Katrín sendi Harry á blind stefnumót

Katrín hertogaynja lagði sitt af mörkum í ástarleit Harry.
Katrín hertogaynja lagði sitt af mörkum í ástarleit Harry. Samsett mynd

Harry Bretaprins fann loksins konuna sem hann vildi giftast en hann gengur í hjónaband með Meghan Markle í maí. Leitin að hinu konunglega kvonfangi var þó ekki auðveld og voru margir sem vildu hjálpa, meðal annars Katrín hertogaynja sem kom honum á blind stefnumót. 

E! greinir frá því að Katie Nicholl fjalli um það í nýrri bók sinni um Harry hvernig Katrín hertogaynja, mágkona Harry, og Eugenie prinsessa, frænka Harry, sendu hann á blind stefnumót. 

Harry sem þótti mikill glaumgosi gaf blindu stefnumótunum séns eftir að sambönd hans við Chelsy Davy og Cressidu Bonas gengu ekki upp. Hann átti líka í stuttum samböndum við  hina bandarísku Juliette Labelle og bresku leikkonuna Jennu Coleman.  

Ekkert virtist ganga hjá Harry enda gat hann ekki beint skráð sig á Tinder eða stefnumótasíður. Enn erfiðara var svo að finna einhverja sem hann gat tengt við og virtist það vera honum nánast ómögulegt þangað til hann hitti Meghan. 

Meghan hitti hann líka á blindu stefnumóti en þar var þó ekki Katrín að verki heldur Violet von Westenholz, dóttir vinar Karls Bretaprins, sem kom þeim saman. Í trúlofunarviðtalinu viðurkenndi Harry að hann hefði aldrei heyrt um Meghan áður en hann hitti hana. 

Harry fann loksins ástina þegar hann kynntist Meghan Markle.
Harry fann loksins ástina þegar hann kynntist Meghan Markle. AFP
mbl.is