Þurfum að láta hræða okkur

„Ævintýri er lykilorð. Mér finnst við ekki segja nógu mikið …
„Ævintýri er lykilorð. Mér finnst við ekki segja nógu mikið af ævintýrum. Mér finnst kvikmyndir sem gerðar eru í Norður-Evrópu oft vera um sársauka og eymd. Mér finnst ekki nógu mikið gert af ævintýramyndum.... Svo langaði mig að gera litríka og hlýja mynd. Orðið skemmtilegt er kannski ekki sexí, en mig langaði að skemmta áhorfendum á sama tíma og ég segði þeim mjög alvarlega sögu. Ég er sú týpa af sögumanni sem leiðist dramatískar sögur sem leika bara á einn streng. Ég hef mikla þörf fyrir að hleypa öðru hvoru inn trúðunum, eins og Shakespeare myndi hafa sagt. Það er svo falleg skilgreining á kómedíu og harmleik að eini munurinn þar á sé endirinn þar sem efnistökin eru að öðru leyti alveg eins,“ segir Benedikt Erlingsson leikstjóri um kvikmynd sína Kona fer í stríð. mbl.is/Eggert

„Þó ég hefði glaður viljað þá er þessi mynd ekki áróðursmynd. Myndin fjallar um stærri hluti og teflir saman andstæðum skoðunum. Ég neyðist til að taka Shakespeare mér til fyrirmyndar að þessu leyti, því maður verður að vera heiðarlegur gagnvart öllum sjónarmiðum og gefa áhorfendum færi á að skilja deiluaðila. Sjálfur myndi ég aldrei nenna að sjá áróðursmynd,“ segir leikstjórinn Benedikt Erlingsson um nýjustu kvikmynd sína, Kona fer í stríð, sem hann skrifaði í samvinnu við Ólaf Egil Egilsson.

Benedikt hefur síðustu daga verið staddur í Cannes til að kynna myndina, sem valin var til þátttöku í Critics‘ Week, einni af hliðardagskrám Kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, sem hófst 9. maí og lauk í gær, en Kona fer í stríð var heimsfrumsýnd ytra sl. laugardag og verður frumsýnd hérlendis 23. maí. Rúmur aldarfjórðungur er síðan íslensk kvikmynd í fullri lengd tók síðast þátt í Critics' Week, en það var Ingaló eftir Ásdísi Thoroddsen.

Í lokahófi hátíðarinnar í gærkvöldi hlutu Benedikt og Ólafur Egill SACD-verðlaunin fyrir handrit sitt. „Við erum hér heiðraðir af handritshöfundum og samtökum handritshöfunda í Frakklandi. Við erum alsælir með það er koma með verðlaun frá Cannes,“ sagði Benedikt í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. 

Kona fer í stríð er önnur kvikmynd Benedikts í fullri lengd á eftir Hross í oss, sem fór sigurför um heiminn eftir frumsýningu 2013. Myndin vann til um tuttugu alþjóðlegra verðlauna á kvikmyndahátíðum í San Sebastián á Spáni, Tókýó og í Eistlandi auk þess sem hún hlaut Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2014.

„Ég hef verið að reyna að lýsa Halldóru fyrir frönskum …
„Ég hef verið að reyna að lýsa Halldóru fyrir frönskum blaðamönnum og lýsi henni sem íslenskri Söruh Bernhardt, það er að segja ef Sarah Bernhardt stæðist samanburð. Halldóra er ein flottasta dramatíska leikkona landsins á sama tíma og hún er trúður. Hún er leikvera sem leikur jafnt konur og karla,“ segir Benedikt. Í Kona fer í stríð leikur Halldóra kórstjóra sem gerist skemmdarverkamaður og er tilbúin að fórna öllu fyrir móður jörð og hálendi Íslands þar til munaðarlaus stúlka frá Úkraínu stígur inn í líf hennar og Halla stendur frammi fyrir valinu um að bjarga einu barni eða að bjarga heiminum.

Tónlistin túlkar innri baráttu

Kona fer í stríð segir frá Höllu, kórstjóra á fimmtugsaldri, sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn allri stóriðju í landinu. Hún gerist skemmdarverkamaður og er tilbúin til að fórna öllu fyrir móður jörð og hálendi Íslands, þar til munaðarlaus stúlka frá Úkraínu stígur inn í líf hennar og Halla stendur frammi fyrir valinu um að bjarga einu barni eða að bjarga heiminum. Með hlutverk Höllu fer Halldóra Geirharðsdóttir og í öðrum hlutverkum eru Davíð Þór Jónsson, Magnús Trygvason Eliassen, Ómar Guðjónsson, Juan Camillo Roman Estrada og Jóhann Sigurðarson.

Hvernig kviknaði hugmyndin að myndinni?

Kona fer í stríð kom til mín í draumi. Í draumnum var ég staddur í sundinu milli Þjóðleikhússins og Þjóðmenningarhússins þegar kona kemur hlaupandi til mín í rigningu án þess að sjá mig. Þegar hún stoppar sé ég að baki henni hljómsveit sem er að spila fyrir hana, ekki fyrir mig. Ég hugsaði að svona langaði mig til að hafa í myndinni minni. Þarna fæddist neisti. En þetta tengist alfarið konsepti myndarinnar, um leið og þetta er aðferð til að sýna innri baráttu hetjunnar og gera það á sjónrænan og tónlistarlegan hátt,“ segir Benedikt sem tók á móti blaðamanni á heimili sínu í Mosfellsbæ örfáum dögum áður en leið hans lá til Frakklands fyrr í mánuðinum.

Eins og dómsdagsspámaður

Að sögn Benedikts kemur hugmyndin að Kona fer í stríð úr nokkrum áttum. „Okkar kynslóð stendur frammi fyrir risastóru verkefni sem snýr að umhverfis- og loftslagsmálum. Ég held að fáar ef nokkrar kynslóðir í mannkynssögunni hafi fengið stærra verkefni – og þá er ég að tala um ríka hluta mannskynsins, okkur sem fáum að ferðast í flugvélum,“ segir Benedikt og tekur fram að innan við hundrað ár séu þar til borgir á borð við London, Kaupmannahöfn og Amsterdam verði komnar undir vatn. „Og Höfðaborg er nú þegar orðin vatnslaus. Samt eru þetta bara smámunir samanborið við það sem bíður okkar ef hitastigið á jörðinni hækkar um fjórar gráður, eins og allt virðist stefna í, því þá losnar metangasið úr sífrerum sem þýðir að hitinn hækkar í 11 gráður sem þýðir útdauði lífsins á jörðinni.

Þegar maður talar um þetta líður manni eins og dómsdagsspámanni og það langar engan að vera í því hlutverki. Við erum samt komin á þann stað að við þurfum að láta hræða okkur,“ segir Benedikt og rifjar upp að fulltrúar World Bank hafi skorað á hann og fleiri leikstjóra að mennta sig í loftslagsmálum. „Það féll auðvitað ekki í góðan jarðveg hjá kollegum mínum að láta bankamenn segja okkur hvernig sögur við ættum að segja, en almættið talar í gegnum ólíklegustu farvegi. Þessi ógn er einn þráður myndarinnar. Næsta spurning var síðan hvernig sögu mig langaði að segja um þetta. Ég nenni ekki að segja sársaukasögur eins og oft vill brenna við í „art house“-myndum þar sem verið er að hrista helvítis áhorfandann til meðvitundar.

Eitt af því sem ég skoða í myndinni er hin djúpstæða þörf okkar fyrir að vera hetja – eða til að orða það fallegar – að verða að gagni með því að bæta heiminn, skilja eitthvað eftir sig og vinna fyrir aðra. Foreldrahlutverkið er hluti af þessu, því mikil sjálfsfórn felst í því. Þessi þörf, sem ég held að allir búi yfir, er líka afl sem getur flutt okkur yfir línuna og gert okkur að stríðsmönnum þar sem jafnvel tilgangurinn helgar meðalið. Þetta er líka aflið á bak við hryðjuverkamennina sem fórna sjálfum sér til að bjarga heiminum frá okkur heiðingjunum. Þannig að þetta er tvíeggjað sverð og ástríða sem allir tengja við. Hvernig segir maður ævintýri um þetta?“

Ævintýra- og hasarmynd

Sérðu myndina sem ævintýramynd?

„Ævintýri er lykilorð. Mér finnst við ekki segja nógu mikið af ævintýrum. Mér finnst kvikmyndir sem gerðar eru í Norður-Evrópu oft vera um sársauka og eymd. Mér finnst ekki nógu mikið gert af ævintýramyndum. Að sumu leyti er Kona fer í stríð mjög raunsæisleg og farið er mjög nákvæmlega gegnum skemmdarverkin. Þetta er eltingarleikur og þriller. Hún reynir að fylgja lögmálum hasarmyndarinnar. Mig langaði til að gera fyrstu íslensku hasarmyndina, af því að Íslendingasögur eru hasarmyndir þegar best tekst til. Það er svo gaman að segja sögur þar sem aðeins er lýst því sem gerist og sá sem hlustar, les eða horfir getur sjálfur ráðið í hvað er að gerast innan í manneskjunni. Svo langaði mig að gera litríka og hlýja mynd. Orðið skemmtilegt er kannski ekki sexí, en mig langaði að skemmta áhorfendum á sama tíma og ég segði þeim mjög alvarlega sögu. Ég er sú týpa af sögumanni sem leiðist dramatískar sögur sem leika bara á einn streng. Ég hef mikla þörf fyrir að hleypa öðru hvoru inn trúðunum, eins og Shakespeare myndi hafa sagt. Það er svo falleg skilgreining á kómedíu og harmleik að eini munurinn þar á sé endirinn þar sem efnistökin eru að öðru leyti alveg eins.“

Það hljómar eins og vandasamt verði að skilgreina myndina þegar kemur að markaðssetningu og kvikmyndahátíðum.

„Það verður hræðilega flókið fyrir skipuleggjendur kvikmyndahátíða og kvikmyndahúsaeigendur að skilgreina myndina og mér finnst það skemmtilegt. Ég er markhópurinn sem ég miða við – ég og eldri konur, því það erum við sem höfum áhuga á menningu. Meðan myndin var í vinnslu lýsti ég henni sem listrænni, umhverfishasartrylli og söngleik og var þá bent á að söngleikjaskilgreiningin myndi mögulega rugla áhorfendur þannig að við sættumst á að skilgreina myndina sem listrænan umhverfishasartrylli þar sem tónlist léki lykilhlutverk. Það er hrikalega hættulegt og geldandi að þurfa að skilgreina allar listir eftir greinum. Efnið og inntakið þarf að draga formið til sín. Kvikmyndin er staðnað listform þrátt fyrir að vera ung listgrein, aðeins 100 ára, og hafa haft mikil áhrif á aðrar listgreinar. Kvikmyndalistin er í ákveðnum fagurfræðilegum vanda. Ég nenni því ekki að taka tillit til viðmiða eða gilda sem stjórnast af ótta sem er tilkominn vegna þess hversu dýrt listform þetta er og mikil áhætta samfara. Ég skynja mikinn þorsta eftir öðruvísi myndum sem ekki falla fullkomlega í tiltekin skilgreiningarhólf.“

Halldóra Geirharðsdóttir og Benedikt Erlingsson fögnuðu að vonum verðlaununum sem …
Halldóra Geirharðsdóttir og Benedikt Erlingsson fögnuðu að vonum verðlaununum sem kvikmyndin Kona fer í stríð fékk fyrir besta handrit á Critic's Week í Cannes í gærkvöldi, en Benedikt skrifaði handritið í samvinnu við Ólaf Egil Egilsson. Ljósmynd/La Semaine de la Critique

Þú minntist áðan á trúða. Halldóra Geirharðsdóttir hefur sýnt snilldartakta sem trúðurinn Barbara. Lá beint við að leita til Halldóru og biðja hana að leika Höllu?

„Ég hef verið að reyna að lýsa Halldóru fyrir frönskum blaðamönnum og lýsi henni sem íslenskri Söruh Bernhardt, það er að segja ef Sarah Bernhardt stæðist samanburð. Halldóra er ein flottasta dramatíska leikkona landsins á sama tíma og hún er trúður. Hún er leikvera sem leikur jafnt konur og karla,“ segir Benedikt og rifjar í því samhengi upp að Halldóra hafi bæði leikið Don Kíkóta í samnefndu verki Cervantes og Vladimir í Beðið eftir Godot eftir Samuel Beckett auk þess sem hún bregði sér reglulega í hlutverk Smára í tvíeykinu Hannes og Smári.

„Eftir á að hyggja er undarlegt hvað leiðin að Halldóru var löng og grýtt. Mér til afsökunar fékk ég hugljómun um Halldóru frekar snemma í ferlinu, en mátaði einnig fleiri samferðakonur mínar í þetta hlutverk, leikkonur sem eru mér mjög kærar,“ segir Benedikt og rifjar upp að hann hafi upphaflega ætlað sér að fá tvíbura til að leika Höllu og tvíburasystur hennar, en tvíburasystir Höllu er jógakennari sem vill breyta heiminum með því að breyta sjálfum sér, meðan Halla vill breyta heiminum með aðgerðum sínum. Að lokum varð það úr að Halldóra leikur báðar konurnar í myndinni.

Við erum sjálf í bílslysinu

„Halldóra er prófessional systir mín, því við höfum fylgst lengi að allt frá því við lékum saman í Óvitum sem börn. Þegar hún eftir útskrift gekk atvinnulaus um götur Reykjavíkur réð ég hana sem tónlistarmann í einleik mínum Ormstungu, sem hún tók yfir,“ segir Benedikt kíminn. „Seinast unnum við saman í Jesú litla. Samstarf okkar hefur verið mjög farsælt og náið. Ég ber mikið traust til hennar bæði faglega og persónulega.“

Af hverju ákvaðst þú að tefla saman umhverfisvernd og móðurhlutverkinu?

„Hetjan okkar stendur frammi fyrir þeim valkosti að hætta sinni hættulegu sjálfsfórn sem skemmdarverkakona og einbeita sér að því að bjarga þessu barni og verða foreldri. Stóra spurningin er hins vegar hvort það verði einhver heimur til handa barninu ef hún hættir að reyna að bjarga heiminum. Að tala um loftslagsbreytingar sem stórkostleg tækifæri, líkt og fyrrverandi forsætisráðherra gerði, er svipað því að tala um bílslys sem stórkostlegt tækifæri. Málið er bara að við erum sjálf í bílslysinu,“ segir Benedikt og bendir á að þegar rætt sé um loftslagsmálin þurfi líka að skoða fleira.

„Sumir telja að okkur Íslendingum beri siðferðileg skylda til að fórna hálendi Íslands til að hægt sé að framleiða ál, sem er mjög verðmætur og léttur málmur, en 80% af orku okkar fara í álbræðslu. Í ljósi þeirrar aðsteðjandi ógnar sem mannkynið stendur frammi fyrir í loftslagsmálum getur náttúruverndarsinni varla réttlætt það að vernda hálendið. Hins vegar er ekkert launungarmál að heimurinn sem við erum að framleiða álið fyrir er heimur sóunar. Allt einnota ál sem er hent er umhverfisglæpaverk. Lausnin er því að skera niður og minnka neyslu. Við getum ekki réttlætt það að fórna hálendinu fyrir sóunarkúltúr. Ef við viljum verja hálendið verðum við að fókúsera á stóra samhengið, á sóunarkapítalismann eða neyslukapítalismann. Við verðum að breyta lífsstíl og orkustrúktúr á stóru plani til að geta bjargað jörðinni og hálendinu. Það er markmið þessarar manneskju, sem er skiljanlegt. Svo er spurning hversu róttæk manneskjan getur verið í baráttu sinni. Á móti stefnum við sjálfu lýðræðinu sem er hinn heilagi kaleikur okkar heimshluta. Halla er uppreisnarmaður gegn kerfi sem er að sökkva jörðinni, en hún er gerð að uppreisnarmanni gegn lýðræðinu. Hún vill meina að til séu lög æðri mannalögum. Hún kallar til sín náttúruréttinn sem Aristóteles og allir byltingarmenn kalla alltaf til sín. Það er rétturinn til að verja líf okkar, limi og heilsu. Þetta er farið að nálgast guðslög og sharía-lög. Þetta er því hárfín lína og auðvelt að misstíga sig.“

Finnst þér þú vera nógu tímanlega með þessa mynd?

„Ég er örugglega alltof seinn með þessa mynd sem hefði verið frábær í aðdraganda byggingar Kárahnjúkavirkjunar. En kveikjan að myndinni er líka komin þaðan. Ég gleymi því ekki, eins og margir landar mínir, þegar varnaræfingin Norðurvíkingur fór fram 1999 í samstarfi við NATO, stuttu áður en framkvæmdir við Kárahnjúka hófust, og íslenskir ráðamenn ákváðu að velja sem leiksvið þá aðsteðjandi hættu að umhverfis- og náttúruverndarfólk væri að mótmæla inni á hálendinu. Þarna æfði NATO sig í því að drepa borgara í náttúruverndarbaráttu.“

Risastór búðargluggi

Eins og fyrr sagði lauk Critics‘ Week í Cannes í gærkvöldi. Auðvitað var Benedikt spurður hvaða þýðingu það hefði að fá boð á hátíðina til að kynna Kona fer í stríð.

„Það var gífurlegur léttir að fá boð um þátttöku á Critics‘ Week, því það er mikið undir,“ segir Benedikt og bendir á að aðeins séu sjö myndir valdar inn. „Fyrir vikið fær myndin meiri athygli, sem er frábært. Cannes er eins og risastór búðargluggi eða markaðstorg þar sem saman eru komnir allir heildsalar og smásalar í bransanum og dagskrárstjórar annarra hátíða. Oft eru kvikmyndahátíðir lykillinn að því að komast í samband við góðan dreifingaraðila. Cannes er drottning kvikmyndahátíðanna, en fast á hæla henni koma San Sebastián, Berlín, Toronto, Locarno og Sundance. Að lokinni frumsýningu hér heldur Kona fer í stríð í sinn festival-rúnt um heiminn.“

Er ekki erfitt fyrir þig sem skapandi listamann að vera bundinn yfir því að kynna myndina á hinum ýmsu hátíðum næstu tvö árin?

„Ég ætla að taka Lars á þetta,“ segir Benedikt og vísar þar til danska kvikmyndaleikstjórans Lars von Trier sem treystir sér ekki til að ferðast með flugvélum. „Umhverfissporið af því að fljúga mínum ca. 90 kílóum milli hátíða er gífurlegt. Ég mun því ekki hlaupa eftir hverju sem er, enda hægara sagt en gert að vera skapandi manneskja á hótelherbergi á kvikmyndahátíð.“

Ertu kominn með hugmynd að næsta verkefni?

„Já, en markmið mitt er að geta gert kvikmynd án titils. Kynningarplakatið yrði hvítt og á því stæði einvörðungu að um væri að ræða kvikmynd eftir Benedikt Erlingsson,“ segir Benedikt og vísar því alfarið á bug að hann sé kominn með stórmennskubrjálæði.

„Bestu aðstæður fyrir áhorfendur til að sjá mynd eða leiksýningu eru að vita ekki neitt og geta komið að listaverkinu eins og óskrifuðu blaði, sitja í myrkinu og láta koma sér á óvart án þess að búið sé að móta sýn áhorfenda fyrirfram með dómum eða kynningarviðtölum,“ segir Benedikt og viðurkennir fúslega að þennan draum hans sé vandasamt að uppfylla. „Kannski kemst ég einhvern tímann á þann stað að þetta sé hægt. Ég er ekki að tala um þetta út frá sjálfsupphafningu heldur út frá fagurfræðilegum forsendum.“

Benedikt Erlingsson á vinnustofu sinni í Mosfellsbæ. „Mín bíður það …
Benedikt Erlingsson á vinnustofu sinni í Mosfellsbæ. „Mín bíður það ánægjulega verkefni á næsta ári að setja upp leikrit eftir Jón Gnarr, sem er uppáhalds íslenska leikskáldið mitt,“ segir Benedikt sem 2012 leikstýrði Hótel Volkswagen eftir Jón Gnarr á fjölum Borgarleikhússins. „Þetta var leikhúslegt fíaskó, enda urðu sýningar ekki margar. Ég held að það hafi verið Jóni sjálfum að kenna því hann var borgarstjóri á þessum tíma og menn vilja ekkert sjá sýningar eftir borgarstjóra. En sýningin var stórkostleg og leikararnir kunna ennþá textann sinn... Næsta verk verður bæði súrt og sætt, en umfjöllunarefnið er kjöt,“ segir Benedikt og tekur fram að áætluð frumsýning sé í Þjóðleikhúsinu vorið 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Súrt og sætt verk um kjöt

Bíða þín einhver verkefni í leikhúsinu?

„Mín bíður það ánægjulega verkefni á næsta ári að setja upp leikrit eftir Jón Gnarr, sem er uppáhalds íslenska leikskáldið mitt,“ segir Benedikt sem 2012 leikstýrði Hótel Volkswagen eftir Jón Gnarr á fjölum Borgarleikhússins. „Þetta var leikhúslegt fíaskó, enda urðu sýningar ekki margar. Ég held að það hafi verið Jóni sjálfum að kenna því hann var borgarstjóri á þessum tíma og menn vilja ekkert sjá sýningar eftir borgarstjóra. En sýningin var stórkostleg og leikararnir kunna ennþá textann sinn og vitna í verkið þegar þeir hittast á förnum vegi. Við stefnum að því að hafa samlestur á verkinu í haust. Næsta verk verður bæði súrt og sætt, en umfjöllunarefnið er kjöt,“ segir Benedikt og tekur fram að áætluð frumsýning sé í Þjóðleikhúsinu vorið 2019.

„Ég hef ekkert meira um verkið að segja. Áhorfendur eiga bara að treysta því að þegar við Jón vinnum saman verður útkoman stórkostleg,“ segir Benedikt og rifjar upp að síðast þegar þeir Jón unnu saman hafi leikskáldið varla haft tíma til að skrifa. „Hann var mjög upptekinn maður, enda borgarstjóri, þannig að ég réð mann til að heimsækja hann reglulega og sitja yfir honum meðan hann var í baði og skrifa upp eftir honum verkið. Þannig varð það verk til, Jón talaði það eins og véfrétt. Núna vinnur hann bara sem leikari í Þjóðleikhúsinu og situr sjálfur á rassinum við skriftir.“

Hvort kallar sterkar á þig, kvikmyndin eða leikhúsið?

„Ég held að ég sé mjög heppinn með það að geta farið á milli leikhússins og kvikmyndarinnar. Fyrir mér eru þetta náskyldir miðlar og ég get stefnt að því að verða íslenskur Ingmar Bergman og fá mitt einkaklósett í öllum leikhúsum þjóðarinnar. Það er líka fjárhagslega hagkvæmt að geta flakkað milli miðla, því það líða fimm ár milli fyrstu og annarrar myndar minnar. Þú lifir ekki á myndinni þinni í meira en eitt og hálft ár og eitthvað verða börnin að borða. Það er ekki slæmur kostur að fá að skapa og segja sögur í leikhúsinu,“ segir Benedikt og bendir á hversu ósanngjarnt sé að hampa alltaf leikstjóranum fyrir listaverk sem sé í reynd afrakstur samsköpunar.

„Það er alltaf svo mikil áhersla lögð á höfund eða leikstjóra kvikmyndar, sem á sér auðvitað praktískar skýringar. En um leið er það í raun svo óréttlátt, af því að enginn gerir kvikmynd einn – ekkert frekar en leiksýningu – en ef eitthvað er þá er kvikmynd meira samsköpunarferli en leiksýning. Þegar manni er lyft upp á pall og tekur við verðlaunum stendur maður á öxlum samstarfsfólks síns, sem er ekki einu sinni boðið á hátíðina,“ segir Benedikt og tekur fram að hann sé svo lánsamur að hafa í listræna teymi sínu Bergstein Björgúlfsson kvikmyndatökumann, Davíð Þór Jónsson tónlistarmann og Davíð Alexander Corno klippara sem einnig komu að gerð Hross í oss. „Svo hafa þeir staðið mér nærri leikhúsmennirnir Snorri Freyr Hilmarsson og ekki síst meðhöfundurinn minn Ólafur Egill Egilsson. Það er þessari áhöfn að þakka og öllum um borð að þetta strandhögg okkar hér í Cannes hefur heppnast.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson