Norskt veðbankahrun í Eurovision

Frá úrslitakvöldi innanlandskeppni Noregs í Oslo Spektrum-tónleikahöllinni 10. mars þegar …
Frá úrslitakvöldi innanlandskeppni Noregs í Oslo Spektrum-tónleikahöllinni 10. mars þegar Rybak stóð með pálmann í höndunum og var valinn til að leggjast öðru sinni í Eurovision-víking fyrir Noregs hönd. AFP

Ekki hefur blásið byrlega fyrir Hvít-Rússanum brosmilda, Alexander Rybak, síðan hann steig á svið í Lissabon á fimmtudagskvöldið á síðara undanúrslitakvöldi Eurovision 2018. Samkvæmt eigin veðbankasíðu keppninnar, Odds Eurovision Song Contest 2018, situr Rybak nú í 10. sæti með lag sitt That's How You Write a Song en fór hins vegar svo ofarlega sem upp í 2. sæti þegar veðbankasólin skein sem skærast á fimmtudaginn.

Norska blaðið Dagbladet fjallar ítarlega um málið auk þess að leggja sitt mat á hverjir verði skæðustu keppinautarnir í kvöld og ræðir þar við sinn mann Anders Grønneberg, blaðamann í menningardeild blaðsins.

„Veðbankarnir eru viðmið, þeir segja ekki til um hvernig keppnin muni fara, og lag Rybaks hefur aldrei verið sigurlag í mínum augum þótt honum hafi verið hampað rækilega,“ segir Grønneberg. „Auðvitað er það skemmtilegt ef hann vinnur en það eru fleiri kandídatar um hituna á toppnum,“ segir hann aukinheldur og bætir því við að frammistaða Rybaks á fimmtudaginn hafi verið eins og búast mátti við en viðbrögð við honum og laginu einkenndust kannski af of miklum væntingum.

„Reyndar ekki með neinn boðskap þannig séð“

Svíar, með Benjamin Ingrosso í broddi fylkingar sem flytur lagið Dance You Off, hafa hins vegar sótt í sig veðrið síðan á fimmtudaginn, þegar þeim var spáð 7. sætinu, og sitja nú í því 5. svo útkoman í kvöld gæti orðið sú að Svíar dönsuðu nágranna sína í vestri af sér eins og titill lagsins gefur til kynna.

Aðrar Norðurlandaþjóðir eru svo aftar á merinni eins og staðan er þegar þetta er skrifað, Saara Aalto frá Finnlandi í 14. sæti og víkingar Danaveldis, Jonas Flodager Rasmussen og félagar í því 17. Um toppsætið bítast Kýpur, Ísrael og Írland samkvæmt veðbankastöðunni nú og yrði sigur Írlands sá áttundi í Eurovision-sögu Íra yrði hann að raunveruleika.

Norska ríkisútvarpið NRK ráðfærir sig við tónlistargagnrýnanda dagblaðsins VG, Tor Martin Bøe, sem telur Svía og Frakka sigurstranglega. Bøe hampar Frökkum fyrir að leggja fram lag með boðskap, sem um leið sæki styrk í einfaldleika sinn, og hinum sænska Ingrosso fyrir góða uppbyggingu lagsins: „Hann er reyndar ekki með neinn boðskap þannig séð en uppbygging lagsins er góð og haldi hann dampi á sviðinu hugsa ég að Svíar eigi stórleik.“

Bøe slær þó einn varnagla þegar hann lítur til kvöldsins í heild sinni: „Þegar maður lítur á þessi 26 lönd er enginn augljós sigurvegari. Það er kannski klisja að segja þetta, en í kvöld getur allt gerst,“ segir tónlistarskrifari VG við ríkisútvarpið NRK.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant