Svíaprins og Madonna minnast Avicii

Avicii starfaði með mörgum af þekktustu tónlistarmönnum heims, meðal annars ...
Avicii starfaði með mörgum af þekktustu tónlistarmönnum heims, meðal annars Madonnu. Ljósmynd/Instagram

Fregnir af láti eins fremsta plötusnúðs heims, hins sænska Aviciis, hafa vakið miklar tilfinningar meðal aðdáenda hans víða um heim.

Avicii, sem hét réttu nafni Tim Berg­ling, var einungis 28 ára gamall. Hann fannst lát­inn í Múskat, höfuðborg Ómans. Ekki hefur verið greint frá dánarorsök.

Fólk úr ýmsum áttum hefur minnst Aviciis á samfélagsmiðlum í kvöld, allt frá samferðafólki hans úr tónlistarbransanum til sænsku konungsfjölskyldunnar.

So Sad....... So Tragic. Good Bye Dear Sweet Tim. 💙 Gone too Soon. #avicii

A post shared by Madonna (@madonna) on Apr 20, 2018 at 12:11pm PDT

„Svo sorglegt. Svo átakanlegt. Vertu sæll elsku ljúfi Tim. Farinn of fljótt.“ Þessi orð lætur Madonna falla á instagramsíðu sinni. Söngkonan réð Avicii sem upptökustjóra á síðustu breiðskífu sinni.

„Okkur hlotnaðist sá heiður að þekkja hann og dást að honum, bæði sem listamanni og sem þeirri fallegu manneskju sem hann var,“ segir í tilkynningu frá Karli Filip Svíaprinsi og Sofiu eiginkonu hans.

David Guetta, sem er líklega eitt stærsta nafnið í heimi plötusnúða, minntist Aviciis á twittersíðu sinni, en þeir höfðu unnið saman með góðum árangri. „Við misstum vin með fallegt hjarta og heimurinn missti ótrúlega hæfileikaríkan tónlistarmann. Takk fyrir allar fallegu melódíurnar þínar, allar stundirnar sem við áttum saman í hljóðverinu, sem plötusnúðar eða bara sem vinir að njóta lífsins,“ skrifar Guetta.

Annar þekktur plötusnúður, og sá tekjuhæsti í heiminum, Calvin Harris, minnist Aviciis einnig á Twitter. „Falleg sál, ástríðufullur og ótrúlega hæfileikaríkur sem átti svo margt eftir ógert.“

mbl.is