Af hverju mætir pabbi Meghan ekki?

Harry Bretaprins og unnusta hans bandaríska leikkonan Meghan Markle ganga ...
Harry Bretaprins og unnusta hans bandaríska leikkonan Meghan Markle ganga upp að altarinu á laugardag. AFP

Það hefur ekki verið nein lognmolla í kringum brúðkaup Harry Bretaprins og Meghan Markle sem fram fer í kirkju heilags Georgs í Windsor á laugardaginn. Hafa fjölskyldumeðlimir gert Meghan lífið leitt en nú er faðir hennar hættur við að mæta. 

Ástæðan fyrir því að Thomas Markle segist ekki ætla mæta er ekki sú að hann tók þátt í sviðsettri myndatöku heldur heilsufar hans. Thomas segir í samtali við TMZ  að hann eigi að fara í aðgerð í dag, miðvikudag. Áður hafði verið greint frá því að Thomas hefði fengið hjartaáfall í síðustu viku og á mánudaginn byrjaði hann að finna fyrir verkjum. 

Eftir að Meghan sendi föður sínum skilaboð þar sem hún sagðist elska hann og hefði áhyggjur af heilsu hans vonaðist faðir hennar til þess að geta flogið til Englands en Thomas býr í Mexíkó. Vegna aðgerðarinnar segir hann það hins vegar útilokað. 

Thomas segir að orð sonar síns, Thomas Markle yngri, hafi átt þátt í því að hann fékk hjartaáfall í síðustu viku. Hálfbróðir Meghan skrifaði bréf til Harry þar sem hann hvatti hann til þess að hætta við að kvænast Meghan. 

mbl.is