Áhorfendur tísta á sýningum

Ingunn Lára Kristjánsdóttir, Rosie Middleton og Ísabella Leifsdóttir á æfingu.
Ingunn Lára Kristjánsdóttir, Rosie Middleton og Ísabella Leifsdóttir á æfingu. Ljósmynd/Ómar Sverrisson

#bergmálsklefinn nefnist ný íslensk-ensk ópera um kynjahyggju á samskiptamiðlum frá tónleikfélaginu Aequitas Collective í samstarfi við Alþýðuóperuna sem frumsýnd verður í Tjarnarbíói í kvöld kl. 20.30. Leikstjóri er Ingunn Lára Kristjánsdóttir sem jafnframt skrifaði handrit sýningarinnar, tónlistina samdi Michael Betteridge, með hlutverk fara Rosie Middleton, Ísabella Leifsdóttir, Jónína Björt Gunnarsdóttir og Ívar Helgason, en um píanóleik sér Matthildur Anna Gísladóttir.

„Hugmyndin að því að skoða niðurlægingu, smánun og sambönd á netinu kviknaði af minni eigin reynslu af því að vera á samfélagsmiðlum á borð við Twitter og Facebook,“ segir Ingunn og tekur fram að bókin So You've Been Publicly Shamed eftir Jon Ronson hafi líka veitt sér mikinn innblástur.

Sjálfsmynd kostaði vinnuna

„Ég fékk leyfi höfundar til að nota bókina og tók í framhaldinu líka viðtöl við konur á Íslandi sem hafa orðið fyrir miklu netníði eða tengjast því á einhvern hátt. Þeirra á meðal eru Hildur Lilliendahl og Margrét Erla Maack,“ segir Ingunn og rifjar upp að sjálfsmynd á Facebook og Twitter hafi kostað hana vinnuna.

Ingunn Lára Kristjánsdóttir
Ingunn Lára Kristjánsdóttir

„Ég var að vinna baksviðs í bresku leikhúsi þar sem Martin Freeman úr Hobbitanum og Sherlock var meðal leikara. Að lokinni vel heppnaðri aðalæfingu spurði ég hann hvort ég mætti taka sjálfsmynd af mér með honum og hann tók því bara vel. Ég deildi myndinni bæði á Facebook og Twitter. Viku seinna var ég kölluð á fund með stjórnendum leikhússins þar sem ég var rekin fyrir að deila myndinni. Þá kom í ljós að þeir vildu ekki að starfsmenn leikhússins deildu slíkum myndum, þótt þess væri hvergi getið í starfsreglum hússins, en þeir ákváðu greinilega að gera mitt mál að fordæmi. Ég missti því vinnuna tveimur dögum fyrir útskrift, sem var mér mikið áfall, en stressið sem þessu fylgdi olli tímabundinni andlitslömun hjá mér, sem er þekkt viðbragð við streitu,“ segir Ingunn og tekur fram að sem betur fer hafi lömunin gengið til baka. Ingunn útskrifaðist úr Rose Bruford College of Theatre and Performance 2014 með menntun í leik, skrifum og leikstjórn, en hún er núna að klára meistaranám í ritlist við HÍ.

„Í #bergmálsklefanum kynnast áhorfendur fjórum persónum sem segja sögur sínar, sem fléttast saman í verkinu. Sýningin hverfist um persónu sem Rosie Middleton syngur og byggist á reynslu Hildar Lilliendahl og Justine Sacco, sem Jon Ronson skrifar um í bók sinni en mannorði Sacco var rústað á samfélagsmiðlum vegna kaldhæðins tísts sem aðeins uppistandarar hefðu komist upp með.“

Með símann í andlitinu

Í #bergmálsklefanum gefst áhorfendum tækifæri til að hafa áhrif á framvindu verksins með því að tísta gegnum Twitter. „Á sviðinu verður skjár þar sem tíst áhorfenda birtast í beinni. Ég fékk forritara til að útfæra kerfið þannig að allt sem áhorfendur tísta birtist nafnlaust á skjánum. Verkið felur í sér rannsókn á því hvað áhorfendum dettur í hug að tísta þegar þeir vita að tístin birtast nafnlaust,“ segir Ingunn og bendir á að persónan sem Ísabella Leifsdóttir syngur eigi nánast heima á samfélagsmiðlum og tali stöðugt við áhorfendur og syngi það sem birtist á skjánum. „Þannig taka áhorfendur í raun þátt í því að skrifa senuna og geta heyrt sinn texta sunginn í beinni,“ segir Ingunn og tekur fram að ólíkt öðrum leikhúsum verði áhorfendur ekki beðnir að slökkva á símum sínum þar sem ljós frá þeim geti truflað aðra gesti. „Ég mun minna alla á að hafa kveikt á símum sínum og nota þá óspart meðan á sýningunni stendur,“ segir Ingunn, en sýningin er leikin án hlés og tekur um 70 mínútur. „Ég er mjög spennt að upplifa hvernig samspilið verður þegar leikararnir sjá áhorfendur upplýsta af köldu ljósi símskjáanna. Mig langar að skoða hvernig samfélagið okkar er orðið þegar við erum stöðugt með símann í andlitinu. Mig langar að sjá hversu fjölhæfir áhorfendur eru, geta þeir tíst á sama tíma og þeir fylgjast með óperunni,“ segir Ingunn og bendir á að áhorfendum gefist líka kostur á að tísta gegnum síðuna echochamber.is ef þeim hugnast ekki að tístin birtist á þeirra Twitter.

Að sögn Ingunnar felst ákveðin áskorun í því fyrir tónskáldið Michael Betteridge að byggja sýninguna að hluta til á spuna. „Michael Betteridge er búinn að skrifa ákveðnar reglur fyrir Ísabellu. Hann gefur henni ákveðinn takt og ákveðnar nótur sem hún má leika sér með í spunanum,“ segir Ingunn og tekur fram að afar spennandi sé að skoða tungumál netsins gegnum tónlist.

Tungumálið í stöðugri þróun

„Óperan hentar mjög vel sem miðill til að skoða netið og samskipti. Tungumálið er í stöðugri þróun og samskiptamátar okkar breytast. Núorðið fer meirihluti samskipta okkar við fólkið í lífi okkar fram í gegnum netið. Ef það verður raunin áfram er tilvalið að skoða þetta tungumál í listformi á borð við óperu. Þetta er nútímaópera, þannig að fólk sem er hrætt við klassískar óperur þarf ekki að óttast þessa sýningu, því það geta allir notið hennar,“ segir Ingunn og bendir á að flestar óperur sem hún hafi séð byggist á litlum texta og mikilli endurtekningu.

„Í sýningunni okkar erum við að vinna með svo mikinn texta að hann verður á köflum yfirþyrmandi, sem kallast á við þá textaofgnótt sem birtist okkur á netinu,“ segir Ingunn og bendir á að útkoman þegar ólíkum formum og stílum sé blandað saman geti iðulega komið á óvart. „Það birtist skýrt í söngleiknum Hamilton þar sem fjallað var um fyrsta fjármálaráðherra Bandaríkjanna í rapp/hipphopp-söngleik. Það reyndist mjög góð blanda og ég myndi segja að það sama ætti við um okkar sýningu.“ Þess má að lokum geta að sýningin er sungin jöfnum höndum á íslensku og ensku, en þýðingar verða birtar á skjá. Næstu sýningar verða 27., 29. og 31. maí og eru miðar seldir á tix.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson