Þurfa nýja drauma til að eltast við

Brain Police er langt frá því að vera hætt.
Brain Police er langt frá því að vera hætt. Ljósmynd/Hilmir Arnarson

„Maður er furðurólegur miðað við þetta allt saman, ennþá allavega. Svo verður maður örugglega hríðskjálfandi þegar við verðum komnir baksviðs á morgun,“ segir Jón Björn Ríkharðsson trommuleikari Brain Police sem hitar upp fyrir Guns N‘ Roses á Laugardalsvelli annað kvöld.

Að sögn Jóns höfðu tónleikahaldarar samband við þá í vor og svo fór ákveðið ferli í gang, en umboðsmenn Guns N‘ Roses þurfa að samþykkja þá sem hita upp. „Við sendum pressupakka út sem þeir samþykktu. Þetta er búið að vera staðfest hjá okkur síðan í júní,“ segir Jón sem segist ekki hafa þurft að hugsa sig lengi um þegar kallið kom.

„Ætli ég hafi ekki þurft að hugsa mig um í svona eina og hálfa sekúndu,“ segir hann. En Guns N‘ Roses er ekki fyrsta stórhljómsveitin sem piltarnir í Brain Police hita upp fyrir. Þeir félagar stigu nefnilega á svið í Egilshöll áður en Metallica tryllti lýðinn á risatónleikum árið 2004. Tónleikarnir voru þeir stærstu á sínum tíma en tónleikarnir á morgun verða enn stærri. „Þessir slá þeim út.“

Jón segir Metallica þó vera meiri hetjur í sínum augum. „En maður veit alveg að Guns N Roses er gríðarlega merkilegt band og frábært að þeir séu að koma saman aftur. Þetta er meiriháttar að geta sett það á ferilskrána að hafa stigið á stokk með Guns N‘ Roses. Nú eru allir draumarnir búnir að rætast, maður verður að fara að finna nýja drauma til þess að eltast við.“

„Þetta var símtal sem ég átti ekki von á því að fá“

„Ég held að fæstir hafi átt von á því að við værum að fara að hita upp fyrir Guns N‘ Roses, eiginlega allra síst við sjálfir. Þetta var símtal sem ég átti ekki von á því að fá,“ segir Jón, en hljómsveitin Brain Police hefur ekki verið mjög áberandi síðastliðin ár þó þeir komi reglulega saman og spili.

Frá tónleikum Brain Police á Secret Solstice árið 2014.
Frá tónleikum Brain Police á Secret Solstice árið 2014. mbl.is/Eggert

Jón segir þá hafa verið rólega undanfarin ár, en söngvari sveitarinnar, Jens Ólafsson, er búsettur í Danmörku sem gerir þeim erfiðara um vik. „En við höfum alltaf spilað á hverju ári, einhver nokkur gigg og ég held að við höldum því áfram. Á meðan við erum í sitthvoru landinu er erfitt fyrir okkur að halda þessu gangandi, við höfum alltaf verið þannig hljómsveit að við semjum allt saman á æfingum. Þetta er meira en að segja það að vera að æfa bara þrír og svo kemur söngvarinn bara korter í gigg.“

Þeir eru þó langt frá því að vera hættir. „Við dúkkum upp hér og þar þegar menn eiga minnst von á,“ segir Jón. Upphitun fyrir tónleika Guns N‘ Roses á morgun er það eina sem er á formlegri dagskrá Brain Police í ár, en Jón segist reikna með að þeir komi saman í lok árs, enda þýði ekki annað en að halda upp á 20 ára afmæli sveitarinnar.

Á morgun ætla þeir að spila öll lögin sem fólk vill heyra, en Brain Police stígur á svið klukkan 17:15. „Við hvetjum fólk til að mæta snemma, taka með sér góða skapið og hafa gaman.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant