Sænski plötusnúðurinn Avicii látinn

Avicii á tónleikum árið 2015.
Avicii á tónleikum árið 2015. AFP

Sænski plötusnúðurinn Avicii er látinn, 28 ára gamall.

Avicii, sem hét réttu nafni Tim Bergling, fannst látinn í Múskat, höfuðborg Óman.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fulltrúa hans. Ekki kemur fram hvernig hann lést.

Avicii þótti einn fremsti plötusnúður heims og átti sinn þátt í uppgangi danstónlistar í heiminum.

Tvö ár eru liðin síðan Avicii ákvað að hætta að koma fram á tónleikum.

Avicii greindi opinberlega frá heilsufarsvandamálum sínum. Meðal annars tengdust þau briskirtilsbólgu sem orsakaðist að hluta til af óhóflegri áfengisneyslu.

Af þessum sökum þurfti hann af aflýsa tónleikum árið 2014 þegar bæði gallblaðra hans og botnlangi voru fjarlægð.

„Með sorg í hjarta tilkynnum við andlát Tim Bergling, einnig þekkts sem Avicii,“ sagði í yfirýsingu frá umboðsskrifstofu hans.

„Fjölskyldan er eyðilögð og við biðjum alla um að virða þörf hennar fyrir að syrgja í næði á þessum erfiða tíma. Engar frekari yfirlýsingar verða gefnar.“

Avicii vakti mikla at­hygli með fyrstu plötu sinni, True, sem kom út árið 2013. Þar var að finna lög á borð við Wake Me Up og Hey Brot­her sem voru mikið spiluð á út­varps­stöðvum hér­lend­is. Árið 2014 vann hann til Bill­bo­ard-verðlaun­anna með lag­inu Wake Me Up þegar það var valið besta út­varps­lagið og besta Dance/​Electro-lag árs­ins.

mbl.is

Bloggað um fréttina