Heimsbyggðin fylgdist með þvottabirni

Þvottabjörn, þó ekki sá hinn sami og fréttin fjallar um.
Þvottabjörn, þó ekki sá hinn sami og fréttin fjallar um. mbl.is/Pexels

Íbúar í St. Paul í Minnesota í Bandaríkjunum ráku augun í nokkuð óvenjulega sjón en þvottabjörn hafði komið sér fyrir á annari hæð ráðhússins á þriðjudaginn. Upphaflega var reynt að leggja prik að þvottabirninum svo hann gæti klifrað niður. Bjargvættirnir höfðu ekki erindi sem erfiði og klifraði björninn yfir á næstu byggingu. Næsta bygging reyndist vera 25 hæða hús og hóf þvottabjörninn að klifra hann.

Starfsmaður ríkissútvarpsins í Minnesota, Tim Nelson, fylgdist með þvottabirninum og skrifaði uppfærslur á Twitter með myndum. Fljótlega fóru fleiri að taka myndir af birninum og birta þær undir myllumerkinu #mprraccoon

Undir kvöldið komst hann svo á þak hússins þar sem starfsmenn dýraeftirlitsins hörfðu komið fyrir mat, vatni og búri. Þegar björninn var fangaður kom í ljós að hann var tveggja ára kvendýr í ágætisstandi. Henni var svo sleppt aftur út í náttúruna daginn eftir. Margir fylgdust með svaðilför þvottabjörnsins og var hægt að fylgjast með beinni útsendingu af honum á Twitter. Alicia Lewis starfsmaður fjölmiðilsins KARE11 tók saman stutt myndskeið af hrakningum björnsins. 

mbl.is