„Ég veit að hann verður stórstjarna“

„Það er svo mikill kærleikur í þessum hóp,“ segir Þórunn …
„Það er svo mikill kærleikur í þessum hóp,“ segir Þórunn Erna Clausen, lagahöfundur Our Choice sem Ari Ólafsson flutti í Eurovision í kvöld. Ljósmynd/Andres Putting

Þórunn Erna Clausen, höfundur framlags Íslands í Eurovision í ár og bakraddasöngkona Ara Ólafssonar, segir að það hafi verið yndislegt að standa á sviðinu í Lissabon í kvöld og flytja lagið Our Choice í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

„Það var yndislegt að sjá öll ljósin í salnum, finna stuðninginn og sjá alla syngja með. Þetta var dásamleg upplifun. Ég held að kærleikurinn hafi náð fólki saman í kvöld, sama hvaða lög komust áfram,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is.

Íslendingar þurftu að bíta í það súra epli, fjórða árið í röð, að komast ekki upp úr undanriðli Eurovision. „Það er erfitt að dæma tónlist en það var ansi mikið af góðum lögum og mikið af nánum vinum okkar í keppninni þannig við erum mjög glöð fyrir þeirra hönd,“ segir Þórunn.

Blaðamanni mbl.is tókst ekki að ná í skottið á Ara en Þórunn segir að hann sé mjög glaður og ánægður með frammistöðuna. „Hann stóð sig frábærlega, hann er náttúrulega algjör snillingur þessi drengur og söng sig inn í hjörtu margra. Ég er sjúklega stolt af honum og í öllu þessu ferli hefur hann sýnt hversu mikil stjarna hann er. Ég veit að hann verður stórstjarna þessi drengur, hann er orðinn það nú þegar,“ segir Þórunn.

Þá segir hún að Ari sé frábær fyrirmynd fyrir alla þá sem vilja sýna tilfinningar sínar. „Ari er fyrirmynd fyrir allar sálir að sýna tilfinningar. Hann fór að gráta í miðju lagi í kvöld, að sjá ljósin í salnum og finna stuðninginn, það er þetta sem þetta snýst um; að vera óhræddur við að sýna tilfinningar og vera óhræddur við að vera sá sem maður er. Við erum svolítið þannig þessi hópur.“

Það var kátt í Eurovision-höllinni í Lissabon í kvöld.
Það var kátt í Eurovision-höllinni í Lissabon í kvöld. Ljósmynd/Andres Putting

Vonar að Íslendingar séu stoltir

Spurð um hvort hópurinn sé nú í spennufalli eftir langar og strangar æfingar segir Þórunn að svo sé ekki. „Nei, nei, við vorum með væntingastjórnun í lágmarki. Það er skrýtið að keppa í tónlist, en við erum svakalega kát með þetta, það er svo mikill kærleikur í þessum hóp. Ég gæti ekki verið sáttari með kvöldið og vona að Íslendingar séu stoltir af okkur líka.“

Eurovison-ævintýrinu er hvergi nærri lokið og það er nóg fram undan hjá íslenska hópnum.  „Það er búið að bjóða okkur að syngja víða, okkur hefur verið vel tekið og við erum að fara að syngja okkar Eurovision-syrpu og okkar lag á tveimur stöðum á morgun fyrir framan 2000 manns,“ segir Þórunn.

Sterk vinasambönd hafa myndast milli íslenska hópsins og annarra keppenda og segist Þórunn vera sannfærð um að þátttaka Ara í Eurovision sé upphafið af farsælu samstarfi við önnur Evrópulönd. „Auðvitað snýst þetta um keppnina en þetta snýst líka um það að tónlistin er að sameina okkur öll og ég get í fullri meiningu sagt það því ég er búin að vera að ferðast með þessum keppendum í fimm vikur.“

Íslenski hópurinn söng af innlifun í kvöld.
Íslenski hópurinn söng af innlifun í kvöld. Ljósmynd/Andres Putting

Litháen í uppáhaldi

Þórunn mun að sjálfsögðu fylgjast áfram með keppninni og ætlar hún að styðja Litháen á laugardaginn, af mjög persónulegri ástæðu. „Það eru mismunandi skoðanir í hópnum að sjálfsögðu en ég játa það að Litháen fær mig til að gráta eftir svona fimm sekúndur, en það er eflaust vegna þess að ég er búin að missa ástina mína í lífinu.“ Eiginmaður Þórunnar, Sigurjón Brink, lést skyndilega af völdum heilablóðfalls árið 2011.

Finnland, Spánn, Danmörk og Írland eru einnig í miklu uppáhaldi hjá íslenska hópnum og er Þórunn sannfærð um að 12 stigin frá Íslandi fari til Danmerkur á laugardaginn. „Þeir eru bestu vinir okkar í keppninni. Þetta eru yndislegir strákar og við hvetjum þá áfram í keppninni.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitt og annað hefur rekið á fjörur þínar, sem fær þig til að efast um þá þú hefur treyst hingað til. Yfirboðarar þínir munu koma þér á óvart næstu vikur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitt og annað hefur rekið á fjörur þínar, sem fær þig til að efast um þá þú hefur treyst hingað til. Yfirboðarar þínir munu koma þér á óvart næstu vikur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant