sem hvatti fólk eindregið til að dansa á meðan það grætur. Vonandi segir þetta einhverjum eitthvað, en allavega eftirminnilegir tónleikar. „Er einhver hér sem hefur farið á hestbak?“ spurði Elli Grill salinn. Jú, einhver hafði farið hestbak sem er náttúrulega tómt rugl og stórhættulegt að mati Ella sem grillaði í salnum af töluverðri færni en ég get ekki sagt að tónlistin hafi skilið mikið eftir sig.  

Sviðsmyndin hjá Ben Frost var vel heppnuð.
Sviðsmyndin hjá Ben Frost var vel heppnuð. Ljósmynd/Ívar Eyþórsson


Ben Frost var í Silfurbergi ásamt samverkamanni. Seiðurinn sem þeir brugguðu var virkilega flottur, þung undiralda og einhver galdur í gangi. Sviðið var sérstaklega flott þar sem búið var að strengja plasttjald yfir sviðið og svo var myndum varpað á tjald fyrir aftan. Þetta er alltaf stór hluti af Sónar-upplifuninni og í ár voru margar mjög flottar útfærslur á ljósum og myndrænu efni. Því miður var Hildur Guðna á sama tíma í Kaldalóni og þegar ég kom þangað var hún eiginlega búin, frekar svekkjandi.

Maður vissi lítið við hverju var að búast af Underworld sem var stofnuð árið 1980 en var upp á sitt besta um miðjan tíunda áratuginn. Einhver hnýtti í aldur meðlima tvíeykisins í aðdraganda hátíðarinnar. En það er lítil innistæða fyrir þeirri gagnrýni, Karl Hyde söngvari er jú fæddur árið 1957 en það er ekki að merkja þreytu hjá honum. Fólk sem fæddist árið 1994 þegar dubnobasswithmyheadman kom út gæti flest verið stolt af mjaðmahreyfingum á borð við þær sem Hyde bauð upp á. Það er líka áhugavert að sjá fólk í þessum geira tónlistarinnar eldast. Gamlir teknóhundar eru aðeins öðruvísi en gamlir rokkhundar. Þess utan voru tónleikarnir líka frábærir með leysigeislum og öllu tilheyrandi. Hápunktarnir voru náttúrlega þegar lögin af fyrrnefndri plötu voru spiluð og aldrei hef ég fundið gólfið í Silfurbergi dúa jafnmikið og á laugardaginn.

Að seinka hátíðinni gekk vel og næsta hátíð er auglýst enn seinna á árinu, í apríl 2019 - nú ættu tónlistarunnendur að vera forsjálir og kaupa miða strax á mun hagstæðara verði. Því það hefðu alveg mátt vera fleiri Íslendingar á hátíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler