Ópera fyrir alla

„Reksturinn gengur mjög vel og við erum að fá meðbyr …
„Reksturinn gengur mjög vel og við erum að fá meðbyr sem er ómetanlegur, bæði listrænt og fjárhagslega, þannig að ég er mjög bjartsýn á framhaldið,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri Íslensku óperunnar. mbl.is/RAX

„Frá því ég tók við þessu starfi hef ég látið mig dreyma um að auka framboð Íslensku óperunnar á óperusýningum fyrir fólk sem ekki sækir óperusýningar að öllu jöfnu og fjölga þannig óperuunnendum framtíðarinnar,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri Íslensku óperunnar, og vísar þar til sýningaraðar sem hlotið hefur nafnið „Ópera fyrir alla“ og hefur göngu sína næsta vetur.

Fyrsta uppfærsla nýju raðarinnar er ævintýraóperan Hans og Gréta eftir Engelbert Humperdinck sem frumsýnd verður 25. nóvember í Norðurljósum Hörpu og sýnd fram í desember eftir því sem aðsókn leyfir. Sýningin er ætluð börnum frá sex ára aldri og upp úr ásamt fjölskyldum þeirra. „Þetta er ótrúlega fallegt og áhrifaríkt verk, auk þess sem mér fannst viðeigandi að byrja röðina með ævintýri en það er ekki útilokað að við látum í framhaldinu semja fyrir okkur verk sem henta yngri áhorfendum. Í Hans og Grétu er farið með áhorfendur í ferðalag í gegnum heila óperu á styttri tíma en vanalega, án þess að nokkuð sé slegið af í listrænum gæðum. Hans og Gréta hljómar eins og verk sem Wagner hefði getað samið á sínum yngri árum, enda einstaklega vel skrifað verk og hrífandi. Rómantíkin í tónlistinni, sem er stórbrotin, hæfir efniviðnum mjög vel. Óneitanlega krefjast ævintýri Grimmsbræðra þess oft að maður manni sig upp og því höfum við lýst verkinu sem óperu fyrir hugrakka,“ segir Steinunn Birna og vísar þar til þess að systkinin Hans og Gréta lenda í klónum á vondu norninni og tekst við illan leik að komast undan henni.

Börn eru opin og hrifnæm

„Það gefur augaleið að óperan lifir ekki af nema eignast stöðugt nýja aðdáendur. Börn eru opin og hrifnæm og því lifir listupplifun með þeim alla ævi sem auðveldar þeim að koma að listforminu þegar þau eru orðin eldri,“ segir Steinunn Birna og rifjar upp að óperunni hafi lengi verið spáð andláti. „En ég hef enga trú á því að sú spá rætist, vegna þess að óperan er tungumál tilfinninganna og þær verða lifandi og jafnmikilvægar svo lengi sem manneskjan verður til,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að það sem heilli ekki hvað síst við óperuna sé að hún sameinar allar listgreinar.

Bjarni Frímann Bjarnason, tónlistarstjóri Íslensku óperunnar, er aðeins 28 ára …
Bjarni Frímann Bjarnason, tónlistarstjóri Íslensku óperunnar, er aðeins 28 ára gamall og mun vera einn allra yngsti óperutónlistarstjóri í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Hann mun stjórna bæði Hans og Grétu og La Traviata á komandi starfsári.

„Áhersla er lögð á skemmtilega og lifandi sviðsetningu með ungum listamönnum,“ segir Steinunn Birna og bendir á að Bjarni Frímann Bjarnason annist tónlistarstjórn, en hann er aðeins 28 ára gamall og mun vera einn allra yngsti óperutónlistarstjóri í Evrópu og þótt víðar væri leitað. „Listræna teymið er draumateymið, því þetta eru ótrúlega færar konur,“ segir Steinunn Birna og vísar þar til Þórunnar Sigþórsdóttur sem leikstýrir, Evu Signýjar Berger sem hannaði leikmynd og Maríu Th. Ólafsdóttur sem hannar búninga, en lýsingu hannar Jóhann Friðrik Ágústsson, sem er að vinna með Íslensku óperunni í fyrsta sinn.

„Þórunn er menntuð bæði í söng og óperuleikstjórn og hefur unnið úti í Belgíu með færum leikstjórum. Það er mjög gaman að fá hana til leiks. Mér finnst skipta miklu máli að gefa ungu fólki verðug tækifæri,“ segir Steinunn Birna og bendir á að í hópi söngvara séu ungar og upprennandi söngkonur sem eru að klára nám sitt erlendis. Í hlutverkum Hans og Grétu eru Arnheiður Eiríksdóttir og Jóna Kolbrúnardóttir, foreldra þeirra leika Hildigunnur Einarsdóttir og Oddur Arnþór Jónsson, nornina túlkar Dóra Steinunn Ármannsdóttir og hlutverk Óla Lokbrár syngur Kristín Mantyla. Auk þess kemur barnakór Graduale Nobile kemur fram í uppfærslunni svo mörg börn verða meðal flytjenda.

Hugsa þarf út fyrir boxið

„Okkur fannst svo heillandi hugmynd að áhorfendur gengju inn í ævintýrið um leið og þeir kæmu inn í salinn,“ segir Steinunn Birna og bendir á að það krefjist skapandi lausna að sviðsetja óperur í Hörpu í ljósi þess að enginn salanna hafi verið hannaður sem leikhús. „Við þurfum því að búa til leikhúsið alveg frá grunni í hvert skipti sem við setjum upp, sem auðvitað eykur flækjustigið og kostnaðinn, en hvetur jafnframt til skapandi lausna þar sem hugsa þarf út fyrir boxið. En vissulega söknum við þess að geta ekki haft senuskipti í miðri sýningu, notast við hringsvið eða flugbúnað. Á móti kemur að við erum alltaf að verða betri í því að búa til leikhús í Eldborg,“ segir Steinunn Birna og bendir á að stjörnudómar í erlendum óperutímaritum og íslenskum fjölmiðlum um m.a. Toscu og Évgení Onegin séu til merkis um það.

Seinni frumsýning Íslensku óperunnar á komandi starfsári er La Traviata eftir Giuseppi Verdi 9. mars 2019 í Eldborg Hörpu. „Við fórum í heilmikla stefnumótunarvinnu eftir að ég tók við, sem sett var á blað í fyrra. Markmið okkar er að setja upp eina stóra uppfærslu í Eldborg á ári, hvort sem hún er að vori eða hausti, og á móti komi minni uppfærslur, hvort sem þær eru í Hörpu eða annars staðar, og að starfsemin sé færanlegri og fjölbreyttari,“ segir Steinunn Birna og nefnir sem dæmi að liður í því að gera Íslensku óperuna hreyfanlegri sé að sýna utan höfuðborgarsvæðisins, en 10. maí verður Mannsröddin eftir Francis Poulenc, sem Íslenska óperan frumsýndi í Hörpu fyrir rúmu ári, sýnd í Vestmannaeyjum og er nemendum framhaldsskólans og efstu bekkjum grunnskólans boðið á aðalæfinguna.

Hræðileg örlög kvenhetja

La Traviata er hin fullkomna ópera. Það ber öllum saman um það að það er varla til fallegri eða áhrifaríkari ópera í óperutónbókmenntunum. Það var því mjög ofarlega á mínum lista að fá tækifæri til að setja hana upp,“ segir Steinunn Birna þegar hún er spurð hvers vegna La Traviata hafi orðið fyrir valinu. Um áratugur er liðinn síðan Íslenska óperan setti síðast upp La Traviata sem var þá þriðja uppfærsla verksins í Gamla bíói, en fyrri sýningar voru 1995 og 1983. „Þessi ópera er svo mikil dásemd á allan hátt og ekki er hægt að standast það að setja hana upp. Þetta er ein af þeim óperum sem passa einstaklega vel inn í Eldborg, bæði tónlistin og sviðsetningin. Þetta var því eiginlega óhjákvæmilegt,“ segir Steinunn Birna sem búin er að ráða listræna stjórnendur uppfærslunnar.

„Leikstjóri verður Oriol Tomas, sem er Kanadamaður sem unnið hefur mikið í Frakklandi, en uppfærslan er unnin í samvinnu við Opera de Massy í Frakklandi. Líkt og í Toscu kemur leikstjórinn með sitt listræna teymi hvað snýr að útliti uppfærslunnar, en leikmyndina hannar Simon Guibault og búninga Félix Fradet-Faquy. Hljómsveitarstjóri er síðan Bjarni Frímann, tónlistarstjóri Íslensku óperunnar, og ljósahönnuðurinn verður líka íslenskur. Tomas þykir einn áhugaverðasti leikstjóri yngri kynslóðarinnar. Hann skapar einstaklega fallegar og áhrifaríkar uppfærslur, enda hefur hann hlotið ýmis verðlaun fyrir sýningar sínar. Hann hefur sýnt það hversu gott jafnvægi hann hefur á því að gera spennandi hluti samtímis því að halda í hefðina, þannig að verkin njóti sín og séu samtímis áhugaverð. Við höfum átt í í löngu samtali og erum búin að móta mjög spennandi konsept fyrir uppfærsluna,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að verkið verði fært eitthvað fram í tímann, en þó ekki til nútímans, því uppfærslan verður frekar hefðbundin.

„Sagan er byggð á skáldsögunni Kamelíufrúin eftir Alexander Dumas sem fjallar um Marie Duplessis sem var fræg fylgdarkona í París um miðja 19. öld. Að hluta til er þetta sjálfsævisögulegt þar sem saga Alfredo Germont, elskhuga Víolettu Valéry, er byggð á hans eigin ævi, en Dumas bjó með Marie Duplessis fyrir utan París 1845, en hún dó aðeins 23 ára úr berklum,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að það sé ekki einleikið hversu margar kvenhetjur óperutónbókmenntanna mæti hræðilegum örlögum og dauðdaga.

„Óperan spannar allan skala mannlegra tilfinninga og þenur þær til hins ýtrasta. La Traviata fjallar um lystisemdir lífsins, þrána eftir ódauðleikanum og forboðna ást. Hún er einnig lofsöngur til gleðinnar og þess góða í manneskjunni, samhygðar og heilinda sem eru óháð samfélagsstöðu hvers og eins,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að óskin um ódauðleikann verði leiðarstefið í komandi uppfærslu.

65 mættu í opinn prufusöng

Spurð hvort búið sé að skipa í hlutverk segir Steinunn Birna það í vinnslu. „Til að vera trú hlutverki Íslensku óperunnar, sem var stofnuð til að vera vettvangur fyrir íslenska söngvara að sinna list sinni auk þess sem erlendum listamönnum er boðið að koma fram, legg ég alltaf áherslu á að íslenskir söngvarar séu í miklum meirihluta. Það er samt mjög gaman að kynna til leiks stjörnur eins Andrey Zhilikhovsky frá Bolshoj-leikhúsið í Moskvu sem söng Évgení Onegin og Claire Rutter frá Covent Garden sem söng Toscu. Ég geri mér þó vonir um að öll hlutverkin í La Traviata verði skipuð íslenskum söngvurum,“ segir Steinunn Birna og rifjar upp að 65 söngvarar hafi mætt í opinn prufusöng fyrir stuttu.

Kristján Jóhannsson og Claire Rutter í hlutverkum sínum í Toscu …
Kristján Jóhannsson og Claire Rutter í hlutverkum sínum í Toscu sem fékk glimrandi dóma bæði hér - og erlendis. Ljósmynd/Jóhanna Ólafsdóttir

„Því lengur sem ég er í þessu starfi því meiri virðingu ber ég fyrir söngvurum sem leggja gríðarlega mikið á sig og ferðast langar leiðir til að syngja. Ef ég ætti að gefa ungum söngvurum gott ráð þá er það að taka höfnun ekki persónulega, heldur sem áskorun til að gera betur og gefast ekki upp sé köllunin til staðar,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að margir þættir þurfi að spila saman þegar valið er í hlutverk og því geti þurft að hafna góðum söngvurum vegna þess að samspil radda eða heildarmyndin verði að vera í jafnvægi.

Langtímahugsun lykilatriði

Steinunn Birna var ráðin óperustjóri árið 2015 til fjögurra ára og er því núna að kynna þriðja starfsár sitt. Aðspurð segist hún þegar farin að leiða hugann að þarnæsta starfsári. „Ég er langt komin í þeirri vinnu. Árið 2016 var ég, ásamt 12 listrænum stjórnendum víðs vegar að úr heiminum, valin úr hópi 450 listrænna stjórnenda til að taka þátt í verkefninu The DeVos Institute of Arts Management í Washington til þriggja ára sem hefur nýst mér mjög vel í starfi. Prógrammið veitir stjórnendum listastofnana tækifæri til að vinna yfir lengri tíma að því að móta starfsemi fyrir þær stofnanir sem þeir stjórna og hámarka árangur bæði með tilliti til reksturs og listrænna þátta ásamt markaðssetningu. Langtímahugsun er lykilatriði þegar kemur að velgengni listastofnana,“ segir Steinunn Birna og rifjar upp að hún hafi frá því hún tók við starfi óperustjóra haft langtímahugsun að leiðarljósi.

„Langtímahugsun er lykilatriði þegar kemur að velgengni listastofnana,“ segir Steinunn …
„Langtímahugsun er lykilatriði þegar kemur að velgengni listastofnana,“ segir Steinunn Birna óperustjóri Íslensku óperunnar. Hér fagna Bjarni Frímann Bjarnason hljómsveitarstjóri og einsöngvarar Toscu að frumsýningu lokinni sem féll í góðan jarðveg.

„Það gerir allan rekstur auðveldari og listrænu útkomuna líklegri til árangurs. Þú færð frekar listafólkið sem þú vilt fá til samstarfs ef þú hefur skýra langtímahugsun. Mitt stóra verkefni sem óperustjóri er ekki aðeins að velja rétta fólkið til starfa heldur leyfa því að láta ljós sitt skína sem er grundvöllurinn fyrir velgengni. Ég er gríðarlega þakklát fyrir viðtökurnar á síðustu misserum sem veitt hafa okkur byr í seglin.

Það versta sem gerist þegar rekstur gengur illa er ef það hægist á sköpunarhjólinu því þar liggja verðmætin. Tekjurnar eru afleiðing af því að þetta sköpunarhjól snúist sem hraðast. Það sem ég hef verið að reyna að gera er að koma sköpunarhjólinu á meiri hraða og það er að ganga eftir. Reksturinn gengur mjög vel og við erum að fá meðbyr sem er ómetanlegur, bæði listrænt og fjárhagslega, þannig að ég er mjög bjartsýn á framhaldið,“ segir Steinunn Birna og rifjar í því samhengi upp að nýverið hafi Kvika gerst bakhjarl Íslensku óperunnar. „Sá stuðningur er okkur afar mikils virði og mun efla menningarstarf okkar enn frekar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson