Þreytandi lýðræði

Logi Bergmann Eiðsson.
Logi Bergmann Eiðsson.

Í dag er kosið. (Eða í gær fyrir ykkur sem takið sunnudagsblaðið bókstaflega.) Mér finnst að við eigum að nýta kosningaréttinn við hvert tækifæri sem gefst. Ég hef sjálfur kosið í öllum kosningum sem hafa verið haldnar síðan ég fékk rétt til þess. Stundum einhverja bölvaða vitleysu, eins og gengur. En ég hef alltaf mætt á kjörstað og skilað atkvæðinu mínu. Mér finnst það gaman og lít á það sem lýðræðislega skyldu mína að kjósa. Það tók talsverðan tíma að fá þennan lýðræðislega rétt í gegn og mér finnst það hrein vanvirðing að nýta ekki þann rétt.

Við búum í landi þar sem lýðræði er svo sjálfsagt að kannski gerum við okkur ekki alltaf grein fyrir því hversu mikilvægt það er. Við tökum því sem gefnum hlut. Það hlýtur að hljóma undarlega fyrir þá sem ekki ganga að lýðræði sem vísu að hlusta á okkur væla yfir því að hér sé alltof oft kosið. Hver hefði trúað því að lýðræði gæti verið þreytandi? Að við fengjum of mörg tækifæri til að segja skoðun okkar á því hver eigi að fara með völdin í samfélaginu. Er það virkilega svo slæmt? Svo má ekki gleyma því hvað Bogi Ágústsson og Ólafur Þ. Harðarson að andvarpa sig inn í nóttina er krúttlegt sjónvarpsefni.

Einhverjir segja kannski að þessar kosningar skipti ekki máli. Fátt finnst mér fjær sanni. Sveitarstjórnarkosningar snúast um nánasta umhverfi okkar, skipulag, framkvæmdir og hvernig við viljum haga bænum eða sveitinni okkar. Hvernig samfélag viljum við? Á hvað viljum við leggja áherslu? Hverju vilt þú breyta?

Sumir segja að enginn flokkur henti þeim. Það getur varla átt við í Reykjavík. Ef þú getur ekki námundað skoðanir þínar við stefnu einhverra þessara sextán framboða þá hlýturðu að vera á einhverri mjög sérstakri línu. Það er kannski enginn að tala um að framboðið sé eins og sniðið að sjónarmiðum þínum í öllum málum en eitthvað af þeim hlýtur að vera líklegra en annað. Veldu það.

Svo eru alltaf þeir sem ætla að skila auðu. Til að mótmæla. Ég er með fréttir fyrir þá. Í fyrsta lagi veit enginn hverju þú ert að mótmæla. Auða atkvæðið þitt gæti jafnvel verið túlkað sem mótmæli við einhverju sem þú ert algjörlega sammála. Í öðru lagi þá er ekki eins og auðu atkvæðin myndi autt sæti í bæjarstjórn sem þú gætir bent á og sagt með stolti: Ég stóð fyrir þessu! Og í þriðja lagi. Það er öllum sama. Stjórnmálamenn eru ekki að fara að gráta sig í svefn yfir fjölda auðra atkvæðaseðla. Ég get alveg lofað ykkur því.

Ef þú kýst ekki þá missirðu líka réttinn til að rífa kjaft. Ef þú hefur ekki kosið þá ertu í raun að segja að þú ætlir ekki að taka þátt í að ákveða hverjir fara með stjórn í bænum þínum og þar með er voða erfitt að fara að rífast í þeim sem tóku við.

En það er líka sennilega rétt að vara fólk við því að trúa kosningaloforðum. Þau eru eins og veðurspáin – undir hælinn lagt hvort þau gangi eftir. En það er vissulega gaman á þessum tímum umhverfisverndar að sjá að það er hægt að endurnýta gömul kosningaloforð. Hver man svosem hvað var sagt fyrir fjórum árum? En það er sennilega hægt að hafa það fyrir reglu fyrir fólk að kjósa ekki flokk sem lofar einhverju sem það er algjörlega ósammála. Það væri eftir öðru að þau loforð kæmu strax til framkvæmda.

Annars ætti ég kannski ekkert að vera að segja fólki sem nennir þessu ekki að kjósa. Það er líka það frábæra við lýðræðið að við ráðum því sjálf hvað við gerum.

Pistill Loga birtist fyrst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og er hér einnig birtur í heild sinni.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson