Ein mesta landkynningin framundan

Steindi Jr og Anna Svava Knútsdóttir flytja skilaboðin um að ...
Steindi Jr og Anna Svava Knútsdóttir flytja skilaboðin um að allir geti staðið með Íslandi á HM í nýrri herferð á vegum Íslandsstofu í tengslum við HM2018 í Rússlandi. Mynd/InspiredByIceland

Inspired by Iceland kynnti í dag nýtt myndband þar sem öllum er boðið að ganga til liðs við Team Iceland og styðja við Ísland á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Rússlandi í júní. Það eru þau Steindi Jr. og Anna Svava Knútsdóttir sem flytja skilaboðin um að allir geti staðið með Íslandi á HM.

Eitt stærsta verkefnið hingað til

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu sagði í viðtali í Magasíninu á K100 að markmiðið með verkefninu væri að fá fólk erlendis til að lýsa yfir stuðningi við landsliðið og um leið er verið að kynna hvað Ísland stendur fyrir. Hún segir tækifærið í kringum HM í Rússlandi vera einstaklega mikilvægt.  „Þetta er bara eitt stærsta tækifæri sem hefur nokkurn tímann boðist í landkynningu, í þeim skilningi. Þarna gefst okkur líka tækifæri að kynna landið á annan máta,“ segir Inga Hlín.

Horft til framtíðar

Hún segir þau hafa unnið náið með KSÍ til að fá blaðamenn hingað til lands til að kynna sér landið og fjölbreytt atvinnulíf. „Það að geta sagt þessa sögu og ná í gegn, það er ekkert alveg sjálfsagt. Við erum svolítið lítil þarna úti í heimi,“ útskýrir hún. Spurð að því hvort við þurfum nokkuð að auglýsa okkur meira þar sem að yfir 2 milljónir manna séu þegar farnir að sækja okkur heim. „Við þurfum líka að hugsa um ferðamennina sem eiga eftir að koma,“ segir hún og lýsir því sem svo að það þurfi að viðhalda kynningu landsins og það þurfi að horfa til þess að Ísland verði sjálfbær áfangastaður til framtíðar.

10 milljónir sáu forsetahjónin í Team Iceland

Team Iceland herferðin hófst 8. mars með myndbandi þar sem forsetahjónin buðu heimsbyggðinni að taka þátt og hafa nú um 10 milljón manns horft á myndbandið. Umfjallanir um Ísland í tengslum við þátttökuna á HM hafa birst í fjölmörgum erlendum miðlum víða um heim og fjöldi erlendra fjölmiðlamanna hafa komið til landsins til að kynna sér Ísland nánar. Fjöldi umfjallana hafa birst í erlendum miðlum og tæplega 30 þúsund manns frá 168 löndum hafa nú þegar skráð sig í Team Iceland.

Samstarf stjórnvalda og fyrirtækja

Markaðsherferðin er unnin fyrir íslenskt atvinnulíf með það markmið að auka vitund um Ísland sem góðan stað til að heimsækja, sem upprunaland gæða í matvælum, vörum og framleiðslu og tilvalinn stað fyrir fjárfestingar og viðskipti. Ákveðið var að fara af stað með verkefnið til að nýta það mikla kastljós sem fylgir þátttöku Íslands á HM í Rússlandi til að sýna hvað Ísland hefur upp á að bjóða. Verkefnið er unnið í samstarfi stjórnvalda og fyrirtækja. Helstu aðilar eru Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök iðnaðarins sem eru fulltrúar fjölmargra fyrirtækja ásamt Icelandair og Bláa lóninu. Íslandsstofa heldur utan um framkvæmd markaðsverkefnisins sem er unnið undir merkjum Inspired by Iceland.

Tengill á myndbandið má nálgast hér.

Tekið er við skráningum í „Team Iceland“ á eftirfarandi vefslóð: www.teamiceland.com

Þeir sem ganga í Team Iceland geta unnið ferð til Íslands til að horfa á fyrsta leikinn gegn Argentínu 16. júní hér á landi.

https://k100.mbl.is/brot/spila/3843/

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú stendur eins og klettur í öllu því róti sem í kringum þig er. Leystu fyrst þinn vanda og þá rekst allt hitt í kjölfarið.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú stendur eins og klettur í öllu því róti sem í kringum þig er. Leystu fyrst þinn vanda og þá rekst allt hitt í kjölfarið.