„Kona fer í stríð“ til Cannes

Halldóra Geirharðsdóttir er í aðalhlutverki.
Halldóra Geirharðsdóttir er í aðalhlutverki. Ljósmynd/Aðsend

Kona fer í stríð, kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Benedikts Erlingssonar, hefur verið valin til þátttöku á Critics‘ Week, einni af hliðardagskrám hinnar virtu Cannes kvikmyndahátíðar, þar sem sem hún verður heimsfrumsýnd. 

Í tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands kemur fram að um mikinn heiður sé að ræða, enda Cannes hátíðin ein sú stærsta í heiminum. Hliðardagskráin, Critics’ Week mun fara fram frá 9. – 17. maí, samhliða hátíðinni.

Kona fer í stríð segir frá kórstjóra á fimmtugsaldri sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn allri stóriðju í landinu. Hún gerist skemmdarverkamaður og er tilbúin til að fórna öllu fyrir móður jörð og hálendi Íslands, þar til munaðarlaus stúlka stígur inn í líf hennar og þá fer hún að hugsa hvort hún eigi að bjarga einu barni eða bjarga heiminum.

Benedikt Erlingsson.
Benedikt Erlingsson. Ljósmynd/Aðsend

Benedikt leikstýrir myndinni og skrifar handrit ásamt Ólafi Egilssyni. Í aðalhlutverki er Halldóra Geirharðsdóttir og í öðrum hlutverkum eru Davíð Þór Jónsson, Magnús Tryggvason Eliassen, Ómar Guðjónsson og Jóhann Sigurðsson. 

Myndin, sem er íslensk/frönsk/úkraínsk samframleiðsla, er framleidd af Marianne Slot, Benedikt Erlingssyni og Carine Leblanc og meðframleidd af Serge Lavrenyuk, Bergsteini Björgúlfssyni og Birgittu Björnsdóttur. Bergsteinn Björgúlfsson sér um stjórn kvikmyndatöku, Davíð Alexander Corno klippir myndina og Davíð Þór Jónsson semur tónlist myndarinnar.

mbl.is