Hvort heyrir þú „Yanny“ eða „Laurel“?

Hvort heyrir þú „Yanny“ eða „Laurel“?
Hvort heyrir þú „Yanny“ eða „Laurel“? skjáskot/Twitter

Reglulega dúkka um mál á netinu sem líkast kjólnum sem var annað hvort blár og svartur eða gylltur og hvítur. Nú skiptist fólk á skoðunum um hvort það heyrir orðin  „Yanny“ eða „Laurel“ í hljóðbroti sem hefur farið eins og eldur um sinu á internetinu. 

Samkvæmt Mashable fór hljóðbrotið á netið á sunnudaginn og síðan þá hefur fólk ekki getað náð saman um hvort það heyrir „Yanny“ eða „Laurel“. Orðin virðast nokkuð ólík en þrátt fyrir það eru sumir sannfærði um að þeir heyri „Yanny“, aðrir eru sannfærðir um að þeir heyri „Laurel“ og enn aðrir geta ekki ákveðið sig. 

Athugull netverji er með þá kenningu að ef hlustað sé á framburðinn lágt megi heyra „Yanny“ en ef hlustað er á framburðinn með góðum hátölurum megi heyra „Laurel“. Hann segir að líklegt sé að orðunum sé blandað saman en heili fólks ráði bara við eitt orð í einu. Einnig vill hann meina að eldra fólk sem heyri illa muni frekar heyra „Laurel“. 

Hvað heyrir þú?

mbl.is