Það féllu bæði svita- og táradropar en líka...

Fannar Sveinsson, Dóri DNA, Vala Kristín Eiríksdóttir og Júlíana Sara …
Fannar Sveinsson, Dóri DNA, Vala Kristín Eiríksdóttir og Júlíana Sara Gunnarsdóttir.

Leikkonurnar Vala Kristín Eiríksdóttir og Júlíana Sara Gunnarsdóttir eru handritshöfundar nýrra framhaldsþátta, Venjulegt fólk, sem sýndir verða hjá Símanum í haust. Þær gerðu handritið með Halldóri Halldórssyni eða Dóra DNA eins og hann er kallaður og Fannari Sveinssyni. Vala og Júlíana segja að þættirnir fjalli um ungar konur og stutt sé í grínið. Sjálfar eru þær alvanar að grínast því þær voru með sjónvarpsþættina Þær tvær. 

„Í þetta skipti erum við að skrifa framhaldsþætti en höldum okkur þó enn við gamanið. Þættirnir fjalla um tvær ungar konur sem hafa verið vinkonur frá því í leiklistarskóla, önnur er orðin húsmóðir, gift delluóðum manni og löngu búin að gefa upp von um líf í leiklistinni. Hin er enn þá að elta leikaradrauminn í örvæntingu. Þær fá síðan tækifæri lífs síns þegar þeim er boðið að vera með sjónvarpsþátt á besta tíma. Óvæntir hlutir gerast og húsmóðirin slær í gegn á meðan hin klúðrar stóra tækifærinu sem reynir á vináttu vinkvennanna,“ segja Vala og Júlíana, spurðar um hvað þættirnir fjalla. 

Hvernig kom þetta til?

„Við fengum símtal í lok síðasta árs um að þeir hjá Símanum vildu skoða hugsanlegt samstarf. Þá vorum við með allt aðra hugmynd í bígerð en það var ekki fyrr en Fannar Sveinsson kom inn í þetta að þessi tiltekna hugmynd fæddist. Fyrir það vorum við með ritstífluna frægu en svo varð allt í einu auðveldara að koma orðum niður á blað sem urðu að senum, sem urðu síðan að þáttum og að lokum heilu handriti. Dóri DNA kom síðan inn í þetta snemma á ferlinu og fengum við því helstu snillinga landsins til að skrifa með okkur. Svo við erum afar þakklátar þeim Fannsa og Dóra okkar,“ segja þær. 

Á dögunum skiluðu þau inn lokadrögum að handritinu og hefjast tökur í þessari viku. Vala og Júlíana þekkjast vel en þær skrifuðu og léku í þáttunum Þær tvær. En nú eru þær ekki lengur tvær eftir að Fannar og Dóri DNA bættust við í partíið. 

„Fannar mun einnig halda áfram með okkur í næsta fasa þar sem hann verður leikstjóri verkefnisins eða þáttanna,“ segja þær. 

Þegar Vala og Júlíana eru spurðar að því hvað þær fengu út úr þessu verkefni segjast þær aldrei hafa tekist á við stærra verkefni og það hafi reynt mikið á taugarnar. 

„Þetta er náttúrulega margfælt stærra verkefni en við höfum nokkurn tímann tekist á við. Í sketsaskrifum ertu bara að skrifa eina stutta sögu í einu en þessi sería er saga sem gengur út í gegnum alla þættina. Þá þarf að hanna sögulínu fyrir margar persónur sem svo skarast og hafa áhrif innbyrðis. Ekkert okkar nema Dóri hafði reynslu af slíkum skrifum og hann var því algjörlega ómissandi í hópinn. Hann náði að styrkja allar hugmyndirnar okkar og skóla okkur rækilega til. Ferlið var óvenjustutt fyrir verkefni af þessari stærðargráðu og því rosalega krefjandi. Það féllu bæði svita- og táradropar en hlátursköst voru þó algengari. Við erum mjög stolt af útkomunni og hlökkum mikið til að leika þetta. Nú er verkefnið líka að eignast sitt eigið líf þar sem við erum komin með magnað fólk í hópinn, fólk framleiðslumegin og leikara sem hafa gert þetta milljón sinnum. Allir setja sinn svip á vinnuna svo á endanum verður þetta okkar allra.“

Er þetta gróft?

„Nei við getum nú ekki sagt það. Húmorinn er oft beittur og stundum svartur en við erum nokkuð viss um að áhorfendur gangi óskaddaðir frá þessu.“

Getið þið lýst húmornum ykkar? 

„Það er erfitt að segja. Við getum bilast úr hlátri yfir öllu frá fáguðum vitsmunalegum húmor yfir í fólk að renna og detta. En við erum báðar mjög veikar fyrir „tragíkómídíu“, þar sem tekist er á við mjög raunveruleg og stundum sorgleg mannleg vandamál. Því oft eru erfið augnablik í lífinu í raun sjúklega fyndin.“

Leikarar þáttanna eru Hilmar Guðjónsson, Arnmundur Ernst Backman, Sigurður Þór Óskarsson, Guðrún Daníelsdóttir og Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir auk fleiri leikara en í þáttunum eru um 60 hlutverk. 

En hvað er annars að frétta af ykkur fyrir utan þessa grínseríu? 

„Það er nú ekki mikið meira að frétta heldur en þetta. Ég mun halda áfram að vinna í Borgarleikhúsinu og verð áfram í Rocky Horror og fleiri verkefnum. Með haustinu reyni ég líklegast að vinna upp svefn og vonandi skreppa í stutt frí,“ segir Vala og Júlíana grípur orðið: 

„Ég hef verið að blanda flugfreyjustarfi við þessa vinnu og mun líklegast koma til með að halda því áfram í vetur. Annars svona almennt séð reyni ég að vera geggjuð eiginkona og móðir og það hlakkar því í mér að geta varið aðeins meiri tíma með þeim í haust þegar törnin klárast,“ segir Júlíana. 

Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir.
Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant