85 prósent í símanum á klósettinu

Aldamótakynslóðin er alltaf í símanum.
Aldamótakynslóðin er alltaf í símanum. mbl.is/Pexels

Í könnun á vegum bandaríska fyrirtækisins SureCall viðurkenndu einn af hverjum sex á aldursbilinu 18-36 ára að þeir noti símann á meðan kynlífi stendur. 

Fólk á þessum aldri er fætt á árunum 1982-2000 og er stundum kallað aldamótakynslóðin, þar sem hún ólst upp í kringum aldamótin. Því er stundum fleygt fram að ungu kynslóðirnar séu alltaf í símanum og þessi könnun ýtir undir þær staðhæfingar. 

Könnunin sýndi einnig að 85 prósent aldamótakynslóðarinnar notar símann meðan þau eru á klósettinu. Þá voru 43 prósent sem sögðust ekki geta farið í sturtu án þess að hafa símann meðferðis. 1137 svöruðu könnuninni, en hún leiddi einnig í ljós að það eru fleiri aldurshópar sem nota símann á klósettinu. 78 prósent á aldrinum 35-51 ára sagðist nota símann á klósettinu og 53 prósent á aldrinum 52-70 ára. 

mbl.is