Robert Smith bauð Kælunni Miklu að spila á Meltdown Festival

Kælan Mikla eru þær Sólveig Matthildur Kristjánsdóttir, neðst á mynd, ...
Kælan Mikla eru þær Sólveig Matthildur Kristjánsdóttir, neðst á mynd, Laufey Soffía Þórsdóttir til vinstri og Margrét Rósa Dóru og Harrysdóttir til hægri.

„Við héldum að þetta væri bara eitthvað plat,“ segir Sólveig Matthildur Kristjánsdóttir ein af þremur meðlimum Kælunnar Miklu. Hljómsveitin myrka fékk tölvupóst frá Robert Smith, söngvara og lagahöfundur The Cure um að hann hafi valið þær til að spila á tónleikahátið í Bretlandi sem nefnist Meltdown Festival og er haldin í Southbank Centre í London 15-24 júní næstkomandi. 

„Við fengum email frá bókara Meltdown festival með pdf skjali sem var bréf frá Robert smith. Bréfið var persónulegt og undirritað frá honum. Þetta var boð um að Kælan mikla myndi spila á tónlistarhátiðinni, en hann er listrænn stjórnandi hennar í ár, “ útskýrir Sólveig. 

Allar aðdáendur The Cure

„Ég veit ekki hvenig hann fann okkur, en ég las þetta og hélt að þetta væri plat email. Mjög fyndið í rauninni. Ég sendi þetta á bókarann okkar og hann sagði að þetta væri ekki scam. Ég er ennþá í losti yfir þessu því að við stelpurnar erum allar með mismunandi tónlistarsmekk, en The Cure er hljómsveit sem hefur haft mikil áhrif á okkur allar! Platan Faith er ein af mínum uppáhaldsplötum allra tíma,“ segir hún. 

Robert Smith er heimsþekktur sem söngvari, lagasmiður og gítarleikari bresku rokksveitarinnar The Cure sem var stofnuð seint á áttunda áratugnum og hefur gefið frá sér fjölmargar plötur. 

Spila á Roadburn Festival í Apríl

Kælan mikla hefur vakið athygli innanlands sem utan fyrir syntha-pönk skotna óttubylgjutónlist og var plata þeirra meðal annars valin ein af plötum ársins 2016 á Kraumslistanum. Undanfarið ár hafa þær verið á tónleikaferðalögum um Evrópu, meðal annars á Roadburn Festival í Hollandi og eru svo að fara á tónleikaferðalag um Suður Ameríku síðar í ár. Þær eru einnig að vinna að útgáfu nýrrar plötu. 

Hita upp fyrir Placebo

Kælan mikla samþykkti að sjálfsögðu boðið og mun hita upp fyrir hljómsveitina Placebo á tónlistarhátíðinni. Meðal annarra sveita sem spila á Meltdown Festival eru My Bloody Valentine, Nine Inch Nails, Loop, The KVB, The Soft Moon, Moon Duo, Suzanne Vega, Low, Death Cab for Cutie, Manic Street Preachers og Mogwai. Einnig mun rafsveit Ólafs Arnalds og Janusar Rasmunssen, Kiasmos stíga á svið og Jónsi & Alex Somers & Paul Conley. 

Miðar á hátíðina fara á sölu þann 13 apríl og má nálgast frekari upplýsingar HÉR. mbl.is